Hausverkurinn heldur áfram. Það ætti í rauninni enginn að geta slysast til þess að horfa á fimmtu Transformers-myndina frá Michael Bay án þess að vita nákvæmlega hverju hann á von á. Þetta verður meira bara spurning um það hvort Bay hafi slysast til að gera eitthvað þrælskemmtilegt úr hávaðanum eða hvort sálarlausi, miskunnarlausi, sjálfumglaði og söluóði perrapúki hans hefur tekið alveg yfir.

Transformers-myndirnar hafa verið auðveld skotmörk fyrir gagnrýnendur, en það má ekki horfa framhjá því að þær gera fullt ótrúlega vel – og með hverri mynd verður tæknin alltaf betri til þess að gefa okkur snyrtilegri róbotaslagsmálum. Fyrstu tvær myndirnar eru ekkert sérstakar en ég er kannski einn á því að mér finnst sú þriðja vera frábær afþreying. Sú fjórða var hins vegar drepleiðinleg og refsandi í sýningartímanum, og heimskunni.

Þó efniviðurinn sé byggður á leikföngum sem slást og kjarnaþráðurinn gangi út á að sýna tröllvaxin vélmenni gera allt tryllt, þá þýðir það ekki að handritið þurfi að vera með greind á við flöskuopnara. En það hefur aldrei verið stærsta vandamálið svosem.

Hvað þessa seríu varðar þykir mér þó meira komast til skila að Bay vilji raunverulega gera betur en síðast og spreða sköpunargleðinni – eða sprengja hana í loft upp. Stundum er eins og áhugi hans deyji alveg í framhöldunum með sléttar tölur, og stígur hann alltaf upp enn brjálaðri eftirá með sýniþörfina í aðdáunarverðu og forvitnilegu hámarki.

Með fimmta eintakinu finnst mér eins og sé loksins kominn vilji fyrir því að hrista aftur meira upp og epískt í þessu, og hætta að endurtaka sömu beinu formúlurnar og áður. Eitthvað er að sjálfsögðu af því, en handritið er frussandi út svo mikilli gleði yfir eigið, komplex mýþólógíu (og viðbótum þar á meðal sem myndu fá Dan Brown til að springa úr hlátri) að ruglið verður drulluskemmtilegt.

The Last Knight gæti jafnvel verið næstbesta ef ekki skemmtilegasta og ruglaðasta myndin í röðinni, en eins og með hinar er hún hömruð niður af glötuðu handriti, alltof mörgum karakterum, húmor sem er beyond pínlegur, lengd sem mátti auðveldlega skafa og klippistíl sem kemur stundum út eins og einhver experimental ringulreið. Á köflum er flæði myndarinnar sett saman eins og LANGUR trailer, enda fleiri boltar á lofti en hún ræður við.

Það hefur og getur verið visst skemmtanagildi í þessum skyndibitamyndum (og ég endurtek: Dark of the Moon fannst mér geggjuð) en það eru til mörk yfir því hversu mikinn „Bay-isma“ augu, líkami og sál getur meðhöndlað til lengdar þegar hann er fastur í því sama. Þar meðalið er rúnkið á ameríska herinn, píndur „kynþokki“ og borderline hatursverðar myndir af konum, rasískar stereótýpur eða söguþræðir sem endurtaka sig og eru kæfðir af hávaða og flottasta brelluhamri sem peningarnir kaupa.

Það jákvæðasta sem ég get sagt er að þessi Transformers-mynd er vel tónuð niður af auglýsingarorgíunum eða fánadýrkuninni sem Bay er orðinn vanur. Og gefa má honum prik fyrir að gefa okkur kvenhetju (leikin af Lauru Haddock) sem hann reynir að gera „sterka“ og eftirminnilega – sem henni tekst ágætlega að vera í umsjón leikkonunnar, þó kappinn standist að sjálfsögðu ekki freistinguna að klæða hana upp eins og strippara (ein og Mark Wahlberg orðar það) og leyfa kamerunni að slefa á eftir henni.

Auk þess kynnir hann til leiks unga stúlku (Isabel Moner) sem sannar sig sem ofurmannlegt hörkutól í byrjun sögunnar – en engar áhyggjur, Bay passar að jafnaldrar hennar slefi á eftir henni líka. Myndin virðist síðan bara að gleyma að sé til og gerir hún ekkert merkilegt í öðru, þriðja eða fjórða act’i.
Öh… kei.

En mesta andskotans böggið sem ég finn við þessa mynd, er nákvæmlega það sem mér finnst mest koma í veg fyrir að maður detti almennilega í hana eða geti fylgst með: aspect ratio-skiptingarnar!

Ég hélt að það væri nógu þreytandi þegar Christopher Nolan gerir þetta en hann leyfir að minnsta kosti senum að anda á milli í læstum ramma. Bay hefur áður fiktað með svona lagað, en The Last Knight tekur orðið „overkill“ og mjakar sér upp úr því, og skiptist á milli a.m.k. þriggja mismunandi hlutfalla á sekúndnafresti, sem er enn verra þegar myndin er mestmegnis skotin á IMAX 3D vélar. Ef ég væri níu ára að horfa á þessa mynd í bíó hefði ég haldið að sýningin væri eitthvað gölluð. Hvaða „listræna“ touch er leikstjórinn að reyna að afsaka með þessu? Hvernig gátu fimm klipparar unnið að myndinni og leyft þessu að sleppa svona í gegn? Tekur hinn almenni áhorfandi raunverulega ekkert eftir þessu??

Mark Wahlberg og félagar púla, hlaupa og svitna svo mikið að það verður aldrei hægt að segja að fólkið sé á sjálfsstýringu. Wahlberg hefur nú látið betur um sig fara í þessum heimi og er ánægjulega hress og viðkunnanlegur. Josh Duhamel gerir reyndar ekki skít fyrir myndina með sinni endurkomu, né John Turturro í grátlega gagnslausu subplotti. Eins með Tony Hale úr Arrested Development, hann hefði alveg mátt fjúka.

En Anthony Hopkins er þó ávísun á meðmæli út af fyrir sig. Einhvern veginn hefði ég haldið að hann myndi bara liggja launin og sofa gegnum þessa rullu (á milli þess að henda út öllum mögulegu útskýringaræðum), en kræst, nei. Hopkins er alveg meira en til í þetta og verður svo fjörugur að meira að segja vondu brandararnir hitta í mark undir töfrum þessa manns. Hann er frekar æðislegur, þó ég geti ekki alveg sagt það sama um róbó-brytann hans, Cogman. Sú fígúra er eins og C-3PO – með persónuleika geðsjúklings.

Erfitt er að skilja hvaða almennilega tilgangi mannfólkið gerir innan um átök róbotanna og kemur oft fyrir að oft fari of mikill tími í fólkið og farsakennda snatt þeirra og upplýsingaaflanir. Sjálfur Optimus Prime kemur m.a.s. út eins og hann sé í gestahlutverki í eigin mynd, sem er eiginlega bannað þegar þú gerir sögu þar sem hann fær að vera vondur!

Þó það taki reglulega smátíma að meðtaka allt sem er í gangi í Transformers: The Last Knight, þá er hægt að hafa aulalega gaman að því sem hún hendir framan í áhorfandann, hvort sem það er gígantískur og helflottur lokabardagi eða Anthony Hopkins látandi eins og hann sé á einhverjum fjörugum efnum.

Ég skal alveg játa, ég vil endilega sjá hvert næsta mynd færi með þau fræ sem hún leggur fyrir – og bara enn betri fréttir ef Bay leyfir loksins einhverjum öðrum kvikmyndagerðarmanni að leika sér í þessum botnlausa sandkassa af brellum og dótahugmyndum. En myndin náði samt að skemmta mínum lágt stillu væntingum og virðist satt að segja vera hingað til sú í seríunni sem er mest lík fílingi teiknimyndanna. Ég myndi í alvörunni leyfa einkuninni að sleppa með fína sexu ef myndin væri laus alfarið við þessar skitsó-hlutfallaskiptingar.

 

 

Besta senan:
Lokabardaginn.

Sammála/ósammála?