Hér höfum við langa og afar sérkennilega fæðingu kvikmyndar. Þegar þriggja klukkustunda samsuðumyndin Grindhouse var upphaflega frumsýnd í Bandaríkjunum árið 2007 þótti aðsóknin engan veginn standast væntingar þeirra sem að henni komu. Það þótti býsna magnað í ljósi þess hvaða nöfn komu að henni. Í kjölfarið var ákveðið að gefa út sitthvora myndina frá Robert Rodriguez (Planet Terror) og Quentin Tarantino (Death Proof) í sitthvoru lagi en það þýddi að þurfti að slútta nokkrum ómissandi bútum, þá helst þeim gervi-trailerum sem komu frá Edgar Wright (‘Don’t’ – sem var langbesta stiklan), Rob Zombie (Werewolf Women of the SS) og Eli Roth (Thanksgiving). Aðeins ein sprellstiklan – sú frá Rodriguez – fékk víða útgáfu þar sem hún var sýnd á undan Planet Terror og var síðar meir gerð að sjálfstæðri bíómynd, en það er auðvitað Machete frá 2010. Hvort að sú ræma hefði átt að haldast í stikluformi eða ekki er undir öðrum komið að dæma en þarna var allavega fordæmi komið sem Roth ákvað að fylgja eftir – 16 árum síðar.  

Þá fáum við Thanksgiving í fullri lengd og segja skal það strax að Roth fær stóran plús fyrir að lenda ekki í nákvæmlega sömu gryfju og Machete. Sú mynd reyndi sitt besta til að notast við hvert einasta skot úr upprunalegu stiklu sinni og þræða einhverja söguþræði í kringum allt sem trailerinn gaf okkur. Roth gerir ekki alveg þau mistök. Jú, það er margt í Thanksgiving bíómyndinni sem svipar til stiklunnar samnefndu en grunnurinn er sem betur fer öðruvísi, stórum senum er breytt, stíllinn miklu nútímalegri og vitleysan yfir höfuð tekin á gerólíkt plan. Úrvinnslan er hin fínasta froðuskemmtun á sinn máta sem leikur sér ágætlega að týpískum geiraklisjum, rauðsíldar-formúlum og matreiðir ýmislegt óvænt úr subbuskapnum sínum. 

Eli Roth er yfirleitt bestur eða í það minnsta skemmtilegastur þegar hann er á heimavelli sínum sem grimmur prakkari á kafi í hryllingsmyndum. Þetta sést um leið og horft er yfir ferilinn hingað til; Hostel, The Green Inferno, Thanksgiving… Þetta eru hans betri dagar sem stemningsleikstjóri (…annað en Knock Knock, hörmungin Death Wish ofl) og svíkur hann seint í þeirri sadistakenndu kúnst að ganga lengra í viðbjóðnum en áhorfendur eru kannski yfirleitt vanir. 

Ef eitthvað nær ekki alveg réttu gripi í þessari nýju hryllingsveislu Roths, þá skrifast það á persónur sem eru lítt merkilegri en brauðmeti. Liggur nánast við að leikstjórinn vonist eftir að áhorfendur skiptist á að halda með morðingjanum og fíflunum sem verið er að veiða, sem myndi betur ganga upp ef væri meira kjöt í handritinu en á endanum er bara yppt öxlum yfir allflestum karakterum. Roth hefur aldrei verið sterkur með samtöl eða smáatriði, þannig að það þarf í rauninni bara að meðtaka það sem sinn eigin stíl hvað allt (sérstaklega undirliggjandi skilaboðin um fávitaskap fólks í sinni verstu birtingarmynd) virðist vera öskrað út og reynist vera tveimur númerum of yfirdrifið.  

Opnunarkaflinn í Thanksgiving er annars vegar meiriháttar; eiginlega bara helber snilld. Formálinn eða baksagan skilar sínu með mátulega ljótum og grípandi filing og það er margt djúsí í hugmyndinni að útfæra hrollvekju þar sem helsti hryllingurinn er einfaldlega neysluhyggja fólks – en verst er að sagan fer aldrei mikið lengra með það af viti. Ofbeldið er brútalt, óþægilegt og glettilega kómískt til skiptis – líkt og upprunalegi gervitrailerinn gaf til kynna, en lokasprettur sögunnar byrjar að missa marks eftir því sem skýr svör byrja að hlaðast upp (svipað og gerist stundum í slakari Scream myndunum). Tónninn er til að mynda kominn í dálitla klessu og allur alvarleiki aðstæðna farinn að sogast úr senum þegar til dæmis ein aðalpersónanna hrópar slagorð upprunaverksins: “There will be no leftovers!” Því greinilega fannst enginn betri staður fyrir orðin í narratífunni. 

Það eitthvað um fína takta í leikhópnum en fátt umræðuvert án þess að fara út í harða spoilera. Flest allir gegna sínu og reiða á styrkleika handritsins og rússíbanans sem Roth hefur öll völd yfir. Má að vísu ekki gleyma kvikindislega góðum praktískum brellum og förðun af gamla skólanum. Á þeim basis einum væri undirritaður vel opinn fyrir framhaldsmynd, segjum ábót. 

Á slakara ári fyrir hrollvekjur hefði Thanksgiving mögulega skarað fram úr en hún fer því miður aftar í röðina á eftir titlum á borð við Talk to Me, Evil Dead Rise og meira að segja hinni vanmetnu Exorcist: The Believer. Að því sögðu er þetta að minnsta kosti léttur og sóðalegur stemmari með húmor fyrir eigin rugli þó kannski ekki þessi truflaða og magnaða máltíð sem hún ætlar sér að vera. Mælt er allavega með að njóta veislunnar með líflegum hópi. 

Besta senan:
Ösin í stórversluninni.

Sammála/ósammála?