Einu sinni þótti algjörlega óhugsandi að búast við því að fyrsta bókin úr epísku og áhrifamiklu sci-fi seríunni frá Frank Herbert kæmist í einhverjum mæli snyrtilega til skila á hvíta tjaldinu. Enn fremur er það eins konar létt kraftaverk hvað afraksturinn hefur nú náð góðri tengingu við meginstrauminn. Ein bók. Tvær bíómyndir. Hátt í 360 milljón dollara verðmiði þegar allt er samanlagt. Þessu er varið í vænan flota af stórleikurum, gott framleiðsluteymi, dúndur leikstjóra; og þá er allt lagt í sölurnar fyrir heljarinnar bíó þar sem hvert hæfileikafjallið á eftir öðru hefur sameinað góða krafta, fyrir stórbrotið skáldverk.

Dune-sagnabálkur Herberts er allavega löngu orðinn helgiritum líkastur og þemu seríunnar um umhverfisvernd, andúð á stórfyrirtækjum, ofnýtingu náttúruauðlinda og áhersla á að efla hæfileika mannsins frekar en tækni hefur talað til margra í áraraðirnar. Þess vegna verður seint gert lítið úr þeim menningaráhrifum sem Dune hefur haft á flokk fantasíu- og vísindaskáldsagna, enn fremur ef horft er út frá því hvað stórrisar eins og George Lucas, George R.R. Martin og James Cameron hafa sótt óhóflega mikinn innblástur í Herbert með einum eða öðrum hætti.

Sögusviðið í Dune kann að vera þurrt en ef ekkert annað má lofa miklu kryddi í söguþræðinum. Á blaði er hér er allt stappfullt af konfekti í fjöllaga geimsápu þar sem Herbert kastar sér út í úthugsaðan söguheim með bítandi pælingum og þorsta fyrir eftirminnilegum átökum. Til að gefa létta heildarmynd, en helst án þess að hún komi út eins og þvæld samantekt að hætti Bílastæðavarðanna, er best að súmma grunninn að sögunni svona; Sandplánetan Arrakis er uppspretta dýrmætustu auðlindar alheimsins og ýmsir ólíkir hópar sækjast eftir einokun. Plánetum í þessum söguheimi er stjórnað af aðalsættum. Hér höfum við hina göfugu Atreides fjölskyldu, hrottalegan fjölda Harkóna, dularfulla Fremena og heilt gruggugt keisaraveldi með tilheyrandi herfylki sem þræðir saman örlög allra og yfirvofandi tímamót.

Farið er yfir víðan völl í ættarerjum, spillingu, nornagöldrum, blekkjandi birtingarmyndum leiðtoga og forvitnilegan mátt trúarhreyfinga. Fjörið stoppar samt ekki þarna, því má alls ekki gleyma risavöxnum æstum sandormum, ljótum leyndarmálum og heilögum hellingi af yfirnáttúrulegum öflum. Inn í þetta flækist svo sprækur ungur hertogasonur, Paul Atreides að nafni, sem gæti mögulega verið annað hvort heilagur Messías í hefndarhug eða mjúkur leiðtogi með frelsarakomplexa. Tímasetning og geta þessa drengs samsvarar að minnsta ákveðnum mynstrum sem búið var að spá fyrir. Goðsögn Fremena er sú að þegar sem verst standi fyrir þeim, fái þeir heimsókn og leiðsögn Messíasar. Muni hann leiða fólkið til frelsis, sigrast á kúgunaröflum og tryggja bjartari framtíð fyrir plánetuna.

Merkilegt nokk samt, að frátöldum gæðum eða vinsældum bókaflokksins hefur gengið alveg sögulega illa að koma kvikmyndaaðlögun á flug, hvað þá náð lendingu. Fyrstur til að reyna að koma sinni túlkun á skjáinn var fjöllistamaðurinn Alejandro Jodorowsky*, en svo fór það metnaðarvirki hans í súginn áður en tökuvélarnar fengu að rúlla. David Lynch var þá fyrstur til að sjá leiðarenda árið 1984 með sinni sundurlausu og umdeildu aðlögun – sem illskiljanlega hefur þó alltaf átt sína dygga aðdáendur. Síðan var á reynt um aldamótin með mislukkaðri sjónvarpsmynd frá Sci Fi rásinni svonefndu og síðar þáttaseríuna Children of Dune sem lítið fór fyrir.

Þá ákvað fransk-kanadíski múd-meistarinn Denis Villeneuve að láta á reyna, en góðvildarpunktana hafði hann safnað virðulega í gegnum árin. Í fyrsta lagi virðist maðurinn vera atvinnulega ófær að búa til eitthvað annað en gæðamyndir – frá Incendies til Prisoners og Enemy ofl – og í öðru lagi hafði hann á undan þessu verkefni skorað mun fleiri stig hjá sci-fi unnendum á skömmum tíma en viðráðanlegum kröfum sæmir. Þessu tókst honum með hinni þokkalega frumlegu Arrival og síðan einni framúrskarandi Blade Runner framhaldsmynd. Villeneuve hefur ekki leynt með það að Dune væri innilegt ástríðuverkefni hans enda forfallinn aðdáandi seríunnar. Villeneuve er þó blessunarlega með metnað sinn í hágír og gott auga fyrir stílum og umfangi í þokkabót. Þessi óheflaða ást hans á sögunni hefur einmitt náð að skila sér og sést auðvitað fyrir allan peninginn, líkt og hvernig peningurinn allur sést á skjánum.

Með öðrum orðum; Dune lúkkar. Fjandi hart. Gott og vel. En hvað með allt hitt?

Á mælikvarða Hollywood stórmynda telst það víst til svakalegrar áhættu að vaða í þessa sögu, en út frá samanburði við bókina mætti telja þennan afrakstur Villeneuves óneitanlega vandaðan en þó furðu öruggan, áhættulausan, að vísu þægilega aðgengilegan og afar áhorfendavænan. Kjarni frumverksins heldur sér samt, þökk sé taumi leikstjórans, teymi hans og þessari umhyggju sem hann hefur fyrir sögunni. Þannig gengur best að finna sálina í stóra menginu. Það er heilt afrek í stærra afreki.

Dune: Part One’ var frumsýnd við merkilegar vinsældir áhorfenda og upp til hópa afar jákvæðar viðtökur. Annars ætti nú varla að vera til ein heilvita manneskja sem getur þvertekið fyrir það hversu lífandi, listileg og temmilega júník útkoman er; þá á öllu heildarlúkkinu, á allri hönnun, stílíseringu, fjölbreytni í leikmyndum og flestu sem hefur eitthvað með umgjörðina að gera. Leikhópurinn er alls ekki af verri endanum heldur.

Því miður er það nær eingöngu krafturinn í útlitinu og tónlistinni sem vekur upp ósviknar tilfinningar eða gæsahúð frekar en nokkuð tengt innihaldinu. Gallarnir fylgja greinilega hemlunum uppsetningarinnar enda er þessi kvikmyndaaðlögun bara unnin úr einum þriðjungi af miklu stærri sögu. Það er eflaust hægt að gera þétta og góða kvikmynd úr aðeins kaflabroti af stærra verki, en það er næstum því ómögulegt að teygja úr viðburðarlitlum inngangi á sögu án þess að reikna með að niðurstaðan verði sama og hálfkláruð bíómynd. Nema sé þá ráðist alveg á efnistökin með breytingum, stokkunum eða viðbótum, sem ekki á við hér. Dune: Part One hefur sinn skerf af meiriháttar mómentum en þegar allt kemur til alls er atburðarásin bara stórt samansafn af innkomum og kynningum, þangað til að leiknum er slúttað með löngu hléi.

Hver ágæti stórleikarinn á eftir öðrum gerir helling við sitt, en ef keppnin snýst um sterkustu innkomuna og eftirminnilegustu nærveruna er það Stellan Skarsgård sem hlýtur þann vinning sem háfleygi barón Harkónanna. Leikararnir smella allflestir án nokkurra erfiða í þessa góðu veislu, en það væri reyndar óskandi að geta betur hrósað Timothée Chalamet í lykilhlutverkinu sem undrabarnið Paul. Hann hefur ágæta, einlæga nærveru og sérstaklega góðar pósur, fyrst hann situr hvort sem er á hliðarlínunni að mestu í þessari umferð. Þau Skarsgård, Rebecca Ferguson, Oscar Isaac, Jason Momoa, Dave Bautista og Josh Brolin sjá um það í staðinn að deila skjátíma um sín á milli og kynna allt til leiks. Isaac og Momoa hafa að minnsta kosti getuna hérna til að fullnýta hverja sekúndu af takmarkaðri nærveru sinni í þó reyndar afar mikilvægum rullum í samhengi stærri sögunnar hjá Paul. Vel á minnst, þau Zendaya og Javier Bardem gera annars ekki mikið annað en að veifa í sinni biðstöðu.

Það líður ekki á langt þangað til að fundið er fyrir hversu tómleg tunnan er sem í glymur þarna. Á þessu stutta tímabili sögunnar sem Part One spannar, er Paul að mestu í baksætinu – eða í öðru farartæki langt undan ramma. Niðustaðan væri sú sama. Hann er hlutlaus og aðgerðarlaus áhorfandi í eigin sögu út þennan hluta en rétt fær tilefni til einhverra stigbreytinga þegar líður að lokasenunum í þessum hluta. Þegar sagan í Dune er skoðuð sem heild er ferlegt magn af boltum sem þarf að halda á lofti. Myndin er langt frá því að vera óspennandi eða drollandi, en það er allt sandpappírsþurrt á tilfinningakvarðanum og ekki er einu sinni svigrúm fyrir neina kímni eða létta strengi, varla brandara eða tvo. Að minnsta kosti er ekkert meira pláss í þessum hluta sögunnar fyrir neitt svoleiðis frekar en fullnægjandi persónuörk hjá helstu karakterum.

Það er einfaldlega bara ekki mikið að frétta í Part One og sem ‘sjálfstæð’ bíóupplifun er hún eiginlega frekar vonlaus. Hún er allan tímann stórglæsileg sjónrænt séð en á vissum stundum þreytulega flöt til gláps, í innihaldi og anda. Auk þess einkennist hún af svo ójöfnu rennsli og blessar okkur öll síðan á lokametrum sínum með lafandi anti-klímax. Á þessum stað gerir myndin allt nema að tilkynna það upphátt að fjármagnið hafi klárast og sé óskað eftir meiru frá áhorfendum til að klára þessa tilteknu sögu.

En það að minnsta kosti virkaði, á endanum.

Stundum þarf líka að harka af sér klígjuna sem samtölin kunna að smita frá sér. Þarna fylgir reyndar ákveðin huggun líka vegna þess að öflugustu senurnar eru yfirleitt þessar sem flokkast undir hreint og beint sjónarspil, þessar sem leyfa músík og myndmáli að spila saman með þrumu. Með betri dæmum þarna er þegar við fylgjumst með Paul kveðja sjávarríku heimaplánetu sína áður en bíður honum glænýr heimur, jafnvel nýtt líf. Tónlistin prýðir þarna býsna ómerkilegt myndefni sér um að lyfta mestum þunganum í því atriði og fleirum. Reyndar má sjá það sem laumulegan kost þegar upphitunar- eða kynningarmynd reynist vera svona rosalegur segull á fína gæsahúð (helvíti hafi þig, Zimmer!).

Það verður að segjast að þrátt fyrir alla ofantöldu galla, er svo sannarlega ákveðin stemning í því að líta við í svona klassíska og mystíska furðuveröld. Á eigin spýtum er þetta vel gerð upplifun og aldrei neitt minna en hugmyndarík sci-fi afþreying sem gefur ljúfan smjörþef af einhverju miklu dramatískara og stærra ævintýri fram undan. Gott tís er auðvitað gott tís, en framvegis held ég að sé alltaf ráðlagt að klessa báðum helmingunum saman í mun girnilegra hámhorf.

*Áhugasamt fólk er vinsamlegast beðið um að finna og kíkja á heimildarmyndina Jodorowsky’s Dune, en þar er ekta glaðningur í vændum!

Sammála/ósammála?