Þá er komið að formlegu endalokum ‘þessa’ hlutar DC bíóheimsins áður en James Gunn og félagar ræsa kerfið alveg á ný. DC myndabálkurinn sem hófst fyrir tíu árum með Man of Steel og farið í gegnum vægast sagt grýttan jarðveg síðan en endar hvorki með smelli né hvelli í þessu nýja ævintýri Sjávarmennisins af fjölskyldumálum hans og stjórnmálum. Í staðinn endar allt með sulli.

Ljósi punkturinn er kannski sá að hér þarf ekki að hafa séð circa 10 aðrar DC myndir til að stökkva beint í Aquaman and the Lost Kingdom. Fyrri myndin ein ætti alveg að duga þar. Því miður er það reyndar líka vandamálið; það er alveg nóg að láta kyrrt við liggja að fyrri myndinni lokinni. Hún var þó allavega hnitmiðuð, epísk, skemmtileg og bjánaleg á ásættanlegum stöðum. Framhaldsmyndin er aftur á móti bara máttlaus hamagangur þar sem stöku sinnum má finna fyrir leifum af einhverju sem líkist bærilega samsettri afþreyingarmynd. 

Það er óþolandi þegar svona litrík og hugmyndarík fantasíuveisla er ærslafull og full af hasar en lúkkar og flæðir svo skringilega að það vantar allt fjörið í keyrsluna (eða keyrsluna í allt fjörið…). Persónur þjóta á milli staða með skiljanlegar mótiveringar en þegar hasarinn er svona sundurslitin, manískur en púlslaus og ofar öllu óspennandi brelluorgía, verður þá fátt annað til að grípa í. Meira að segja væburinn á hinum yfirleitt stálhressa Jason Momoa virðist vera ögn meira á sjálfstýringu en í fyrri DC myndunum, brandarar og frasar missa flestir marks því ryþmi, flæði og tímasetningar almennt eru í einhverju tjóni hérna. Það þarf heldur ekki að leita lengra en Fast X frá sama ári til að geta betur séð skýran samanburð um hvenær Momoa rýkur af áhuga og orku og hvenær ekki. 

Hvaða eldmóður sem bjó í Momoa, James Wan og fleirum í fyrri lotunni er eitthvað ferlega fjarverandi hérna. Og þó, ef helstu leikendur og aðstandendur höfðu það að markmiði að yppa oftar öxlum og ákveðið að gíra framhaldið til eingöngu yngri áhorfendahópa, gæti það hafa tekist með stæl. Það er þó reyndar búið að vera sjaldséð að sjá svona flinkan og vanalega peppaðan ‘flokkamyndaleikstjóra’ eins og Wan gera fátt annað en að endurtaka sig eða sökkva í ódýrasta skrípófílinginn.

Aðalmaðurinn Momoa hefur stóíska sjarma sinn að vopni en kemst bara ákveðið langt þegar handrit er um allar trissur og klisjurnar svo gott sem tímastilltar. Að sama skapi er mjög gaman að fá meira af Patrick Wilson og grunnhugmyndin að para bræðurna/fyrrum óvinina saman í fjölskylduvænan Tango & Cash ‘buddy-fíling’ ætti alveg rakleiðis að vera negla. Wilson hefur klárlega nennið í sér en glatast oftar en ekki í stærri óreiðu framvindunnar eins og allt annað. Svo eru það hinir fastagestirnir, Yahya Abdul Matheen II, Nicole Kidman, Temuera Morrison, Dolph Lundgren og Amber Heard dúkka þarna öll upp aftur en allan tímann föst í baksætunum, með lítið að gera og hálfsofandi hvort sem er. Randall Park er í fágætum hópi leikara úr þessari bíómynd sem er almennilega vakandi, jafnvel eini karakterinn sem hefur eitthvað í líkingu við það sem mætti kalla spennandi karakterörk. 

Kannski gæti það eitthvað tengst því að James Cameron hefur nýlega sýnt með Avatar heimi sínum að hægt er að fullgera heilu hasarsenurnar ‘neðansjavar’ án þess að ramminn líti út eins og blikkandi pixlagubb. Meira að segja tókst Wan sjálfum aðeins betur til með þann fantasíuvinkil síðast, en Aquaman and the Lost Kingdom er bersýnilega háð einhverri ‘meira þýðir meira’ reglu í sjónarspilinu og verður hreinlega bara ljótari í lúkkinu fyrir vikið. Þar að auki lyktar þessi framleiðsla miklu meira af því að uppskriftin hafi verið að eltast meira við Marvel-taktana en áður fyrr (lærði enginn neitt af ‘Josstice League‘??). Því er alls ekki óviðeigandi að segja (sérstaklega miðað við odd-couple pörun bræðranna beggja) að þetta sé eins konar ’Thor: The Dark World’ þessarar DC-seríu, í efnistökunum OG þunnildunum.

Það er mögulega ávísun á einhverja ofhleðslu og klessu þegar framhaldið er með styttri sýningartíma en forveri sinn, en helmingi stærri og þvældari sögu. Ef eitthvað þá er þetta bara fyrirtaks dæmi um hvernig á að gera Aquaman bíómynd hallærislega en án þess að gera hana nógu skemmtilega. Það er líka með ólíkindum hversu mikils Willems Dafoe er saknað í þessum kafla, en hann þoldi víst ekki tökur fyrri myndarinnar og afþakkaði endurkomuna pent. Hann fékk að minnsta kosti betri díl en Heard, sem virðist gegna stóru hlutverki í atburðarásinni en tært og greinilega hefur verið reynt (og ekki eftir bestu getu) að klippa niður og tálga senur í kringum hana í eftirvinnslunni. Ef út í það er farið er það fín súmmering á almennri samsetningu myndarinnar. Köllum þetta andstæðu við allt sem við tengjum við orðið ‘kvikmyndatöfrar’.

Auðvitað eru þó einhverjir fínir sprettir þarna í þessari súpu, og fríkuð, poppandi hönnun sviðsmynda og umgjörðar ræður mestu ríkjum… ásamt auðvitað samspili Momoa og Wilsons þar sem þeir þrasa í gegnum gömlu frasabækurnar. Því miður eru samt betri sprettirnir fáir og koma þeir með breiðum bilum í þessum tæplega tveggja tíma skjávara sem knúinn er af ‘dudebro’ húmor, pabbarokki og pínlegum pósum. Ítreka skal að fyrri Aquaman myndin var satt að segja miklu betri ræma en líklegt þótti að hægt væri að gera um þessa hetju; það var allavega púls, flæði og dýnamík í henni; Wan tók persónurnar og væmnu einlægnina í sögunni alvarlega en leyfði restinni að vera sjálfmeðvitað hasarbíó þar sem öllu hinu yfirdrifna var vel tekið fagnandi (hvort sem það var kolkrabbi að spila á trommur eða Dafoe á baki hákarls). En eitt jákvætt að lokum; Aquaman and the Lost Kingdom er ekki alveg jafn vonlaus og (segjum) Shazam: Fury of the Gods, en sú fyrri er nú eins og einhver masterklassa James Cameron mynd í samanburði.

Mögulega gjafmildasti fjarki fyrr eða síðar…

Besta senan:
Mjög hektísk og bærilega klippt hasarsena þar sem ráðist er á hlið Atlantis.

Sammála/ósammála?