Baz Luhrmann er kannski aðeins of upptekinn af sýndarmennsku fyrir suma, með sínar yfirgnæfandi dramaskreytingar og æpandi áhuga á því að taka eitthvað gamaldags og gera eitthvað nútímalegra við það. Hann er allavega í réttu fagi, með réttu eyrun. Í minni bók er erfitt að segja eitthvað annað en ofsalega jákvætt um mann sem er giftur flinkum búninga- og leikmyndahönnuði og hefur eingöngu gert tvær myndir í fullri lengd á hverjum áratugi sem hann hefur unnið, og hver þeirra er veisla á sinn hátt.

Eftir að hafa komið með mjög sérstakan snúning á Rómeó og Júlíu fyrir heilum 17 árum síðan stekkur leikstjórinn á eina virtustu amerísku skáldsögu allra tíma sem, nota bene, nálgast fljótlega 100 ára afmæli sitt, og á enn öll sín jákvæðustu lýsingarorð skilið. Að kvikmynda bókina er samt gríðarlega erfitt djobb án þess að strípa niður eitthvað af því sem gerir hana klassíska. Skilaboðin eru tímalaus, en The Great Gatsby, eins og Luhrmann hefur dressað söguna upp, er aðeins meira krem heldur en kaka, en merkilega góð er hún samt. Ábótavant, en lífleg, öðruvísi og glitrandi flott aðlögun.

Það skiptir varla miklu máli hversu oft einhver ætlar að kvikmynda þessa sögu, því það er alltaf þess virði að segja hana aftur og reyna að ná henni betur, enda margir sem túlka hana ólíkt. F. Scott Fitzgerald var sjálfur mikill módernisti og er það ágætis leið til að réttlæta nýju stílíseringuna, bæði hjá framsetningunni og músíkinni. Leikstjórinn gengur samt mörg skref lengra og tjaldar öllu til, svo það sé alveg öruggt að augun verði límd við skjáinn allan tímann.

Baz nýtir reynsluna sína (áhrif úr öllum fyrri myndum hans eru sko vel áberandi) og hrúgar alls konar bíótöfrum og músík-vídeó einkennum í eitt snobbað djass- og popphlaðborð, ef svo má kalla það. Eins mikið og maður býst við því fyrirfram þá er svakalegt hvað skreyting þessa manns er metnaðarfull, lokkandi og rík. Sviðsmyndir, búningar, listræn hönnun, kvikmyndataka og klipping er alveg efni í Óskarsverðlaun. Myndin lítur auðvitað stórglæsilega út, fyrir utan kannski nokkra bakgrunni sem augljóslega voru settir inn eftirá. Það er að vísu meira áberandi í 2D útgáfunni.

Miðað við 140 mínútna sýningartíma er hreint klikkað hversu traust flæðið er. Þetta er ekki alveg sama ofvirka árshátíðin fyrir augu- og eyru og Moulin Rouge! (remix-rússíbaninn sem ég skammast mín ekkert fyrir að halda mikið upp á) en ekkert hrikalega langt frá því í fyrri hlutanum, áður en hlutirnir róast aðeins niður, eðlilega. Leikstjórinn er núna aftur dottinn í þann djarfa pakka að troða nútímatónlist í hundgamla períódu. Lögin eru missterk, en mér fannst þau smellpassa; gömul, ný eða endurflutt, frá átótjúnuðu hipp-hoppi til R&B, Rhapsody in Blue og alls þar á milli! Luhrmann stenst ómögulega þá freistingu að detta í sinn glamúraða gír þegar partíhöldin byrja í Gatsby-sögunni. Ég kvarta samt ekki, ég datt svo mikið inn í þetta. Kann þessi maður að halda partí eða hvað??

Hingað til hefur þekktasta Gatbsy-aðlögunin verið sú sem var gerð árið ’74 með Robert Redford í hlutverkinu góða. Hún var fín en eilítið flöt og átti varla séns í að vera nefnd í sömu setningu og skáldsagan hvað alla dýptina varðar. Nýja myndin er í betri málum þar, án þess að ég kalli hana eitthvað djúpa, og nær betri tökum á t.d. voninni (eða þráhyggjunni, fer eftir hvernig litið er á það), tíðarandanum og sérstaklega þemunum, sem eru unnendum bókarinnar mjög mikilvægar. Hún tekur alveg hæðir og lægðir ameríska draumsins í gegn með réttum hætti en takmörkuðum. Efnishyggjan, idealisminn, stéttamismunurinn, tilfinningaflækjurnar og valdasýkin skín beint í gegn, eins og hún á að gera. Puntið og flugeldasýningin þvælist stöku sinnum fyrir sögunni en andrúmsloftið allavega mótar upplifunina með því að gera stílinn að innihaldinu.

Þessi mynd sýnir upprunalega textanum mikla virðingu en finnur einnig leiðir til að gera uppsetninguna heillandi fyrir nútímaáhorfendur. Maður spyr sig samt hvort hún sé kannski ekki aðeins of háð skrifum Fitzgeralds. Luhrmann heldur í það minnsta hugrekkinu áfram, á röngum stað, með afar þungri voice over-notkun og þvingaðri textaáherslu. Óneitanlega er þetta í takt við lúkkið og flæðið, en stundum koma orðin upp á stöðum þar sem óþarfi er að stafa allt út. Tilfinningalega séð er myndin heldur aum og þess vegna verður hún lítið meira en aðdáunarverð þegar hún á að vera áhrifarík í alvarleikanum, fyrir utan fáein stór atriði sem eru ekki músík- eða veislutengd, en það er þá oftast vegna þess að leikararnir eru með allan huga að því sem þeir gera. Enginn leikari með sjálfsvirðingu þiggur hlutverk í svona umfangsmikilli Great Gatsby-mynd án þess að leggja sig eitthvað fram, og djöfull er ég að meta leikstílinn og hvernig hann er í takt við tímann sinn.

Redford var mjög fínn en einhæfur sem hinn einstaki, dularfulli Jay Gatsby og Leo DiCaprio (í enn einni leit að Óskarsstyttu sem hann á að vera löngu búinn að fá!) sigrar hann um leið og hann fær sína mögnuðu innkomu (með flugeldum!), og í kjölfarið tileinkar sér þetta skemmtilega og flókna titilhlutverk. Rullan fer honum ekkert verr heldur en bleiku jakkafötin. Sjarmanum nær hann hiklaust með drengjalega andliti sínu en hittir líka á hárréttu nóturnar þegar karakterinn sýnir aðeins skuggalegri hliðar – eitthvað sem kom aldrei til greina hjá Redford. Einu skiptin þar sem ég var ekki alveg að kaupa Leo var þegar karakterinn var byrjaður að ofnota þekkta orðatiltæki sitt, sem hann nær ekki alltaf að „púlla“. Kemistrían hans við Carey Mulligan er annars vegar dásamleg, eins og leikkonan er nú vanalega sjálf.

Það tók mig reyndar líka smátíma að venjast Tobey Maguire. Hann er fínn leikari, frábær í vissum senum, en frekar þurr sögumaður. Örugglega hefði einhver annar passað betur í þetta en persóna hans, Nick Carraway, er reyndar líka frekar gölluð í handritinu. Carraway les yfir hálfa myndina, þar sem sagan sögð frá hans sjónarhorni, en samt hverfur hann alltaf meira og meira inn í bakgrunninn sem þriðja hjólið. Sagt var alltaf að Carraway hafi verið nokkurs konar alter-egó Fitzgeralds, og ég fíla hvernig myndin herðir á þessari tengingu með því að láta Carraway skrifa frásögn sína upp. Restin af leikaraliðinu er frekar einhliða í karakterprófílum en enginn er auðgleymdur. Joel Edgerton, Elizabeth Debicki (*slef*), Jason Clarke og Isla Fisher eru t.a.m. fjörug og skemmtileg og hefði eflaust enginn hatað það að sjá aðeins meira gert við þau, helst þessi tvö fyrst nefndu.

Bókin er annars kvikmynduð með slíkum stæl og fögnuði að Luhrmann ætti að hafa tryggt það að enginn kvikmyndaleikstjóri muni snerta hana í komandi framtíð. Mest langar myndina til að vera stærsta, mest „cinematic“ útgáfan af sögunni – og það er hún, og verður. Listræna frelsið sem handritið tekur með völdum breytingum er sömuleiðis meira betrumbætandi heldur en skaðandi að mínu mati, og extra kostur liggur í öllum sjónrænu tilvísunum í Redford-myndina. Best skal auðvitað drekka þessa sögu í sig á blaði, en síðan sakar ekki að hafa aðgang að nýju myndinni ef planið er að upplifa hana eins og kvikmyndað konfekt. Eins ófullkomin og hún er, þá lifði ég mig pínu inn í hana.

thessi

Besta senan:
Á hótelinu. Fitzgerald hefði verið hrifinn.

Sammála/ósammála?