Lítilmagnasögur eru alltaf skemmtilegar, og svo óútskýranlega lífsbætandi á einhvern máta… þegar vel tekst til með þær. Ef ekki geta þær orðið yfirburða melódramatískar, feik eða taktlausar. En Joy sem betur fer virðist rétt ná að meðhöndla há(…og lá)punktana sína með upprisusögu sem hefði kannski betur mátt slípa aðeins til. Hún er ekki laus við vissa tilgerð en umframt allt heldur væmnislaus, hvetjandi og flott mynd sem hangir á frammistöðu leikkonunnar sem hefur orðið David O’Russell að svakalegu lukkutrölli seinustu þrjú skipti á ferlinum. Það sama myndi ég segja um Bradley Cooper nema hér bregður hann meira fyrir í útvíkkuðu gestahlutverki.

Annars, þrátt fyrir örlátar Óskarstilnefningar seinustu árin (er einhver sem enn lofsyngur American Hustle í dag?) hefur Russell verið oftar áreiðanlegur heldur en ekki, og að mínu mati sérstaklega góður í að útbúa góðar myndir sem ættu í eðli sínu að vera frábærar en ná því ekki alltaf. Þetta veltur svolítið á því hvort og hve mikið sérviska hans og einkenni ná að lyfta því upp sem hann vinnur úr. Annars er enginn vafi á því að hér er maður sem er góður að safna að sér leikhópum og meðhöndla þá, með gott auga fyrir hversdagslegum væb og spilar með tilfinningar gegnum leikaranna frekar en tón eða melódrama.

Article Lead - wide1004110019glrx6qimage.related.articleLeadwide.729x410.gltk8z.png1450996821614.jpg-620x349

Með annan gæja við tauminn hefði Joy getað breyst í froðukennda sjónvarpsmynd með hjartað á réttum stað. Úrvinnslan á handritinu býður svolítið upp á það en Russell veit hvaða styrkleika hann hefur. En eftir allar tilnefninganar sem hann hefur fengið má vera að hann hafi vaðið í Joy af fullmiklu sjálfsöryggi og búist við að raunasagan – og lykilframmistaðan – yrði nógu sterk á eigin spýtum til að úr verði hágæðamynd. Það tókst ekki alveg, enda Russell ekkert óvanur því að flækja sér í tættum efnivið.

Myndinni gengur ekkert glimrandi vel að selja sig sem sanna sögu, en grunnurinn er nægilega athyglisverður sem og persónan í sviðsljósinu. Joy Mangano (Lawrence) er brautryðjandi mikill en nær ekki endum saman. Það stoppar þó ekki hugmyndaflug hennar og finnur hún upp á hinni svokölluðu undramoppu. Hún kemst áfram og sigrast á áskorum sínum með því að vera þrautseig og viljasterk. Myndinni gengur reyndar ekkert ofboðslega vel að koma sér á lappir í fyrri hlutanum en þegar atburðarásin og kjarninn er kominn á gott ról verður hún smátt og smátt pínu æðisleg, en… svo drullar hún þrefalt á sig í vandræðalega flýttri úrlausn og endi sem steinfellur. En heildin er samt meira hressandi en ekki og persónulega man ég ekki eftir mörgum feelgood-myndum um uppfinningakonur, og það myndinni til sigurs hvað áhorfandinn nær miklum tilfinningum að festa við eina afberandi skúringarmoppu.

landscape-1450183379-joy-exclusive-jennifer-lawrence

Það er varla feilnóta slegin hjá öðrum leikurum, hvort sem þeir heita Bradley Cooper (sem deilir margar af betri atriðum myndarinnar á móti J-Law, náttúrulega), Robert De Niro, Isabella Rosselini eða Virginia Madsen, sem ber skemmtilega af í hlutverki móðurinnar sem Joy reynir sitt albesta til að líkjast ekki; djúpt sokkin í sápurnar sínar allan daginn, innilokuð og félagsfælin. Áherslur leikstjórans á sápuóperurnar eru að vísu ofauknar og bæta litlu við. Eins er mótífið að láta ömmu hennar sjá um yfirlesturinn frekar ójafn, kannski vegna þess að Diane Ladd er almennt svo fín í hlutverkinu að maður finnur auðveldlega fyrir þeim sprettum þar sem þulan virkar alveg dottin út úr myndinni.

Sem þrívíð persóna er Joy sú eina sem kemur eitthvað bærilega út. Við fáum að kynnast hennar baráttu en miðað við hversu famelíu-oríentaður Russell er í myndunum sínum (og yfirleitt þrasa þau mikið eða tala ofan í hvort annað) líður manni samt eins og samband Joy við börnin sín hafi verið ábótavant og útundan. Aðrir fjölskyldumeðlimir eru líka eitthvað svo einnóta og pirrandi sökum þess (eins og systirin). Það hefði líka mátt meira gera úr stórskemmtilegu sambandsdýnamík milli Joy og fyrrum eiginmanns síns, sem í upphafi sögu býr í kjallara húsi hennar, og deilir honum með fyrrverandi tengdó. Édgar Ramirez kemur út eins og skemmtilegasti karakterinn sem myndin reynir alltaf að breiða yfir.

Jennifer stendur annars alltaf fyrir sínu, og meira að segja ef ég væri í þeim áhættuhópi að fá ógeð á henni eða grátinum hennar (m.v. hvað Hunger Games-serían fjaraði leiðinlega út), myndi þessi mynd sýna mér hversu kolrangt ég hefði fyrir mér með hana. Joy dansar með hennar styrkleika og meira til. Við sjáum hana bæði upp á sitt snjallasta, kátasta og næmasta stigi og J-Law fer létt með að skauta þarna á milli. Myndi ég nittpikka hennar leik má færa rök fyrir að hún gæti verið eilítið of ung fyrir hlutverkið, en það breytir því ekki að mest allur sjarmi sem dælist úr þessari mynd kemur af hennar völdum. Það lyftir henni úr því að vera þokkaleg mynd yfir í eitthvað sem er þess virði að mæla með.

7(Tæp sjöa)

Besta senan:
Seinni útsendingin.

Sammála/ósammála?