Sögur herma að Quentin Tarantino hafi ætlað sér að búa til aðeins eina mynd þegar Kill Bill fór fyrst í framleiðslu og endað svo með fjögurra tíma rúnksprengju, þar sem hann var svo hrifinn af sínu eigin efni að hann neitaði að klippa of margt í burtu. Stúdóíð fékk þá dollaramerki í augun og ákvað að skipta myndinni í tvo hluta. Þetta þýddi náttúrlega það að þeir gátu grætt tvöfalt meira á kostnað einnar myndar (þ.e.a.s. burtséð frá dreifingarkostnaðinum á báðum). En þetta er allt eitthvað sem ég held að flestir viti nú þegar.

Það eina sem ég skil ekki er hvernig sérvitri snillingurinn gat blekkt sig í að halda það að þessi epíska mynd (öllu heldur, þessi gígantíski óður til hinna ýmsu kvikmyndageira) sem hann var að gera gat nokkurn tímann gengið upp sem ein kvikmynd. Ef hann ákvað aldrei fyrirfram í tökum að þetta gæti breyst í tvo sitthvora helmingana, þá sýnir það merki um sturlað ábyrgðarleysi að hans hálfu sem leikstjóri. Það er ekki séns að þetta handrit sem hann hafði gat þolað þessa lengd, allavega miðað við hvernig myndirnar eru byggðar upp svo ekki sé minnst á hversu ólíkir sitthvorir helmingarnir eru.

Reyndar er saga að segja frá því að ég las handritið á Kill Bill áður en ég sá aðra hvora bíómyndina. Þetta var handrit sem hafði lekið á netið og var eitt besta handrit sem ég hafði nokkurn tímann lesið. Það var urrandi snilld, en auðséð var að þetta var alltof, alltof langt til að passa í mynd undir þriggja tíma lengd. Tarantino hafði pakkað aðeins of miklu af því góða og það sést á heildarniðurstöðunni að hann hafi þurft að skera helling út úr því, bæði til hins betra og verra.

Mest hefði ég viljað bara að hann hefði skorið upprunalega handrit sitt í tvennt og gert bíómyndir úr því, vísvitandi að þetta myndu vera tvær myndir. Það hefði verið fullkomið, í stað þess að strípa niður handrit sem átti að passa í eina mynd og svo klippa þetta niður í tvær. Afraksturinn er þess vegna voða upp og niður (reyndar fyrst hátt upp, og svo hægt og rólega niður), en þó miklu meira jákvæður heldur en neikvæður, enda er sagan og uppsetningin á henni svo geysilega fersk og umhyggjan gagnvart henni svo mikil að það er erfitt að missa sig ekki svolítið í fjörinu.

Ég er samt ósammála meirihlutanum og stend á þeirri skoðun að það hafi verið sniðugra að búta epíkina niður í tvo hluta, enda sést að myndin hefði aldrei flætt eðlilega í einum rykk. Ég hef oft og mörgum sinnum horft á Kill Bill-myndirnar og í ýmsum tilfellum hef ég prófað að horfa á þær sem eina mynd (ef þið ætlið að prófa það líka, þá skulið þið sleppa pínlega eftirmálanum í Vol. 1 og ljóta formálanum í Vol. 2), og það kemur rosalega skringilega út. Maður sér þannig alveg hvað Tarantino hefur reynt að gera, en sem ein mynd hefði hún verið algjör snilld í fyrri hlutanum sínum, keyrt sig svo alveg út með aðeins of stórum climax þarna í miðjunni og svo bara dottið í rólegri (næstum því hlutlausan) gír það sem eftir var af lengdinni. Handritið (í allri sinni heild) er sneysafullt af skemmtilegum senum, hugmyndum, óvæntum uppákomum og samtölum, en því lengra sem líður á það byrjar maður að taka eftir því að Tarantino er svolítið að totta sjálfan sig.

En ókei, Vol. 1… Fyrri helmingurinn á þessari fjúríus ofbeldisorgíu er miklu, miklu, miklu betri finnst mér og ástæðan er ekki flóknari heldur en sú að hann er bara svo tryllt skemmtilegur. Frábær húmor, geggjuð keyrsla og grjótharður töffaraskapur. Vol. 1 er einfaldari og augljóslega ríkari á kaosi í stað persónusamskipta, en Tarantino býr til ofsalega gott flæði úr þessari beinagrind með því að skreyta hana eins miklu og hann getur; frá split-screen skotum til anime-sena og grípandi tónlistarvals af öllum týpum og gerðum. Svo er seinni helmingurinn (af þessum fyrri helming þ.e.a.s.) af þessum 100 mínútum ekkert nema fjörugt og frussandi blóðbað og endalaus slagsmál. Í þokkabót eru engir tölvugerðir rammar neinstaðar. Áhættuatriðin eru öll praktísk og miklu aðdáunarverðari fyrir vikið. Blue Leaves-kaflinn er líka bara svo langur og epískur (semsagt fullkominn „climax“) að það hefði aldrei gengið upp að staðsetja hann í miðjunni á 220 mínútna mynd, enda nær sagan varla að toppa sig eftir hann.

Leikstjórinn er ekkert að leyna því hversu mikið hann teygir á frásögninni með þessari ringulreið þarna í lokin, en hann veit að áhorfandinn fílar þetta í botn því þetta eru vandaðar og snarklikkaðar senur með góðri músík undir. Maður hættir heldur aldrei að dást að Umu Thurman. Hún er stórkostleg og þetta hlutverk er án efa það besta sem hún hefur átt – og mun eiga – á ferlinum sínum. Rullan ætlast heldur ekki til lítils af henni! Þjálfunin sem hún hefur þurft að ganga í gegnum, tæmandi orkan sem fylgdi henni og ekki síst krefjandi krafturinn sem með reiðu og tilfinningaríku senunum.

Thurman er algjör gyðja sem gerir „The Bride“ að ekki bara einum albesta karakternum í Tarantino-myndum, heldur – án djóks – einhverri eftirminnilegustu hasarpersónu kvikmyndasögunnar. Það er einfaldlega ekki hægt að ímynda sér einhverja aðra leikkonu standa sig jafnvel í hlutverkinu og „girl power“ fílingurinn er svo sterkur og dásamlegur að mér verkjar í bæði eistun. Allir aðrir leikarar smella einnig í hlutverk sín eins og ekkert sé meira viðeigandi, sama hvort þeir séu í aðal-, auka- eða gestahlutverkum.

Það eina sem ég þoli ekki við Vol. 1 er þessi bjánalegi eftirmáli, sem uppljóstrar því sem áhorfandinn átti ekki að fá að vita fyrr en miklu seinna í sögunni. Svo kemur það fyrir oftar en einu sinni að hinar ýmsu senur eru lengri og teygðari en þær hefðu mátt vera. Tarantino missir sig stundum í mómentum sem hann telur vera ómissandi, þegar þetta eru í raun og veru bara óþarfar framlengingar sem sýna hvað hann er ástfanginn af sinni eigin sköpun. Það er eins og hann neiti að sækja skærin bara vegna þess að Sergio Leone, átrúnaðargoðið hans, var ekki hrifinn af því sjálfur. Leone elskaði að spila með langar þagnir og hægar uppbyggingar, sem oft virkaði en ekki alltaf. Tarantino notar sambærilegan frásagnarstíl en fyllir upp í þagnirnar með samtölum sem eru ekki alltaf eins grípandi og hann heldur. Þetta vandamál er að vísu aðeins meira áberandi í seinni hlutanum.

niu

Sammála/ósammála?