Grunnhugmyndin að plottinu fyrir þessa (að öllu útllítandi) brautryðjandi Barbie-mynd verður óneitanlega að teljast til stakrar djöfullegrar snilldar; Hvað myndi nákvæmlega gerast þegar Barbídúkka fer dag einn að hugsa um dauðann?

Ókei, ég er umdeilanlega ekki í bestu stöðu til að meta bíómynd þessa til fulls sökum þess að skilgreina sjálfan mig sem (40%) Ken-eintak (en 60% ‘Allan’ allan daginn), með takmarkaða en þó einhverja reynslu af Mattel-merkinu merkilega sem hefur ráðið yfir dúkkumarkaði síðustu áratugina. Annars ólst undirritaður upp sem Spice Girls aðdáandi og bíófíkill en í senn sem miðjubarn umkringdur sjö hálfsystkinum. Þetta þýðir meðal annars það að við mér lá ógrynni af leikföngum; frá Turtles kalla til Rambo fígúra og að sjálfsögðu laumuðust nokkrar Barbie með. Ég djóka stundum með það að þegar ég lék mér að Barbie-dúkkum í æsku að í mínum leik hafi hún alltaf haldið framhjá Ken með Action Man. Fannst það einhvern veginn meika mest ‘sense’, fyrir utan það að Ken var aldrei til á mínu heimili. Þetta er (því miður) eins langt og þekking mín á dótinu sjálfu nær, en…

Fyrirfram taldi ég nokkuð óhætt að reikna með temmilega góðri skemmtun, enda Greta Gerwig frábær leikstjóri og penni (og nú búin að rokka þrjár ólíkar kvikmyndir í röð sem heimskulegt væri að mæla EKKI með), en undir lokin var ég farinn að fella fáein tár og ekki bara yfir húmornum. Bjóst ég því alls ekki við því við endastöð Barbenheimer hæpsins í sumar að Gerwig yrði leikstjórinn sem hefði meira persónulegt og kjötaðri hluti að segja um mannlegu þættina með sínu verki og á mun styttri tíma heldur en þriggja tíma bíópík Christophers Nolan um tilurð fyrsta gjöreyðingarvopnsins og mórölsku klemmur þess. Að vísu er ósanngjarnt að bera þær tvær myndir og mikið saman þó þær hafi staðið samstíga í magnaðri hæp-maskínu sumarsins, enda eru þær epli og appelsínuhúð.

Tilfinningin eftir langan tökudag með Tarantino,

En merkilegt nokk; Barbie er óskiljanlega og stjarnfræðilega brilliant bíómynd. Hún er söluvara í gervi listaverks – eða öfugt. Hún er þroskasaga ‘dótafígúra’ um allt hið mannlegasta á meðan heimur þessara leikfanga er skoðaður í þaula út frá fortíðinni, þróuninni og samtímanum. Hún er algjör partísýra í framsetningu en með ómetanlega einlægan kjarna og gengur út á alvöru tilfinningar og krísu. Svo er meira. Svo miklu meira.

Persónulega met ég góðar gamanmyndir út frá hlutfalli þeirra skipta þar sem ég skelli upp úr eða glotti. Flóknara er það varla, en eftir Barbie varð mér raunverulega illt í andlitinu. Ég hló eins og bavíani og er satt að segja hissa yfir hversu vel tókst til með að gera svona hnyttna, skarpa, hugmyndaríka, yljandi og frussuskemmtilega ræmu um þekktasta dúkkumerki veraldar. Þetta er circa á pari við fyrstu Legómyndina en bara ef kvikmyndagerðarfólk á hærra gæðaleveli (í þessu tilfelli handritsteymið og ofurparið Greta Gerwig og Noah Baumbach) fengi að gubba sínum bíótöfrum, húmor og skilaboðum yfir ferskri tæklun á kunnuglegri ‘fish out of water’ sögu. Reglurnar skipta engu máli, né hvað snýr upp eða niður í Barbílandinu góða eða hinum álíka skrípalega raunheimi okkar. Lógík eins og hún leggur sig skal vera lögð lengst á hilluna og því meira rugl, því betra, virðist vera.

Á bakvið allan glansinn, söluvörurnar, flöffið og kómedíuna nær svo glimrandi skemmtilega að laumast þarna í gegn frumleg saga um sjálfsuppgötvun, hjarðarhegðun, minnimáttarkennd, óöryggi, óvissu og leitina að eigin karakter í flóknum heimi. Þetta er gert í formi þess að hin svokallaða Stereótýpu-Barbí upplifir skyndilega ömurlegan dag og þungar hugsanir (jebb, um dauðann, gott fólk) og leggst þá í ævintýraför utan veggja Barbílandsins í leit að stærri miklu svörum en hana á eftir að gruna. Þá má auðvitað ekki gleyma ‘fylgihlutnum’ sem ávallt og í áratugaraðir hefur eingöngu ‘Ken-dur’ við Barbí. Hann Ken greyið gerir allt og bókstaflega lifir fyrir að slæpast eða spóka sig á strönd til að ganga í augun á heitustu skvísunni. Skyndilega er hann sjálfur kominn í stórleit að sínu besta sjálfi og lífi, ómeðvitaður um að þetta gæti dregið meiri skaða en gæfu á eftir sér.

Barbie getur verið margt; stórskemmtileg froða sem endalaust er hægt að kvóta úr, létt og bráðsmellin fjölskyldumynd, tilvistarkreppu-kómedía handa fullorðnum en ískyggilega frábær ádeila bara þegar öllu er á botninn hvolft; yndislega existentialísk og feminísk saga þar sem handritið hræðist þess heldur ekki að skjóta föstum skotum á neysluhyggju og kynjamyndir raunheimsins og pakkar þessu öllu utan um þroskasögu með laumulega djúpum þemum. Listilega leikin er hún vissulega líka – og galið flippuð í kaupbæti – og má lengi telja upp hvern senuþjófinn á fætur öðrum.

Mattel selur kannski Ken-dúkkurnar, en Ken er kominn í eigu Goslings

Allir og ömmur þeirra ættu nú að vita á þessum timapunkti að Margot Robbie er eins og afl sem á sér engan líka, bæði með ítrekað sterku vali á kvikmyndum sem og hlutverkum sem hún leikur sér að áreynslulaust (í alvörunni, sjáið Babylon og þar hvernig þessi kona getur bara… allt). En eins fyrirsjáanlega fullkomin og Robbie er í aðalhlutverkinu, þá slást reyndar sögulega stórkostlegur Ryan Gosling, geysisjarmerandi America Ferrera, ofurkrúttaður Michael Cera, tuskuleg Kate McKinnon og hjartabræðandi Rhea Pearlman um einmitt þau verðlaun – þó ekki vanti úr framboði senuþjófa. Allir og hver einasti sem prýðir skjáinn er í rétta stuðinu sem tónn myndarinnar leitast eftir. Að því sögðu er orðið ansi þreytt að segja það, en best skal benda á endurtekin mynstur; því enn og aftur höfum við einn fínan Will Ferrell í logandi stuði þar sem hann er umkringdur snillingum – þar sem hann er eina ferðina enn lang ófyndnastur í öllum hópnum.

Með tæknivinnslu og allri umgjörð hefur Gerwig sérdeilis sankað að sér góðu teymi fyrir aftan sem aftan tökuvélarnar; enda skrautlega fittandi og fjölbreytt stílbrögð í gegnum notalega bratta framvindu, með misaugljósar vísanir í Playtime, A Space Odyssey, The Umbrellas of Cherbourg og fjöldan allan af kryddum úr sarpi söngva- og dansmynda. Það er þó púlsandi hjartað í sögunni sem hefur plastdraslinu, prakkaraskapnum og skrípóinu nægilegt vægi til að útskrifa lokavöruna sem eitthvað miklu meira og beittara en ‘bara’ afþreyingu.

Hæpið stenst, velgengnin er verðskulduð og verður í raun forvitnilegast að fylgjast með næstu verkefnum Gerwigs upp úr þessu. Hvort myndin eigi eftir að eldast vel eða geta af sér glatað flóð lummulegra ‘leikfangamynda’ á enn eftir að skýrast með miklum tíma en eins og stenur núna er hún bókað með ferskari og skemmtilegri Hollywood-myndum sem hafa komið út á síðustu misserum. Gott bíó er gott bíó og sérstaklega þegar eitt slíkt hefur aflið til að bæði sameina heilu kynslóðirnar og fæla frá hina óöruggustu karlpunga sem munu lengi vel misskilja boðskap sögunnar.

Merkilegast við þetta allt saman þykir mér samt hvernig í déskotanum Mattel samþykkti þessa veislu og af hverju í kvensköpunum sjáum við ekki stórrisa hafa SVONA mikinn húmor fyrir sjálfum sér á hvíta tjaldinu.

Besta senan:
Mónólogur Ferrera og Kenvillingar í stríði.

(Textaþýðandi myndarinnar á einnig alla virðingu skilið fyrir glæsilega þýðingu á vissum lögum og ekki síður frasann (‘to beach off’…) ‘að flóa sér.’)

Sammála/ósammála?