Nú er þetta orðið ansi snúið. Undanfarin ár hafa Disney-stórrisarnir verið allsvakalega duglegir að endurpakka og stífmjólka gamla katalóginn (sérstaklega ’90s megin) og munu áfram gera. Þetta er búið að vera oft hundleiðinlegt trend en þá yfirleitt þegar ímyndunaraflið er í botni og engin ný sköpunargleði, sbr. Beauty and the Beast, The Lion King og (umdeilanlega) Aladdin. Ef á að slá á gamla nostalgíustrengi og endurgera eitthvað stórfrægt sem er ekki brotið, er vel þegið að vilji fyrir nýjum fleti eigi forgang. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að nýja Dumbo er með skárri mjólkunum á hinu gamla, eða úrelta.

Þá kemur Disney Mulan endurgerðin, sem á blaði (og með leikaravali) lofar góðu. Heildarsvipurinn reynir lítið að apa eftir gömlu klassíkinni, losar sig við skrípóið og sönginn. Öllu er stillt upp í stíl við Jerry Bruckheimer-útgáfuna af Wuxia-mynd og er peningurinn aldeilis áberandi á skjánum. Hvað gæti klikkað?

Í ljós kemur að þessi nýja, fokdýra nálgun (sem ofar öllu er slípuð og græjuð til að Disney gangi betur á Kínamarkaðinum) er bara skraufþurr, óheillandi, langdregin og lafandi. Hasarinn er flatur, leikarar yfirleitt lamaðir af vondu handriti og sjálf Mulan, titilfígúra sem hefur alla burði til að vera ómótstæðileg hetja, missir marks um leið og hún breytist í pjúra einhliða ofurhetju. Allt við þessa framleiðslu er kalkúlerað, töfralaust og stemningslaust.

Til samanburðar var það einmitt skrípóið, söngurinn, bratta atburðarásin og umfram allt aðalpersónan sem gerði teiknimyndina svo frábæra.

Sammála/ósammála?