Kvíði getur oft verið hinn mesti viðbjóður, í öllum sínum myndum. Þess vegna er yfirleitt eitthvað spennandi við það að sjá hvernig mismunandi kvikmyndagerðarfólk hefur svo margar mismunandi (og auðvitað mistrúverðugar) túlkanir á kvíðasjúkum huga eða sérlega stressvaldandi aðstæðum. Þykir að vísu nokkuð athugavert hversu margt íslenskt fólk í kvikmyndagerð hefur síendurtekið og reglulega tæklað eymdina, skammdegið og sorg – en sjaldnast sjálfan kvíðann. Hvað þá flughræðslu. 

Northern Comfort nær reyndar hressilega að slá nokkrar flugur í einu höggi; með því að geta fókusað á stressævintýri persónanna frá sjónarhorni Íslendings en um leið geta sýnt hvernig klakinn getur á verstu stundum bætt gráu ofan á svart fyrir ferðafólkið…

Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, ein af okkar skærari vonum í dökkri kómík með viðtengjanlegum þunga í drama karakterana, virðist allavega þekkja sinn kvíða. Virkilega svo, því leikstjórinn og höfundurinn skilar honum meistaralega í gegnum kostulegan hóp persóna í ‘martraðarferð’ til Íslands. Talentið og réttu áhöldin eru borðliggjandi. Óskast hefði að handritið myndi meira bjóða upp á en bara temmilega forvitnilega sketsa-framvindu. Skemmtileg ferð samt svo framarlega sem slökkt er á heilanum áður en sagan fer á flug.

Söguþráðurinn er þvældur og grunnur, en sáraeinfaldur. Hópur kvíðasjúklinga festist á Íslandi í miðri (segjum) ‘óvissuferð’. Eftir því sem á líður fer bæði óheppilegri og fjarstæðukenndari atvikum fjölgandi. Farsinn hans Hafsteins og co. virðist þó meðvitað fórna lógík í þágu karaktera og þróana þeirra. Þess vegna vinnur það svolítið gegn stemningu myndarinnar. Þrátt fyrir að vera soddan kleina í narratífu og tón, er annars vegar mátulega stemningu að finna hjá svona líflegum og vakandi leikhópi. 

Fer þó ekki á milli neinna mála – í neinni vídd – að Björn Hlynur Haraldsson laumar sér inn í fjörið og rænir síðan allri myndinni í kjölfarið, með karakternafni (Dries de Vries!) sem á heima í íslensku sögubókum okkar kvikmyndagerðar. Að Birni Hlyni utanskildum er mest að frétta hjá þeim Lydiu Leonard og Timothy Spall.

Northern Comfort er lítið, prakkaralegt og huggulegt góðgæti; yfir höfuð fínasta afþreying í farsaformi en hvorki nógu minnisstæð né tennt sem dökk kómedía til að eiga erindi í svipaðan gæðaflokk og sum fyrri verka Hafsteins, Á annan veg og Undir trénu þá helst. Lúxusvandi er það.

Besta senan:
Dries og mýktin.

Sammála/ósammála?