Nicolas Cage er reynslubolti og eilíf furðuvera en hann verður seint þekktur fyrir að vera latur í vinnunni sinni. Hann gefur sig yfirleitt fram í hágír og sýnir oftar en ekki fram á að hafa gert heimavinnu sína. Auk þess er einfaldlega aldrei leiðinlegt að horfa á manninn þegar hann fær að kjamsa á skemmtilegum díalog og gegnsúru handriti sem smellpassar auðvitað svolítið við hans stíl. 

Þá kemur norski leikstjórinn og handritshöfundurinn Kristoffer Borgli eins og kallaður með Dream Scenario. Myndin hangir öll og þeirri snilldarlegu grunnhugmynd sem spyr afar einfalda spurningu: Hvað gerist þegar einn af heimsins ómerkari mönnum öðlast allt í einu stórfrægð og verður á vörum allra á veraldarvísu fyrir eitthvað sem hann sjálfur getur ómögulega útskýrt?

Sögupersóna okkar er líffræðikennari nokkur að nafni Paul Matthews (sem er óaðfinnanlega leikinn af Cage, en við komum betur að því…), miðaldra taugahrúga en ágætlega þenkjandi og kurteis karlpungur með fjölskyldu, stabílt líf og stóra drauma. Paul virðist þó merkilega lítið geta gert að sínum stærsta galla; hann er skraufþurr, sjálfhverfur og býsna aumkunarverður vanillusekkur. Veröldin öll leggst síðan á hliðina þegar betur kemur í ljós að ýmis konar fólk víða um heim dreymir reglulega þennan mann. Enginn getur almennilega útskýrt þetta en þarna er skyndilega Paul mættur, í undirmeðvitund annarra í síauknum mæli. Hvað í déskotanum ætli það þýði? 

Hvaða áhrif hefur þetta á líf, egó, ímynd eða sál nýfræga mannsins sem hefur sjálfur engan skilning á því sem tröllríður? Og fyrst þetta hófst allt með svona snöggum, handahófskenndum hætti, hvert gæti svona ástand og breyting leitt í versta fallinu?

Borglis kemur þarna með brakandi ferskan flöt og söguþræðinum fylgir alveg vænn keimur eða innblástur frá Charlie Kaufman, sérstaklega þegar kemur að hversdagslega súrrealismanum og afbragðsfókus á merkilegt ómerkismenni. Frumleikinn skilar sér að minnsta kosti með prýðum og gerir Dream Scenario að dúndurhressri og forvitnilegri mynd sem snertir á togstreitu hugans við óöryggi og þörf fyrir valideringu; hvað skyndifrægð getur gert sjálfinu, jafnvel slúður eða grimmilegar sögusagnir; viðkvæm mál sem geta gert óafturbætandi skaða, þá sísvona.

Cage er sama og fullkominn í þessu hlutverki Pauls án þess að verða nokkurn tímann of óbeislaður, sem gæti talst til afreks á Cage-kvarðanum. Sem þessi lágstemmdi og lúðalegi kennari hverfur Cage hispurslaust í rulluna. Hann tékkar fullkomlega í réttu boxin sín á meðan framvindan flæðir. Paul er bæði blússandi þurr en í senn viðkunnanlegur aulabárður sem gerir sitt besta (eða hvað?) til að tækla aðstæður sem hann hefur engan skilning á. Eftir því sem á líður verður annars vegar erfitt að hlæja ekki að endalausu óförum hans en hins vegar líka finna til með litla manninum og dularfullu klemmu hans.

Út frá afþreyingargildinu einu er þetta æðislega léttgeggjuð stemning og jafnvel með skemmtilegri ef ekki ferskari myndum ársins (innskot; það er löngu orðið alveg galið hvað undrakompaníið A24 nær alltaf að moka út gimsteinunum í kvikmyndanördana, takk fyrir!). Það væri umdeilanlega hægt að fara meira frjálslega með sterkari lýsingarorðin ef Dream Scenario bæri það ekki með sér að vera svona undarlega áhættulaus (e. “safe”) kvikmynd. Þó hún sé gegnsósa af pælingum um frægð, opinberar persónur, almenningsálit og slaufun er hún alveg merkilega grunn og afstöðulaus. Þarna er sagan eingöngu að benda frekar en að stúdera; rétt skimað yfir umræðuefnin því tónninn hallar allmest á grínið þegar upp er staðið, eins og sé fórnað þemun fyrir undirtóna; eða dýpri kjarna skipt út fyrir spaug og sketsa.

Afstöðuleysi Borglis skilur vissulega eftir ögn bitlausa heildarmynd. Handritið leikur sér einmitt að svo umræðuverðum punktum um hvar ábyrgð Pauls fellur í stærra samhenginu og hvers hann á að gjalda jafnvel. Handritið reynir að vísu að leysa stærstu spurningarnar með ódýrri reddingu eða tveimur. Núansinn víkur fyrir farsanum, eins og áður gaf í skyn en ef grínið gengur upp er erfitt að leyfa sér ekki bara að rúlla með ruglinu. Það telst líka til mikils plúss þegar sögunni fylgir þessi ljúfsára sál sem tryggir gott utanumhald á mannlega þættinum í verkinu. Samband Pauls við eiginkonu sína, Janet (Julianne Nicholson með sinn lúmska litla leiksigur og ber stærsta hjartað í sögunni), er þar aðallinn og því er makalaust siglt í höfn.

Persónuörkina og tilheyrandi tilþrif hjá Cage mætti klárlega kalla límið sem heldur öllum hugmyndunum saman. Ef við kaupum ekki Cage/Paul í þessum stigmagnandi absúrdisma, og ef við finnum ekki öll smá til með honum, myndi eymdarsprellið fljótt missa dampinn. Svo er alls ekki raunin, en að öllum gagnslausum smágöllum frátöldum er Dream Scenario hreinlega bara þétt, hnyttin, frjó og frussufyndin mynd sem er vel furðuferðalagsins virði. 

Besta senan:
Paul reynir að ‘endurleika’ fantasíudraum með glæstum árangri.

Sammála/ósammála?