Um þessar mundir eru fáir sem eiga eins mikið skilið að halda vinnunni sinni í sínum geira og Neill Blomkamp. Sci-fi unnnendur þurfa á þessum manni lífsnauðsynlega að halda, sem og öllum sem færa stórar og flottar hugmyndir á skjáinn, með peninga og frelsi en fyrst og fremst viljann til að skapa eitthvað frumsamið í stað þess að skýla sér á bakvið franchise-merki eða eldri titla.

Elysium er meira en velkomið sci-fi eintak og stóískt skref áfram fyrir Blomkamp sem kvikmyndagerðarmann en að sama skapi nokkur vélmennastökk aftur á bak fyrir hugmyndabankann hans. Öflug keyrsla og hreint fullkomið útlit gerir það auðvelt að mæla aðeins með henni þó svo að hún eigi beint erindi í bunka með Prometheus og Oblivion (þ.e.a.s. stíll gegn hálfbökuðu innihaldi). Ætli það sé komið eitthvað feil-mynstur í þessum fjögurra-atkvæða titlum?

Það fer gegn vísindalegum lögmálum að skrifa um Elysium af viti án þess að nefna District 9. Blomkamp getur sjálfum sér um kennt fyrir að byrja ferilinn svona fáránlega, fáránlega vel. D9 mixaði samfélagsrýni við ferskan og flottan grunn, geggjaðan stíl, sprettandi rennsli og sjúkt skemmtilega atburðarás. Enn í dag hættir maður ekki að velta fyrir sér hvað Blomkamp hefði gert með Halo á þessum tíma, eins og upphaflega stóð til þegar hann byrjaði, en District dugði svo vel að maðurinn er enn í sterku uppáhaldi hjá mér þó svo að ég skilji ekki alveg hvað hann var að hugsa með Elysium, á völdum sviðum a.m.k.

Stærra þýðir ekki endilega betra en Blomkamp veit greinilega alveg hvað hann er að gera með fjármagnið sem hann fékk – þrefalt hærra en síðast. Römmunin á þessum úhugsaða heimi hjá honum er klikkuð, sem þýðir að erfitt verður að finna sci-fi mynd sem toppar þessa í útliti. D9 gerði hina mögnuðustu hluti við brandaralega lítinn pening, þess vegna segir það sig nokkurn veginn sjálft að Elysium er eiginlega þrefalt flottari, og stærri, augljóslega. Það sem ég kem mér ekki alveg utan um er hvers vegna leikstjórinn, í stað þess að finna í sér ferskari áttir í tengslum við frásögn, ákvað að nýta þessa aukafúlgu og herma svona svakalega mikið eftir sinni eigin uppskrift.

Það er ýmislegt í Elysium sem er beint tekið upp úr District 9. Til að fá út næstum því sömu mynd þarf ekki annað en að fjarlægja geimverurnar, byggja fleiri, dýrari sett, víxla kyni, útliti og hárvexti á helstu karakterum og skipta út þegar háværum jafnréttisskilaboðum fyrir margfalt breiðari og meira æpandi allegoríu. Blomkamp hefur yndislega grimmt álit á mannkyninu og samkvæmt hans framtíðarsýn munu hlutirnir ekkert breytast eftir hrörnun jarðar. En frekar en að leyfa áhorfendum að lesa á milli línanna (eitthvað sem sci-fi fólk ELSKAR að gera) er lamið vitið úr manni með þessum „current“ undirtónum. Ég elska þegar vísindaskáldsögur daðra við mikilvægar umræður, en þegar hlutirnir eru predikaðir með einföldum hætti kemur í staðinn bara dæmisaga… með vísindum.

Innflytjendamál, heilbrigðiskerfi, elítismi ásamt fleiru fær alveg rosalega svart-hvíta og að mínu mati ódýra meðhöndlun. Sennilega væri þetta minna vandamál ef aðeins meira væri á bakvið hverja persónu í stað þess að hver gegni eingöngu því hlutverki að halda sínum bolta á lofti, þeir eru nefnilega furðu magir (boltarnir þ.e.a.s.), en það er eitt af því sem ég fíla við myndina. Það er alltaf eitthvað í gangi í henni, allar persónur eru með eigin markmið og slást allir svoleiðis um plottið að myndin dettur aldrei niður í leiðinlegan eða orkulítinn kafla. Lúkkið hefði verið nógu aðdáunarvert en flæðið gefur myndinni visst blóðflæði sem heldur sterku þreki í henni.

Ókosturinn við keyrsluna kemur að sjálfsögðu niður á hér um bil allri persónusköpun. Hver og einn er kynntur með ákveðnum prófíl og bætist lítið annað við út söguna; Matt Damon (í stálslegnu formi) er óheppna, móralslausa skyndihetjan á bláþræði, kapitalistatussan er í höndum Jodie Foster (sem veit ekkert hvaða hreim hún á að halda sig við), Alice Braga skilur ekkert eftir sig sem tilfinningalega klisjuspýtan – ásamt dóttir sinni – og Sharlto Copley… ja… hann er reyndar snillingur, og sá eini kemst kemst ótvírætt upp með það að vera einhliða því hann er ekkert annað en túrbó-villimaður af bestu sort. Hann stelur bæði senunni og myndinni, en það að hans karakter gangi upp þýðir ekki að sama eigi við um hina, þó svo að allir í myndinni standa sig þrusuvel. William Fichtner er þar að auki eins Fichtner-legur og hann getur verið. Það er alltaf plús, þó hann gæti allt eins leikið sama karakter í grínmynd.

Eins og áður nefndi þá á næstum því hver einasta persóna í myndinni hliðstæðu í D9. Strax og ég sá það byrjaði mér að vera meira sama um allt, að utanskyldu því hvað Blomkamp nær flatri tilfinningatengingu við mann. Baksögu-flassbökkin gerðu myndinni heldur ekki neina greiða, fyrir utan að vera á öðru tungumáli en ensku til að spara manni enn verri kjánahroll út af stirðum díalog. Handritið syndir annars í skotheldum hugmyndum en holur poppa upp hér og þar og sjaldan fékk ég tilfinninguna eins og ég vissi ekki nákvæmlega hvert þessi saga ætlaði næst. Ef Blomkamp hefur ekki verið ferlega montinn og öruggur með þessari follow-up tilraun þá hefur hann annaðhvort verið blindaður gegn því hversu lítið hann hefur til að bæta við efnislega. Kannski hefur hann alltaf verið svona gallaður penni en bara tekist að fela það betur með ímyndunaraflinu í fyrra skiptið og heimildarmyndastílnum. Það vona ég ekki.

Ef horft er framhjá spurningunni hvort þetta sé eitthvað sérstaklega góð mynd þá er mikill rússíbanafílingur í henni, hart ofbeldi, fín tónlist og dúndrandi sæ-fæ andi til að halda manni uppteknum. Myndin virkar og feilar samtímis. Sorrý, Neill. Þú komst kannski bara of sterkur inn þarna síðast.

fin

Besta senan:
Þegar Copley mætir Alice Braga og dóttur hennar.

Sammála/ósammála?