Alltaf er það ánægjulegt að sjá hæfileikafólk vaða í enn stærri og dýpri laug af algeru óttaleysi. Það er auðvitað algengt að stórfrægir leikarar reyni að spreyta sig með leikstjórn eða handritsskrifum á einum eða öðrum tímapunkti, en hlutfall þeirra sem gera það af einhverjum krafti og komi óumdeilanlega með þvílíka neglu í fyrstu tilraun er skammarlega lágt. Þangað er hin þegar múltítalentaða Zoë Kravitz núna komin og mikið djöfull verður spennandi að sjá hvernig hún mun framvegis dafna á bak við vélina í bland við leiklistina.

Það sem við fyrstu sýn gæti litið út fyrir að vera enn eina ‘slasher-á-draumaeyju’ bíómyndin leynir djöfulsins slatta á sér, þá eitthvað miklu athyglisverðara og jafnvel dýpra. Blink Twice er lágstemmdur og hnífbeittur sálfræði-/paranojutryllir þar sem útlit fyrir umgjörð, framvindu og tæknilegri samsetningu ber lítil sem engin ‘fyrstu kvikmynda’ einkenni. Kravitz kemur að efniviðinum af bæði slíkri persónulegri (og stórbrotinni) útrás og svo óhefluðu sjálfsöryggi með stílnum að þessi laug sem hún tók dýfuna í hefur reynst henni svo gott sem eðlislæg.

Þessi leikstjórafrumraun hjá Kravitz, sem hún skrifar ásamt High Fidelity-pennanum E.T. Feigenbaum, hefst á trigger-viðvörun. Reyndar hef ég voða blendnar tilfinningar til slíkra á undan sjónvarpsþáttum/kvikmyndum, og þá aðallega þegar þær spilla fyrir stórum senum eða neyðast til að stafa út þemun beint út. Hvort tveggja er raunin í Blink Twice og er tónninn strax gefinn um að myndin gengur út á misnotkun valds, kynferðislegt áreiti og ýmsan hvern viðbjóðinn á eftir öðrum sem fylgja skelfilega oft með ríkum, valdamiklum karlpungum sem allt gera til að viðhalda sínu narsissíska stöðugildi í lífinu og halda sjálfspartíinu gangandi.

Valdafanturinn sem um ræðir er tæknifrumkvöðull og milljarðarmæringur að nafni Slater King (sem er æðislegt nafn og ekkert síður þegar þú ert með Christian Slater viðstaddan í sömu mynd), merkilega meistaralega leikinn af Channing Tatum. King hefur nýlega gefið út feikaða afsökunarbeiðni opinberlega eftir að hafa verið sakaður um kynferðisbrot og ofbeldi, en þá ætlar hann að hverfa aðeins úr sviðsljósinu til að eyða tíma á einkaeyju sem hann keypti nýverið. En það gerir hann ekki einsamall.*

Aðalpersóna myndarinnar, Frida – í túlkun hinnar frábæru Naomi Ackie (The End of the F***ing World, The Rise of Skywalker), flækist í þennan lokkandi blekkingarvef Kings þar sem öllu fögru er lofað á draumaeyjunni sólríku. Frida er gengilbeina sem verður fljót að laðast að persónutöfrum Kings og ákveður að þiggja óvænt boð um að eiga taumlaust skrall og endalausa slökun á eyju hans. Vinkonu hennar, Jess (Alia Shawkat), er boðið með ásamt fleiri einstaklingum sem ákveða að skella sér. Allt er auðvitað voða saklaust og fjörugt í fyrstu, en rauðu flöggin eru alls staðar (engir símar, engin neyðaraðstoð, ekkert nálægt…) en þegar Frida er farin að efast um eigin geðheilsu og minnisgetu verður þá klárt og ljóst að paradísin er hreinasta martröð í dulargervi. En hvað er þá til ráða; að brosa bara, reyna að njóta og halda andliti eða finna leið til að rjúfa mynstrin í kringum hana með því að reiða á hugvitið?

Heppilega er þó einn mikilvægur þemapunktur sem viðvörunin í blábyrjun gefur ekki upp, sem er fókus sögunnar á eignarhald, gaslýsingar en ofar öllu samstöðu kvenna, sem er aflgjafi lokasprettsins. Kravitz lætur svo allt vaða með að hámarka hljóðheiminn, leika sér að litanotkun leikmynda, ryþma í klippingu, hressilegum retró-lögum og ákveðin óþægindi sem geta óhjákvæmilega fylgt stemningu þar sem allt útlit er fyrir linnulausu djammi og gamni, trekk í trekk, dögum saman. Ringulreiðin sem Frida upplifir speglast mikið í stílíseringunni. Þó persónurnar séu reglulega sósaðar og undir margs konar áhrifum er áhugavert hversu lágstemmt atmó Kravitz hefur skapað hérna með sínu teymi, þar sem reyndar er líka stutt í þrumandi (en undarlega effektívar) bregður. En síðan er einhver steiktur galdur sem kemur sérstaklega úr hljóðheiminum, t.a.m. hvernig veip-innsogið hjá King er mixað til að gera vart við sig, öll smjött, drykkjaáfyllingar og svo framvegis. Hvert hljóð hefur sinn karakter í rauninni, eða ber sitt eigið sett af merkjum eða flöggum sem gefa betri mynd af heildarstriganum.

Öflugasta trikkið hjá Kravitz er hins vegar hvernig hún tekur alvarleikann í þemunum og skilar út kaþartískum prakkaraskap þegar vörn er víða snúið í sókn í lokaþriðjungnum. Til dæmis væri þessi bíómynd strax mun linari ef ekki væri fyrir þennan dásamlega eftirmála í lokin, sem bæði kemur óvæntur að áhorfandanum en smellur þó glæsilega og er í takt við það sem byggt var upp allan tímann (ef við hugsum m.a. til orðanna sem Frida endurtekur frá móður sinni…). Handritið spyr líka endurtekið spurninga um ákveðnar normalíseringar þegar moldríkir einstaklingar ráða ríkjunum, sem kristallast hvað best með því hvernig Frida blæs frá sér furðulegheitin fyrst eða allt sem gæti þótt vafasamt („I don’t think it’s weird. I think it’s… rich“).

Blink Twice er svo skýr og sterk í myndlíkingunni að hægt væri að líkja hana við hálfgerða sleggju. Hún er samt svo önnum kafin með ádeiluna að hún kemst varla í það að plástra fyrir fáeinar lógík-gloppur í handritinu eða atburðarás sem verður faktískt ótrúverðugri eftir því sem á líður, en annars vegar gefur hún þá líka verulega í hvað það varðar að vera algjört bíó. Taumur Kravitz á frammistöðu leikhópsins eins og hann leggur sig er sömuleiðis heill aflgjafi í óróanum út af fyrir sig. Eins og þau Ackie og Tatum eru nú meiriháttar góð í burðarhlutverkunum er varla feilnóta slegin út línuna. Alia Shawkat stendur einna mest upp úr – og hefði satt að segja mátt vera meira af Jess, vinkonunni sem sér í gegnum allt og grínast með aðstæður en hefur ekki hugmynd um hversu rétt hún hefur fyrir sér. En þá kemur Adria Arjona æðislega inn til að leysa Shawkat af í hennar fjarveru sem Sarah, ein af stúlkunum sem þáði sama paradísarboð frá King eða hans fylgdarliði og er sjálf farin að efast um eigið öryggi, gildi eða raunveruleika.

Ekki er heldur leiðinlegt að sjá Geenu Davis þarna í þrusugír og með bitastæða nærveru. Þeir Simon Rex, Haley Joel Osment, Kyle MacLachlan, Christian Slater og Levon (sonur Umu Thurman og Ethans…) Hawke gera einnig það besta úr því sem þeir hafa, frá blindandi persónutöfrum til dólgsláta eða einhvers miklu ógeðfelldara. Allir sem einn þjóna heildarverkinu og styrkja taugatrekkinginn sem Kravitz leikur sér laumulega að.

Þegar upp er staðið er stíll og stemning í meira aðalhlutverki hér en nokkur díteiluð persónusköpun og að flestu leyti er hún frekar ábótavant, en… hvílíkur taugatrekkingur samt sem áður! Það liggur að vísu við að mig langi nánast til að draga heilt stig af einkunnargjöfinni sökum þess að Kravitz hafi ekki fengið að halda upprunalega titli myndarinnar: Pussy Island.

*Myndin er reyndar miklu skemmtilegri ef hugsað er til þess að hún gæti alveg eins verið lauslega byggð á Armie Hammer, með kannski slettu af Musk.

Sammála/ósammála?