Ókei, þessu þarf að svara í eitt skipti fyrir öll. Ég hef oft verið spurður að þessu, oft hugsað út í þetta og þar af leiðandi verð ég að koma þessu út úr mér vegna þess að ég er í prýðilegri aðstöðu til þess. Auk þess er spurningin ekkert óviðeigandi. Íslend er mikil bíóþjóð, sérstaklega ef við búum til afmarkaðan aldurshóp, og ég myndi halda að meðal Íslendingurinn færi í kringum tvisvar til þrisvar í bíó á mánuði.

Ef þú býrð á höfuðborgarsvæðinu er erfitt að rúnta í tíu mínútur án þess að keyra fram hjá að minnsta kosti einu kvikmyndahúsi. Mér finnst fúlt að segja það en langflest bíóin á landsbyggðinni eru ekki beinlínis eitthvað til að hrópa húrra fyrir. Valið er kannski augljóst fyrir suma, en þetta eru bestu bíóin á Íslandi að mínu mati:

1. Egilshöllin – Kemur varla á óvart, því nýrra er oftast betra í þessu tilfelli. Þetta bíó er nánast draumur og alveg þess virði að eyða bensíninu í ef maður býr langt í burtu frá Grafarvoginum. Salirnir eru allir flottir, andrúmsloftið akkúrat eins og það á að vera í bíói og sætabilið er helber snilld. Engir hönnunargallar og það er alltaf nóg rými þegar fjölmennt er fyrir utan salina.

2. Laugarásbíó –  Þegar margt er um manninn í þessu bíói er tilfinningin ekki mjög þægileg, en sætin eru frekar þægileg og hljóðkerfið magnað. Stóri salurinn er ómetanlegur. Minnsti salurinn er samt ekki upp á marga fiska.

3. Smárabíó – Ég er sammála Heath Ledger Jókernum þegar hann sagðist vera maður með einfaldan smekk, allavega hvað ÞETTA mál varðar. Hér ætlaði ég að segja Bíó Paradís upprunalega því það er ábyggilega eina kvikmyndahúsið á landinu sem „fattar“ hvernig kósí kvikmyndahús eiga að vera. Andrúmsloftið er hreinasta snilld og fær maður menningarlega túristafílinginn alveg beint í æð sem og frí frá öskrandi Hollywood varningi. Tónlistin í hléum og á undan sýningum er heldur ekki líkleg til þess að myrða á manni eyrun með „autó-tjúnaðri“ froðu. Ef Bíó Paradís myndi hertaka svæði eins og Gillz-höllina eða Smárann, þá myndi það svo sannarlega standa undi nafni og rúmlega það. En hins vegar þurfti gamla Regnbogabíóið að vera besta staðsetningin í boði til að bæta einhverju nýju ofan á. Regnboginn var aldrei í neinu uppáhaldi hjá mér, en fínt bíó samt sem áður. Góð kósístemning í Paradísinni þó, og hlélaust er alltaf kostur!

Þriðja sætið tekur á endanum Smárabíó – en bara rétt naumlega. Góð sæti, fínasta stemning og allir salirnir notalegir. Alveg eins og í Egilshöllinni er gott rými fyrir utan þá, og það eina sem þetta bíó hefur fram yfir Egilshöllina er að klósettin eru tvöfalt fleiri og á sitthvorum endanum á hæðinni. Heví næs.

Dæmigert en kannski borðliggjandi val.
Ég ætla ekki að segja hvaða bíó ég myndi flokka sem það versta á landinu, en ég skal gefa þá vísbendingu og segja að það er í Keflavík.

Fokk!

Sammála/ósammála?