Öruggt er segja að að fyrstu mistökin sem þessi mynd gerir er að bera mjög svo villandi og að mínu mati hálf asnalegan titil. Svona heiti á bíómynd getur varla öðru lofað en hraðskreiðri testósterónveislu þar sem vöðvarnir á Dwayne Johnson fara með aðalhlutverkið og leikhæfileikar hans sitja í aftursætinu.

Jánei! Frekar hefði þessi mynd bara átt að heita Driver, eins og „nafnið“ á aðalpersónunni. Jafnvel hefðu heitin Drive eða Drive Angry smellpassað ef þau væru ekki þegar frátekin. Annars fara titlar aldrei í taugarnar á mér nema niðurstaðan skili einhverju allt öðru en heitið lofar, eins og hér er augljóslega tilfellið. Þarna er ég hins vegar bara að hugsa um einfalda mainstream-hópinn sem mun kynna sér þessa mynd með akkúrat þessu hugarfari. Titillinn er aukaatriði fyrir mér því ég átti von á heilalausri strákamyndafroðu en fékk í staðinn hráa en á sama tíma yfirdrifna stílsúpu sem er furðulega létt á hasar en nokkuð þung á tilfinningum. Þetta er án efa snjallasta og (dirfist ég að nota þetta orð?) dýpsta mynd vöðvafjallsins, og þó svo að það segi nákvæmlega ekkert, þá segir það ýmislegt um mynd sem ég var í fyrstu tilbúinn til að hata.

Ég get sagt eitt um Johnson. Hann er viðkunnanlegur gaur og ég hef aldrei haft neitt á móti honum. Eina sem hefði mátt laga er hlutverkavalið. Það skilja auðvitað allir að jafnvel stórstjörnum vantar oft pening til að kaupa nýjan tennisvöll eða sundlaug en það er engin afsökun fyrir því að setja eitthvað eins og Race to Witch Mountain og The Tooth Fairy á ferilskránna sína. Þetta mun aldrei þurrkast af. Það er þess vegna vægast sagt hressandi að sjá hann í harðri ofbeldismynd eins og þessari, og hér er hann eldfimur og eiturharður. Hlutverkið krefst ekki margra orða frá honum en kröfurnar eru engu að síður fleiri en maður myndi halda. Maðurinn hefur aldrei verið jafn reiður í bíómynd og maður finnur allan tímann fyrir því. Karakterinn er líka svo athyglisverður og lúmskt dularfullur. Áhorfandinn spyr sig við og við hvort það þykir viðeigandi að halda með honum. Svo koma nokkur „intense“ augnablik sem reyna óvænt á svokölluðu leikhæfileika mannsins. Og viti menn, hann stendur sig bara þokkalega!

Það er nettur keimur á myndinni sem minnir óneitanlega á The Good, The Bad and The Ugly (svo er fyndin tilvísun í hana sem ætti alls ekki að fara framhjá neinum nema heyrnarlausum). En þetta þýðir að Johnson er ekki einn að halda söguþræðinum á floti heldur bætast tveir aðrir við (einn er lögga, hinn morðingi – efa að það hafi komið á óvart) og þeir eru leiknir af Billy Bob Thornton og Oliver Jackson-Cohen. Í fyrstu hélt ég að Thornton myndi bara sofa í gegnum þetta hlutverk en hann leggur ágætlega á sig í raun og hlutverkið er engan veginn jafn flatt og fyrstu senurnar gefa til kynna. Cohen aftur á móti er risastórt, spikfeitt spurningarmerki. Karakterinn er svo sérstakur og ferskur að maður ætti að hafa ótrúlega gaman að honum. Cohen er samt aðeins of ýktur og ofleikur hans sveiflast á milli þess að vera skondinn og pirrandi. Það gagnast lítið að minnast á aðra leikara (þrátt fyrir kunnugleg nöfn eins og Carla Gugino, Jennifer Carpenter, Maggie Grace, Tom Berenger, Xander Berkeley og Moon Bloodgood) því það fer ekkert fyrir þeim.
Samt, fyrir utan þessa þrjá ólíku aðalleikara er það stílrúnkið sem er hér fremst í forgrunni. Leikstjórinn George Tillman Jr. reynir eins og hann getur að búa til bræðing af léttri exploitation-mynd og þýðingarmiklum hefndarþriller.

Tónlistarnotkunin og klippingarstíllinn lítur út eins og afrakstur þess ef mynd eftir Quentin Tarantino og Tony Scott yrðu skelltar saman í hrærivél. En þó svo að þetta sé kannski fullmikið á pörtum þá kemur þetta aldrei illa út. Ef eitthvað þá er þetta væga tripp í takt við pumpandi reiði Johnsons, sem er endalaust áþreifanleg út alla myndina eins og áður kom fram. Tónlistin var líka oftar en ekki skemmtilega valin, þó svo að mér finnist eitthvað rangt við það að heyra Kenny Rogers-lagið Just Dropped In í bíómynd án þess að myndin sé The Big Lebowski.

Faster hefur hrúgu af kostum en einnig fulla lúku af göllum, og sá stærsti er endirinn. Hann er ófullnægjandi og í heild sinni kraftlaus miðað við áköfu uppbygginguna. Myndin drullar líka alveg upp á bak með því að gefa upp óvæntar upplýsingar alltof snemma og á asnalegum stað. Þetta gjörsamlega slátraði svokallaðri fléttunni í lokin og möguleikanum á því að hún gæti komið á óvart.

Lokaniðurstaðan er svona: Ef þú ert einn af þeim sem telur The Expendables vera einhverja bestu mynd sem þú hefur séð þá áttu eftir að verða fyrir miklum vonbrigðum með þessa. Ofbeldið stendur fyrir sínu og afþreyingargildið líka en það er auðséð að þessi mynd gæti höfðað betur til kvikmyndanördanna. Sjálfur er ég einnig óður í hefndarmyndir ef þær eru gerðar vel, og Faster er alveg nógu stílísk, klikkuð og óvenjuleg til að hljóta eitt stykki meðmæli frá mér.

Besta senan:
Grjótið berst við samviskuna þegar kemur að trúuðum manni. Svitinn á vöðvafjallinu byrjar að smitast yfir á áhorfandann. Gott atriði.

Sammála/ósammála?