Nú upplifi ég sjálfan mig í abstrakt minnihluta á meðal samnörda með komandi orðum en svo ólíklega vill til að mér finnst The Matrix Resurrections vera friggin’ meiriháttar partíbíómynd – og að öllu útlítandi skammarlega vanmetin! Ólýsanlega súr stúdíómynd á annan og á hinn bóginn framúrskarandi framhaldsmynd sem mætti telja svo djarfan og hlægilegan að aldrei var annað hægt en að splúndra áhorfendum í ólíkar fylkingar. Fyrir er nóg um skiptar skoðanirnar á Reloaded og Revolutions – en fjórða eintakið er einhver allt, allt önnur skepnutegund -og bítur fastar.

Ég geri mér grein fyrir því að allt sem ég dáist persónulega að við myndina er akkúrat einnig undirstaða margra trigger-punkta í augum áhorfenda e. ‘Matrix-aðdáenda’ sem munu samstundis hafna þessum pakka. Það væri að vísu skiljanlega, enda er umræddur pakki hreinum gjörningi líkastur hjá aðstandendum og æfing í háttprúðu trolli, aðeins ætluðum þeim sem kunna góða ‘meta-súpu’ að meta.

Burtséð frá öllum samanburði við þríleikinn. Á eigin fótum er The Matrix Resurrections einbeitt, brengluð, fyndin og frjó reboot(ish)/framhaldssaga sem hefur algjörlega sitt eigið prakkaralega en einlæga ‘take’. Auk þess er þessi fjórða ræma seríunnar furðu (nánast brandaralega) intróspektív, á bæði legasíu fyrri myndanna og eigin tilvist í poppkúltúrnum… en þá í senn rándýr og risastór miðfingur til blóðmjólkandi stúdíóa eða ‘legasequel’ trendsins, eins og það leggur sig!

Þarna er Lana Wachowski algjörlega að sleppa míkrafóninum eftir að hafa hellt úr sér hjartað fram að því.

Myndin angar af vissri sjálfumgleði í því samhengi hvernig hún talar niður til hópa sem vilja eingöngu fá „byssur, bulllet-time og allt kúl kjaftæðið“ sem meðal annars einkenndi hinar þrjár. Hér er að minnsta kosti mikil, fókseruð meðvitund fyrir þessum „meta“-vinkli enda er kemur út eins og myndin – rétt eins og lykillpersóna myndar – hati sína eigin tilvist í fyrri helmingnum áður en hægt og rólega opnast nýir og fallegir vegir sem ber að kanna til að finna megi fegurðina.

Óheppilega gengur kraftur myndarinnar hvað minnst upp ef leitast er einungis eftir geggjuðum hasar, en Lana Wachowski er fjarri því að vera sami kvikmyndagerðarmaður í dag og þá. Þetta er jákvætt, því hún kemur þarna með sinn eigin, cyber-póetíska stíl í mixið í stað þess að remixa gömlu pallettuna, anime-áhrifin o.fl. Þó, ofar öllu, fáum við tilfinningu fyrir þróunum, breytingum sem áttu sér stað á milli kaflaskila mynda – og samtímanum á árunum liðnum.

Það er tær og ríkjandi umhyggja fyrir umfangi, reglum, gildum og heildarsýn þessa Matrix-heims. Þemun geisla öll marglituð í gegn á þéttpakkaða sýningartímanum og eru hér skoðaðir effektar flótta, áfallarstreitu, hættur hjarðarhegðunar, samfélagslegra norma, bælingu á sjálfi, gróða á eymd, máttar vona og tengingar. Þetta auk þess hvað það í rauninni þýðir að fá bara að lifa lífinu eða taka slíkt og manns eigin karakter í eigin hendur, bæði á eigin forsendum og stíft á móti straumnum. Og viti menn, úr þessu hnoðast ein frumleg nálgun á sígildu formi rómantískra sagna.

Þó lengi megi spyrja sig hvort eða hvernig útkoman gæti verið öðruvísi með aðkomu hinnar Wachowski-systurinnar, Lily, þó ljóst sé að hennar DNA fylgi verkinu og hefur alls ekki sakað að græja höfunda eins og David Mitchell (Cloud Atlas) og Aleksandar Hemon til að hlaupa í skarðið með samsetningu handrits og sprells. The Matrix Resurrections virkilega skoðar rætur sínar og gerir sér grein fyrir því að lítið þýði að eltast við gömlu trendin – og kaldhæðnislega gengur ævintýri og myndlíking helstu persóna út á það að forðast gömlu formúlurnar og endurtekningarnar, sem andstæðingarnir pressa sífellt á.

Fyrsta myndin, brautryðjandinn mikli, er enn þetta tryllta, últra-stílíseraða og gargandi fílósófíska undrabarn síns tíma en Resurrections gaf mér tilfinningu sem ég bjóst seint við af Matrix-framhaldi. Hún er jafn upplífgandi og gríðarfalleg og hún er þrususkemmtileg. Hún er svo sannarlega ‘eitthvað annað’ og hefur hingað slíkt aukahráefni aðeins náð að styrkja ræmuna með auknu glápi. Til lengri tíma horft held ég að fleiri eigi eftir að sjá hvað þetta er júník, falleg og fitting Matrix-framhaldsmynd.

Það er vissulega pínu súrt að sjá hvað hasarinn er brussulega skotinn á köflum; enda ágætur á blaði (þetta regn, NÆS!) en með einmitt þetta forljóta borderline-HFR digitized „sjónvarps-lúkk“. Fyrir utan það samt fannst mér stíllinn og lúkkið á myndinni gordjöss í smærri, heiðarlegri senunum og almennu litaskema sem undirstrikar júník lúkk en ekki leitina að gamla leðurfrakkanum. Og jafnvel þó hasarinn sé ekki neitt til að hrópa hálft húrra fyrir er því annars vegar reddað með stöðugum púls í framvindunni og stærðinni á hjartanu í kjarna sögunnar.

Ég skil fullkomlega að myndin hitti ekki í mark hjá mörgum aðdáendum (enda allmargir slíkra gerðir sjálfir að skotmörkum í þessari sögu), en hún svínvirkaði á mig enda svo helpökkuð veisla af gúrme gúmmelaði; Leikararnir eru allir með öllu æði (Jessica Henwick og Jonathan Groff eru algjörir þjófar!), meta-kommenterían gengur, væmna hugmyndasúpan heillar, þemun um úrvinnslu áfalla og almenna vitundarvakningu smella fínt. Carrie-Anne Moss fær síðan að sparka í rassa og endalaust áttavillti svipurinn á Keanu og hans útréttu hendur ná með óskiljanlegum hætti að sigla inn einhverja töfra. Sem sagt; bíómynd sem tekur sénsa og ‘færibandsframhald’ sem “vó’aði” mig lúmskt, en sjaldnast á þeim stöðum sem ég bjóst við. Til að mynda hefur Reeves ekki gefið betri/berskjaldaðri frammistöðu í áraraðir.

Svo er Trinity+Neo ástarsagan bara svo ógeðslega krúttó! Hvernig er ekki hægt að halda með þeim?

Besta senan:
Trinity-„heist’ið“

Sammála/ósammála?