Lífið er þriller, eða getur að minnsta kosti verið það á einn hátt eða annan. Reglulega út í hinum eðlilega heimi, alveg sama hvar, myndast sögur sem væru ákaflega gott efni í (drama)þrillera á hvíta tjaldinu, en sama hversu magnaðar raunasögurnar geta verið er ekki hægt að reikna sjálfkrafa með því að kvikmyndaður afrakstur einnar slíkrar hljóti sömu lýsingu.

Aldrei mun ég taka það frá Captain Phillips hvað umfjöllunarefnið er merkilegt. Myndin er unnin af linnulausri fagmennsku en þjónar fyrst og fremst hlutverki sínu að gefa Tom Hanks eitt besta hlutverk sem hann hefur átt í áraraðir, bara svo hann geti rúllað það upp og staðfest það sem sumir gætu átt stundum til með að gleyma; að hann er í alvörunni þvílíkt æðislegur leikari þegar hann fær réttu áhöldin, eða ósýnilegu skipstjórahúfuna í þessu tilfelli. Ef við tökum þessa mögnuðu frammistöðu í burtu þá situr annars vegar eftir nokkuð einslita fígúra í mynd sem siglir í nokkuð einhæfum dúr.

Venjubundnu Paul Greengrass-taktarnir eru allir á sínum stað (þ.e. hristingsbundni/órólegi realisminn hans) en þó myndin haldi sér stöðugt á floti, bókstaflega, er ekki alveg nóg til að fylla út í ansi hreint gjafmilda lengd. Best virkar Captain Phillips sem straightforward – m.ö.o. skelþunn og þráðbein – endursögn (og undirtónarnir með hnattvæðinguna svokölluðu fannst mér ógurlega vannærðir!) heldur en nokkurn tímann karakterstúdían sem hún reynir að vera. Örkin er góð, en kjötið vantar alveg, ekki bara á Hanks heldur langflesta í kringum hann. Vandinn er einnig sá að endursögnin í sínu þriller-formi er u.þ.b. korteri of löng með og missir voðalega dampinn eftir tröllasterkan fyrri hálfleik, en rétt rankar svo við sér á lokametrunum og brillerar næstum því með öflugri lokasenu. Hanks hefur ekki átt betri senu í áraraðir.

Greengrass er ferlega góður með „intense,“ raunverulegar senur og hérna gengur tekst prýðilega að koma manni í fótspor aðalpersónunnar en í rauninni á kostnað þess að myndin veit stundum ekki alveg hvort hún eigi að halda sig á sömu línum og sannsögulegu myndir hans eða spennumyndirnar. Lendir hún þá í staðinn svona á milli. Og talandi um persónusköpunina… Vanalega er ég þakklátur að fá Catherine Keener í ekkert voðalega stórum skömmtum en það er eitthvað næstum því móðgandi að hennar hálfu að sýna ekki nema tvær mínútur af henni og svo ekkert meir. Hún skiptir sögu herra Phillips frekar miklu máli. Aukaatriði að vísu, en stórt aukaatriði og mikil áhersla á það hvað Greengrass getur stundum dottið í þann gír að vera skítsama um fólkið og meira fókusaður á áferðina sína.

Klipping, myndataka og leikstjórnin almennt gengur upp og mótar í heildina trausta en samt eitthvað svo flata og teygða niðurstöðu sem meira hefði mátt gera úr á blaði, en – aftur – Greengrass hugsar ekki alveg þannig. Hann vill bara fanga raunsæi sitt á filmu og getur það stundum ósjálfrátt myndað ákveðna fjarlægð sem myndast á milli áhorfandans og skjásins sem hefði mátt betur brúa. Þetta vandamál fylgdi ekki með þegar hann gerði t.d. Bloody Sunday eða meistaraverkið United 93, en má hann samt vera býsna stoltur af kafteininum, jafnvel þótt ég myndi ekki persónulega segja að hann hafi haldið mér á tánnum út alla lengdina.

fin

Besta senan:
Catharsis-punkturinn í lokin. Magnaður geturðu verið, Hanks.

Sammála/ósammála?