Jólin eru tíminn til þess að vera mýkri maður heldur en maður venjulega er og þó svo að helstu jólahetjurnar mínar séu hinir óttalausu Jack Skellington, Martin Riggs og John McClane, þá er afskaplega lítið sem á séns í krúttæluna sem ber nafnið Mark, og sá maður er leikinn af Andrew nokkrum Lincoln. Ekki refsa ykkur fyrir að vita ekki hver sá maður er. Hann er tiltölulega óþekktur leikari en hann á heiðurinn af besta mómentinu í allri Love Actually, jafnvel þó hann skari lítið sem ekkert fram úr leikhópnum. Myndin er kannski löng, sykruð og hlaðin fleiri persónum heldur en hún ræður við en hlaðin gullmolum engu að síður. Það eiga sér allir uppáhaldsatriði í henni og góðu atriðin eru mörg og ólík en það sem togar í mínar hjartarætur tengist þessum Lincoln-gæja og brúðkaupsvídeói sem Keira Knightley mátti aldrei sjá. Emma Thompson fylgir annars fast eftir í öðru sæti þegar hún opnar pakka með innihaldi sem hún gerði aldeilis ekki ráð fyrir. Þetta eru ekki þó nema hjartnæmustu. Það tæki langan lista að segja frá atriðunum sem eru þau fyndnu.

Að mínu mati er þessi mynd ein ómótstæðilegasta stjörnubomba sem konur dýrka jafnmikið og The Notebook og færri karlmenn segjast fíla hana en gera. En strákar, trúið mér þegar ég segi að það sé fullkomlega í lagi að viðurkenna að myndin sé virkilega góð. Af hverju haldið þið að naglarnir Liam Neeson og Alan Rickman hafi verið fengnir til að leika svona stór hlutverk í henni?

það vantar fleiri mistilteina

Handritið er bráðskemmtilegt og fyrir utan það að vera krúttandi yfir sig á köflum á besta máta er myndin hlý, ótakmörkuð í sjarma og mjög vel leikin. Það er nánast sjokkerandi hvað það eru margir góðir breskir leikarar hérna. Vissulega er þetta „gimmick“ svo að áhorfandinn þekki persónurnar betur enda eru þær í talsverðu magni og persónusköpunin ekki mjög lagskipt, en það skiptir heldur ekki öllu því þær eru langflestar mjög eftirminnilegar. Auk þess efa ég að myndin hefði virkað í þriggja tíma heildarlengd. Allavega ekki á markhópinn sinn.

Leikararnir í þessari mynd eru allir rétt uppstilltir. Enginn á ekki heima þar sem hann er og eru allir ákaflega líflegir, eins og það skíni í gegn að hver og einn vilji af öllu hjarta vera á þessu setti að kvikmynda svona æðislegan sykurpúða. Hugh Grant, Alan Rickman, Emma Thompson, Colin Firth og Liam Neeson eru öll ljómandi góð og það hjálpar einnig að maður haldi með sögunum þeirra. Bill Nighy stelur samt allri myndinni þrátt fyrir þynnstu söguna. Keira Knightley lætur einnig sjá sig af og til, Laura Linney er alltaf góð en ef ég hefði skorið einhverja söguna úr heildinni til að geta lagt meiri tíma í hinar, þá væri það hennar. Linney hverfur síðan bara úr allri myndinni upp úr miðju og sést varla neitt til hennar aftur. Annaðhvort var leikstjóranum svona sama um hana eða hann klippti mikið úr með henni. Þó nokkuð skemmtileg séu þá eru sub-plottin með Linney og Martin Freeman bæði fremur gagnslaus, en þau bættu að vísu nokkrum aukaskilaboðum í heildarmyndina, sem umfram allt gengur út á titilhugtakið í allri sinni mynd.

Flestar ef ekki allar hliðar ástarinnar (og vandamálin sem geta oft flækst með) eru skoðaðar, t.d. út frá samskiptum vinnufélaga, bestu vina, systkina, (stjúp)feðga, krakka, miðaldra eða nýgiftra hjóna. Hér er tekið fyrir hugrekki, draumórar, daðrað síðan við framhjáhald og frábærlega spilað með það hvernig ástin spyr ekki um aldur, tungumál eða aðstæður (elska t.d. hugmyndina um svaka dúlló ástarsögu um feimið flört á milli fólks sem hossast nakið hvort á öðru, sem partur af eðlilegum vinnudegi). Einnig kemur svo inn brot af bandarískri aulagreddugrínmynd um lúða sem dettur óraunsæislega í feitan lukkupottinn, bara til að bæta við meiri handahófskennda fjölbreytni. Hver eining er augljóslega ekki nauðsynleg, en lokaafraksturinn lendir aldrei á leiðinlegum punkti – bara misáhugaverðum – og eftir öll þessi ár er ég persónulega farinn að læra að elska það sem ég fíla ekki við þessa mynd, ekki bara misgóðu aukapersónurnar, heldur hlutir eins og Dido, Kelly Clarkson og Sugababes-tónlisin! Ekki veit ég alveg hvað kom fyrir mig en lögin þeirra passa ótrúlega vel, en það á við um alla tónlist sem hér er í boði.

Öruggt er þó að hver sem ber augum á þessa mynd mun finna eitthvað til að geta tengt sig við. Það er auðvelt að velja miklu betri jólamyndir (eins og It’s a Wonderful Life eða Scrooge-myndina frá ’51, sem eru með þeim bestu sem ég hef séð), en hingað til er Love Actually ein af kannski tveimur myndum sem virðist sjálfkrafa rata í Blu-Ray (áður DVD) spilarann á hverju einasta ári síðan hún kom fyrst út – yfirleitt á Þorláksmessu, einhverra hluta vegna. Þetta er ekki hin fullkomna mynd en þó nálægt því að vera fullkomin jólagjöf sem hefur rúllað fullt af litlum rómantískum gamanmyndum í einn pakka. Umbúðirnar þorir maður ekki einu sinni að tæta í sundur, heldur eru þær vandlega og áhugasamlega opnar að ógleymdri slaufu sem gefur manni ekkert nema spikfeitt glott sem er erfitt að þurrka af sér í faðmi fjölskyldunnar eða hverjum sem manni er annt um á Jesú-afmælinu (gæludýr og asískir koddar í fullri mannsstærð eru að sjálfsögðu meðtaldir). Þetta er skyldueign í allar hillur!

atta
Besta senan:
Þarna gef ég kommenturunum orðið…

4 svör við “Love Actually”

  1. Axel B. Gústavsson Avatar

Sammála/ósammála?