Sérkennilegt verður það að segjast að ekki hefur tekist að gera svo mikið sem eina Ghostbusters bíómynd (hvort það er framhald, endurræsing eða létt rímeik…) síðan 1984 án þess að þurfi í einhverjum mæli að endurvinna og blóðmjólka hráefni úr upprunalegu myndinni. Ivan Reitman klikkaði meira að segja sjálfur á því að reyna með annarri tilraun. Ghostbusters II (1989) fór trekk-í-trekk í gegnum sama strúktúr og endurtók slatta sem small saman í forveranum. Ghostbusters (2016) frá Paul Feig stokkaði upp í leikhópi og tímalínum en var að mestu lin kópering á söguþræði fyrstu myndarinnar. Talandi um að eltast við eigin drauga…

Þá kemur Ghostbusters: Afterlife árið 2021 og kallar sig ‘þriðju’ myndina í upprunalegri tímalínu auk þess að vera þetta staðlaða ‘legasequel.’ Jason Reitman tók við gamla kefli föður síns og fór glæsilega af stað með nýjungar og skemmtileg ný andlit í fyrri helmingnum. Í þeim seinni er eins og sagan hafi ekki getað haldið í sér og staðist það að endurvinna illmenni og element úr fyrstu myndinni – með þvældum og máttlausum árangri. Ágætis bíómynd samt yfir heildina og temmilega einlæg, einnig nóg af svigrúmi til að slípa stefnuna til og betrumbæta í næstu lotunni, sem að sinni ber undirtitilinn Frozen Empire. Loksins nýjungar!

Eða ekki…

Ghostbusters: Frozen Empire er ofhlaðin og ofuralvarleg skrípóveisla af draugagangi, hamagangi en nú er búið að sameina brandaralegan háan fjölda persóna, gömul andlit, þau nýju, og fleiri viðbættum nýliðum að sinni. Það sem ætti að vera fjör fuðrar fljótt upp í sýnilega söluvöru með enn einn tékklistann þar sem smalað er saman eins miklum upphrópunum og poti til fyrstu myndarinnar. Nostalgían er sölupunkturinn, sagan er í baksæti kaggans. Og við vitum öll að kagginn er flottur. Peningurinn sést á skjánum.

Myndinni er leikstýrt af öðrum höfundi Afterlife, Gil Kenan, manninnum á bak við lítt séðu Poltergeist endurgerðina, Monster House og City of Ember. Allavega, í besta fallinu hangir Frozen Empire saman á ágætis sjálfstæðum atriðum og litlum mómentum en handritslega er allt í hreinni klessu. Söguþráðurinn reynir að ná skriði en þvælist innan um sarp af öðrum sub-plottum sem illa gengur að þræða saman. Þá verður þetta allt bara bjánalega teygt og troðið tilhlaup í átt að voðalega orkulausum og aulalegum klæmaxi.

Þegar vísað er í taumlausa ‘Fan service’ nálgun er það yfirleitt talin neikvæð lýsing þegar það á við um efnisþætti sem virka óþarflega ofnir inn til þess eins að minna á gömlu tímana, betri ævintýrin. Það er jafnvel smá þefur af þessu eins og yfirráðamenn Sony hafi litið aðdáunarverðum augum til Star Wars mynda J.J. Abrams og talið það gáfulega hugmynd að reyna að framleiða einhverja sams konar samsuðu – sem á að gera öllum aðdáendum, krökkum og ömmum þeirra til geðs. Á blaði…

Leikhópurinn er frábær á blaði og ég kann virkilega vel við helstu persónurnar sem Afterlife erfði – þá Phoebe Spangler sérstaklega – en undarlega margir eru hálf sofandi og í tilfelli fólks eins og Bill Murray og Annie Potts, augljóslega bara á svæðinu vegna launanna. Grúppudýnamíkin er eiginlega hálf sorgleg, því á betri degi hefur geislað meira af McKenna Grace, Finn Wolfhard, Celeste O’Connor, Paul Rudd, Carrie Coon og Ernie Hudson.

Heppilega er eitthvað af nýjum hugmyndum stráð þarna á milli línanna, eins og óvænt vinátta Phoebe við draugastúlku að nafni Melody. Svo kemur þetta stóra ‘En’, því þegar svona margir boltar eru á lofti er lítið unnið úr öllu sem er yfirnáttúrulega áhugavert. Plottið stýrir sínum pappapersónum þegar betur væri kosið að leyfa persónunum að halda plottinu á lofti – og plottið er nógu flækt fyrir. Fáeinir plúsar mega reyndar skrifast á prýðilega ógnandi tölvupixlagubb af skúrki sem kallast Garraka, en annað en svala krafta fær hann lítið rými til að gera eitthvað spennandi. Hasarinn er heldur ekki upp á marga fiska og toppar aldrei eftir fínar fyrstu tíu mínúturnar. Skömmu eftir það fara öll batterí ræmunnar að tæmast hraðar en mætti gera kröfur um.

Grínararnir Patton Oswalt og Kumail Nanjiani eru óneitanlega líflegastir og fyndnastir þarna af öllum samanlagt, þó Emily Alyn Lind eigi forvitnilega innkomu sem Melody, sama hversu hálfbökuð örkin hennar verður eða leysist upp og týnist með framvindunni. Logan Kim er svo sem sprelllifandi þarna líka en í hreinskilni sagt er persóna hans orðin sama og gagnslaus í þessari lotu. Reyndar, aðeins að Murray aftur, þá kemur hreinlega aldrei orðið á óvart að hann nenni ómögulega neinu lengur… nema þegar það eru hlutverk í myndum frá Wes Anderson eða Sofiu Coppola. Annars eru lífsmerkin takmörkuð og hefur það áhrif á flutning hans á gríninu í þessu tilfelli.

Kenan virðist alveg bersýnilega hafa áhuga á einhverri sál í þessu öllu en staflarnir raðast ekki saman. Þá er líka séð til þess að troða eins mörgum bröndurum, látum eða ýktum látbrögðum og hægt er þarna á milli að kjarninn verður að píndri og flýttri væmni. Þetta gliðnar allt í sundur í kringum miðbikið (aftur – eftir ágætan fyrri hluta) því plottið skransar endalaust til þess að tékka hluti af nostalgíulistanum (bókasafnið og gamla konan, ljónið, borgarstjórinn, gámurinn o.fl. o.fl.) sem tekur allt loftið úr dramanu í kjölfarið.

Að vísu má gefa Dan Aykroid smá kredit fyrir að vera enn í bullandi stuði sem yfirnáttúrulega vísindanördið Ray Stantz; verandi bæði annar höfundur upprunalegu myndarinnar og greinilega með umhyggju fyrir rullunni í dag. Fílingur hans og bros er einkennilega smitandi og er leitt að sjá hinar eldri kempurnar (jafnvel kunnuglega fýlupúkann William Atherton, kominn til að endurtaka takta sína úr fyrstu bíómyndinni….) á mun lægri stillingu og með ekkert fútt í fjörinu. Á endanum er þá lítið af fjörinu eftir, því þó svo að illmenni myndarinnar þrífist undir frostmarki er barasta hundfúlt að sama lýsing eigi við um gæði, orku eða skemmtanagildi hennar líka.

Ef litlu sigrana skal telja er alveg hægt að koma þátttökuplús á kreditlistann í lokin fyrir að leika á alla nostalgíuhnappana, eina ferðina enn, með þemalaginu eftir Ray Parker Jr. Viðeigandi leið til að enda eina meinlausa en draugleiðinlega mynd með góðum hópi illa nýttum.


Sammála/ósammála?