Einmitt. Jæja þá.
Þó það kunni að vera rétt metið af almenningi hvað Borderlands er afskaplega, afskaplega, aulalega misheppnuð bíómynd, er hún þó ekki alveg þessi óáhorfanlega katastrófa eins og mætti halda. Katastrófan hefði jafnvel verið margfalt skemmtilegri, því í staðinn varð úr þessari framleiðsluklessu bara ómerkilega líflaust og formúludrifið frat sem er meira meinlaus tækifærissóun heldur en móðgandi vara. Kannski veltur það svo sem á tengingu/ástríðu viðkomandi við tölvuleikjaheiminn samnefnda.
Það er jú, illa geymt leyndarmál að einhvers staðar leynist hérna allt önnur bíómynd sem Eli Roth ætlaði upphaflega að gera, áður en kokkar eldhússins sigldu þessu í eitthvað kaos með aðstoð frá Tim Miller (Deadpool, Terminator: Dark Fate) til að sjá um aukatökurnar; markmið hans var sjálfsagt að strípa ræmuna niður eða slípa og vatnsþynna í mauk. Það er svo sem ekkert gefið mál að bíómyndin sem Roth langaði að gera hefði orðið eitthvað mikið betri, en bíómynd er þar kjarnaorðið. Sú útkoma hefði líklegast fúnkerað eins og eitt stykki ævintýramynd, sem gerist í villtum og trylltum sci-fi díselpönk heimi þar sem alls konar möguleikar og fígúrur eru, því Borderlands eins og hún er gefin út er varla hægt að flokka sem bíómynd, enn síður afþreyingarmynd.

Hér streyma runurnar af senum og uppákomum sem þræðast rétt svo saman í klígjuvaldandi ‘chosen-one’ atburðarás sem sniglast í gegnum uppskrftina á fyrstu Guardians of the Galaxy-myndinni og þykjast fela það. Það besta sem má segja um Borderlands er hvað hún sýnir vel að formúlan sem James Gunn og co. náði að sjóða saman er mun erfiðari en hún lúkkar. Borderlands er ekki einu sinni svo heppin að fá að vera afsláttarútgáfan af Guardians. Þá væri hún sennilega pínu skemmtileg, en ekki svona rándýrt spaug í gervi ævintýramyndar sem dælir út bröndurum og þykist taka persónuboga alvarlega á meðan leikararnir setja lítið sem ekkert fútt í þetta. Hugsanlega gæti það skrifast á aukatökurnar eða tortímingu betra myndefnis í klippiferlinu en það er allavega nokkuð mikið að þegar Cate Blanchett af öllu fólki hefur hvorki útgeislunina né áhugann sem hún er vel fær um.
Án þess að detta í marklausan samanburð á tölvuleikjunum (það er eiginlega ekki minn bardagi, ég var alltaf meira Tales from the Borderlands týpa… sorrý mig…) er augljóst að Blanchett er kolröng kona í þetta aðalhlutverk sem hún geispar svo í gegnum með augnaráðinu. Blanchett er tvímælalaust snillingur sem getur alls konar og ýmislegt en ekki hvað sem er skilyrðislaust; og það er ekki alltaf besta múvið að bregða sér í rullu sem betur hentar einhverjum tuttugu árum yngri. Jamie Lee Curtis er reyndar mögulega ófær um að lífga ekki smávegis upp á ramma með viðveru sinni og fær fáeina spretti hér en glímir því miður við sama vandann að vera rétt manneskja í vitlausu hlutverki – í glötuðu handriti. Kevin Hart ber vissulega höfuð og herðar yfir allan hópinn ef málið snýst um að vera frábrugðinn tölvuleikjapersónu sinni, en enginn Kevin Hart er alltaf skömminni skárra en vandræðalega ófyndinn Kevin Hart.

Þau sem koma skást úr þessu öllu saman eru Ariana Greenblatt (Barbie ofl.) sem Tiny Tina – eina persónan sem gefur alvöru hint af prakkaralegu sprelli – og Florian Munteanu sem massaði aulabárðurinn Krieg, fyrir þær einu sakir að hann þarf ekki að gera mikið annað en að garga út í loftið og haga sér eins og villingur. Mætti jafnvel segja að Jack Black reyni hispurslaust að smita frá sér óbeislaðan hressleika og er í sjálfu sér prýðilegur með raddsetninguna á ráðagóða, síringlaða róbotanum CL4P-TP. Eðlilega er samt bara visst mikið sem hann getur hnoðað úr frösum í handriti þar sem fyndnina sárvantar í alla stemninguna.
Gallaðar einingar geta þó stundum sameinast í prýðis heild og hér hangir öll skrattans ræman á því hvort leikararnir nái að negla samspilið og mómentin sín á milli eða ekki. Ef dýnamíkin er off eða hreinlega steindauð er þá lítið annað sem stendur eftir nema hópur af flottum leikurum í skrautlegum búningum að eltast við skuggann og sjarmann á 10 ára gamalli Marvel-mynd. Það er svo sem nógu dapurt að díla við einhliða og bragðlausa andstæðinga í MCU-myndum, en þar kemur Borderlands með sitt besta trompspil. Hinn yfirleitt ágæti Edgar Ramirez hefði alveg eins getað tekið sína frammistöðu í gegnum WhatsApp og fengið andlit sitt smellt á næsta staðgengil í eftirvinnslunni. Það er ekkert á bak við þennan þorpara nema það sem hefur lengi safnað ryki á lagernum og þótt of úrelt til að nota jafnvel í neyð. Ramirez fékk vonandi vænan aur fyrir að mæta á tökustaðinn þar sem ómerkari pappír af andstæðingi í svona dýrri framleiðslu er vandfundinn. Ekkert rými er fyrir persónuleika eða svigrúm til að bæta neinu við úldnar ‘expositional’ línur. Hvílíkur díll.

Illmennið er aðeins þarna til að hetjurnar okkar mjakist frá einni sviðsmynd til þeirrar næstu svo allir myndi óvænta fjölskyldu og skelli sér í pósur fyrir lokasenu þar sem allt er stillt upp fyrir framhaldsmynd. Þetta eru allt innantómir stoðir þar sem innihaldið er síður í baksætinu og meira rotnandi í hanskahólfinu.
Verra er að fá ekki einu sinni þá lágmarkskröfu fylgda eftir að festast yfir sturlaðri brelludýrð, líflegum hasar eða hönnunarbrjálæðinu. Peningurinn sést varla einu sinni á skjánum því umfangið virkar afgirt, einhæft og með áföst merki um innitökur og blatant sviðsmyndir í gervi útisvæða. Smá epík í öllu sjálfskipaða ruglinu hérna hefði getað réttlætt rennslið betur. Frústreringin sem fylgir því að horfa á Borderlands frá byrjun til enda er eins og að festast sífellt á litríkum Loading-skjá og lenda síðan á laggandi spilun á leik sem endar áður en hann kemst á skrið. Nema laggið í þessu tilfelli táknar hverja klígjuna í handritinu á eftir annarri.
Til lengri tíma horft verður það kannski álitið listilega táknrænt hvað húmorinn í myndinni vísar merkilega oft í hægðir, hland og sársauka. Að vísu kemur það nákvæmlega ekkert á óvart að nokkur Avi Arad hafi verið einn af framleiðendum myndarinnar*.

*(Sjá einnig Madame Web. Maðurinn er þó allavega samkvæmur sér sjálfum í verkum…).






Sammála/ósammála?