Hvort sem hægt er að kalla sig aðdáanda Harry Potter bíóseríunnar eða ekki (nota bene, ég fíla hana í klessu) er erfitt að neita því að hún hefur skapað sér mikla sérstöðu sem erfitt er að dást ekki að. Aldrei fyrr hafði maður séð stúdíóseríu segja eina stóra sögu, gegnum fjölda ára, á þessari stærðargráðu, út svona margar myndir og með sama hóp kjarnaleikara gegnumgangandi. En vissulega geta framleiðendur ekki látið kyrrt við sitja þegar svona títanísk sería – byggt á brenglað stóru kúltúrs-fyrirbæri – prentar svona auðveldlega út peninga.

Að mínu mati tókst vel til með þennan kvikmyndabálk yfir heildina og var gaman að sjá sídekkjandi þemurnar skila sér í sívaxandi, lokkandi galdraheimi. Einnig var merkilegt að sjá hvernig ólíkir leikstjórar tækluðu mismunandi kafla en upp úr miðju var ljóst að David Yates var best treystandi fyrir afganginum. Nú er Yates fenginn í það að stýra fyrstu „spin-off“ myndinni (af fimm!) þar sem hann kveðst stækka ennfremur bíóheiminn sem hann er vægast sagt vel skólaður í. Fantastic Beasts and Where to Find Them virðist bæði stilla upp stærri forsögupakka og fara algjörlega í sína eigin átt.

fantastic-beasts-demiguise-featured

Það má alveg segja að Fantastic Beasts sé blóðmjólkun á vörumerki og smá nostalgíugælun í leiðinni en það sem gefur henni meiri sál og vídd er að J.K. Rowling hefur ekki aðeins gefið myndinni blessun sína, heldur sá algjörlega sjálf um handritið. Þetta er hennar fyrsta kvikmyndahandrit og þýðir það að hvorki hún né aðrir hafa þurft að kljást við það að aðlaga neitt, fjarlægja, endurraða eða þjappa neinum upplýsingum eins og þurfti að gera áður. Eitthvað oggulítið hressandi við það.

Rowling skoðar aðrar hliðar á starfssemum galdramanna, sjónarhorn „Muggana“ (en var ekki hægt að finna betra amerískt heiti á þá heldur en „No-Maj“?) og snýst auðvitað líka að miklu um það að dást að alls kyns furðudýrum og koma með sterk skilaboð. Rowling fer í gegnum eitthvað af gömlu formúlum sínum og brögðum en teiknar upp litríka, einfalda karaktera en notast (aftur) við fullorðinsleg þemu, með skilaboð sem snúa að fordómum og samþykki. Aftur.

maxresdefault

Eddie Redmayne gæti varla betur fúnkerað og passað í þennan heim. Hann gæðir miklu lífi í hinn sérvitra Newt Scamander; hokinn, hlédrægan og undarlega ábyrgðarlausan furðufugl sem á auðveldar með að tengjast dýrum heldur en fólki. Hann horfir yfirleitt aldrei í augun á manneskjum en þegar hann er innan um skepnur blæs upp viðkunnanlegur sjarmi í honum. Þetta kemst sjaldan betur til skila en í mest töfrandi senu myndarinnar, þegar Newt gefur nýgræðingi – og áhorfendum – túr gegnum undratöskuna sína.

Magnað þykir mér hvað Redmayne nær að lifa sig inn í ákveðnar hegðanir af miklum áhuga, eins og þegar hann spreytir sig í „mökunardansi“ sem hann tekur við eina skepnuna. Já, það er bæði eins vandræðalegt og fyndið og það hljómar, en eftir brillerandi ofleikinn sem Eddie tók í Jupiter Ascending er fátt við hans sérkennilegheit sem kemur á óvart. Heppilega er hann að þessu sinni staddur í bíómynd þar sem fullkomlega hentar honum að vera pínu einhverfur.

fb-1200x675

Sagan hér er í rauninni frekar einföld en hér eru samt sem áður tvö mismunandi plott í gangi sem sjóðast ekki alveg saman; annað tengist Newt að eltast við dýrin sem sluppu úr hans haldi og hitt viðkemur myrku, stjórnlausu afli sem er að leggja New York í rúst. Hið fyrra hefur sína heillandi vinkla, en hið seinna er aðeins meira beisikk og óathyglisverðara í keyrslu (og lokafléttan er virkilega aum).

Hin samnefnda Fantastic Beasts bók, fyrir þá sem ekki vita, var meira katalógur yfir skepnur frekar en narratífusaga, og Rowling nýtir sér algjörlega tækifærið til þess að skoða nýjar áherslur og bæta við. Henni er alveg treystandi með ímyndunaraflið og víkkar út galdraheiminn sinn, bæði með fókus á gamla períódu og nýtt landssvæði, New York á þriðja áratugnum í þessu tilviki. Það er nóg af litlum tengingum og tilvísunum hér til staðar til þess að tryggja það að þér finnist allt tilheyra sama heimi og við höfum séð, en hins vegar er ekki hægt að segja að Fantastic Beasts standi sjálfstæð. Greinilega var þessi mynd gerð svo aðdáendur fengju sinn skammt, og helst bara þeir.

Newt er áhugaverður karakter en þegar myndin hefur svona miklu að troða í eina frásögn gefst ekki mikill tími til að þróa hann eða segja baksögu hans almennilega, nema í glefsum. Allir karakterarnir lenda í þessu, en leikararnir aðstoða helling með því að teikna upp einfaldleika þeirra. Bestur er án efa grínleikarinn Dan Fogler sem Mugginn Jacob Kowalski. Jacob er voða saklaus og geðþekkur gæi sem upplifir alls kyns veraldarsjokk þegar hann kemst að tilurð galdra og er dreginn inn í atburðarásina. Fogler er æðislegur og virðist fara létt með að mynda kemistríu og trúverðug tengsl við mótileikara sína.

newt-scamander-tina-goldstein-jacob-kowalski-fantastic-beasts-and-where-to-find-them

Katherine Waterston (úr Inherent Vice og Steve Jobs) hefur verið að fljúga upp stjörnuhimininn upp á síðkastið en er föst í voða bragðdaufum karakter hér (og ég get varla verið einn um það að finnast röddin hennar pínu pirrandi, sem og staðreyndin að konan breytir sjaldan um svipbrögð), annað en hin óþekkta Alison Sudol í hlutverki systur hennar. Sudol fær ekki nóg til að gera en hefur nægilega útgeislun í smærri senunum til að skilja eitthvað eftir sig. Ezra Miller og Samantha Morton koma einnig frekar sterk inn og koma hvað svörtustu undir(…eða yfir-)tónarnir í sögunni frá þeim. Jon Voight gerir minna en ekkert í sínu hlutverki og lítið er ætlast til af Colin Farrell annað en að geisla af sér vantrausti í sinn garð. Það tekst, en nærveran er ekkert umræðuverð miðað við stærð rullunnar.

Fantastic Beasts and Where to Find Them fölnar talsvert í samanburði við flestar Potter-myndirnar. Plottið virkar ekki alveg en litlu karaktermómentin standa upp úr, sérstaklega hjá Fogler og Sudol. Brellurnar eru mjög upp og niður en hönnunin í heild sinni, bæði á dýrum og umhverfum, er geggjuð. Hvort að þessi nýja Fantastic Beasts sería nái að viðhalda sömu töfrum (eða detti í mjög þreytulegan prequel-pakka, að hætti Hobbit-þríleiksins) á eftir að koma í ljós. Persónulega finnst mér það vera mistök að skella Johnny Depp í hlutverk Grindelwald og  gefa honum stórt vægi í áframhaldinu. En heimurinn er a.m.k. stór, spennandi og er fullt hægt að kanna við hann.

 

Og þó David Yates gæti matreitt eitthvað ágætt úr þessum heimi í svefni hefði verið sterkt múv að leyfa fleiri fagmönnum að spreyta sig og prufa nýja hluti í stað þess að afgreiða restina af nýju seríunni sjálfur. Allaveganna…

 

fin

Besta senan:
Töskutúrinn eða kvöldverðurinn.

Sammála/ósammála?