Skrýtið er að allt í einu skuli vera komin glæný Sin City mynd, níu árum síðar, löngu eftir að flestir aðdáendur voru búnir að gefa upp vonina. Fögnuðurinn er lítill sem enginn, kannski réttilega, og miðað við byltingarkenndu töffsprengjuna sem fyrri myndin gaf manni er kannski skiljanlegt að tekið sé á móti þessari með annaðhvort – eða bæði – hroðalegri væntingarþyngd að baki eða kaldri öxl sem segist hafa séð þetta allt áður.

Robert Rodriguez og Frank Miller geta sjálfum sér um kennt fyrir að hafa ekki vaðið í þessa mynd fyrr í stað þess að draga framleiðsluna á asnaeyrum og líða eins og þeir þurfi á endanum að henda út annarri mynd í stað þess að vilja það af eins brjáluðu passjóni og fyrr, en reyndar sterkum vilja fyrir því að halda uppi góðu afþreyingargildi. Enn í dag, öllum þessum árum síðar, þykir mér hin myndin vera brilliant stykki. Sin City: A Dame to Kill For er hörkufín, bölvunarlega en óhjákvæmilega laus við sama kikkið og ferskleikann en má í þessu tilfelli segja að hún gefi áhorfendum meira af því sama, á þá góðan hátt. Þýðir það sjálfsagt líka að fyrir fólk sem lítur hornauga á hina myndina sem blætiskenndu, „yfirborðskenndu“ noir-veisluna sem hún er (…með ofurstílíseruðu stolti!) er lítill tilgangur að sækja aftur í borgina.

sin-city-a-dame-to-kill-mickey-rourke-1920x1080Líkt og með 300: Rise of an Empire er tekinn eins konar forsögu+framhaldsvinkill á þetta, en bækurnar voru endalaust flakkandi fram og aftur og smellir þessi prýðisvel saman við forverann, burtséð frá kekkjum. En hvort sem má líta á það til hins betra eða verra hefur Miller-andinn hvergi dofnað, og Eva Green að sama skapi aldrei verið heitari (og aldrei eins heitt – greinilega með ofnæmi fyrir flíkum). Stíllinn er kannski engin nýjung en Sin City ‘2’ lítur stórglæsilega út. Ef eitthvað tekst Rodriguez að gera aðeins flottari mynd en síðast. Það er einn af fáeinum kostum sem fylgdi biðtímanum; Umgjörðinni er stillt upp eins og áður en tækninýjungarnar gera þessum expert-múltítaskara kleyft að stuða meira 3D-lífi í þessar blessuðu teikningarnar Millers. Þrívíddarviðbótin er heldur ekki slæm og þjónar skörpum, einföldum römmum eins og í þessum fantavel.

Þjáist A Dame to Kill For að vísu mikið fyrir hálfglataða förðun, en að mestu fyrir það að innihaldið er bara ekki eins beitt, spennandi eða með eins frábærri stemningu og seinast, og nokkra strúktúrsvanda að auki. Þessi er hraðari, (næstum hálftíma…) styttri en hittir sjaldan á leiðinlega mínútu. Gallað flæði kemur samt oft fyrir þegar mislöngum, misgrípandi, sjálfstæðum einingum er klesst saman. Heildar-visjónin er rígheldur bara engan veginn hjá Rod og Miller líkt og áður. Þá skiptist þetta í þrjár stórar einingar, pipraðar með litlum bókendum. Sú nýja hefst á fjörugu örsögunni Just Another Saturday Night og brýtur sig svo upp í tvo frumsamda, tengda búta, The Long, Bad Night og Nancy’s Last Dance, sem eru báðir í styttri kantinum. Helsti tímaþjófurinn er auðvitað titilsagan, sem felur í sér mesta kjötið og gyðjulega kroppasýningu með „tilgangi“.

Sá kafli endurtekur sig líklega hvað mest en heldur fínum dampi. Ég tel það samt vera pínu mistök að presentera þessa sögu óslitna, það gerir bara heildina óskýrari. Hefði verið miklu betri hugmynd að búta henni í tvennt og bæta meiru á hana, til dæmis það sem var skorið úr myndasögunni, enda virkar hún subbulega flýtt og ófullnægjandi nálægt lokum. Þarna fær samt Eva Green að njóta sín í allri sinni dýrð og stelur umhugsunarlaust allri myndinni – alveg eins og hún gerði í 300, hinni Miller-mynd ársins. Minna kynþokkafull og meira í áhættu að brenna upp skjáinn með líkamanum einum – og þessum skerandi töff augum, leikandi sér alla að sinni rullu og camp-tóninum betur en nokkur annar nálægt sér.

sin-city-a-dame-to-kill-for-is-both-good-and-disappointing-5a0c249c-4b29-437a-b393-12c8de72458aAnnars vegar eru Joseph Gordon-Levitt (sem óheppnasti ‘heppni gaur’ í heimi), Powers Boothe, Josh Brolin, Rosario Dawson og fleiri líka í logandi góðum gír, og Mickey Rourke virðist vera að skemmta sér meira sem ómótstæðilega, snarsturlaða ofurmennið Marv. Bruce Willis fetar aftur í gömu spor eins og hann hafi engu gleymt… í gestahlutverki, og verð ég að játa að Jessica Alba kom mér mest á óvart af öllum. Þýðir ekki að hún sé þá orðin einhver frábær leikkona, en þarna er hún með það sem þarf, ótengt dansinum hennar, þó hann megi endilega fylgja með.

Ókostir Nancy-sögunnar koma Alba lítið við. Miller virðist vanalega vera voða annt um tímalínuna í sögunum og allt „continuity“, en í hennar parti er eins og sé kæruleysislega búið að mynda risastóra holu í tengingu myndanna og þátttöku ákveðins karakters sem þarf ekki að nefna. Sumir hefðu kannski átt að rifja upp þá fyrstu betur, en þess á varla að þurfa þegar annar skapaði heiminn og hinn m.a. skaut og klippti báðar.

sin-city-a-dame-to-kill-for-movie-stills

Ýmsir vægast sagt kostulegir kíkja við hér og þar á stuttum tíma en nýta hann rétt, hvort sem það er Ray Liotta að vera ógeðfelldur framhjáhaldari, Christopher Lloyd með heróínsprautu, Stacy Keach sem kartöfluhaus, Chris Meloni sem annar  framhjáhaldari. Síðan eru leikaraskiptin; Dennis Haybert fyllir passlega í skarðið fyrir Michael Clarke Duncan heitins, höfðingjans. Jeremy Piven leysir Michael Madsen af, hressilega, og skiptingin á drápsvélinni Miho veður með hana úr japönskum uppruna yfir í kóreskan, en hún heggur karlmenn í sundur áfram eins og listamaður.

Kostur þykir mér líka að það sé ekki alltaf sjáanlegt að langflestir leikararnir unnu oft í sitthvoru lagi í tökum, og límdir svo saman í skotin eftirá, t.a.m. Rourke og Brolin. Allt þetta fylgir rugluðu samsetningar-taktíkinni hjá Rodriguez. Hann myndar alltaf leikarana með það í höfðinu hvernig skal klippa efnið. Eðlilega rokkar hann enn kvikmyndatökuna og tónlistina eins og pró, Steven Tyler fær meira að segja að skjóta inn einu góðu trakki.

Þegar tvennan er röðuð saman hlið við hlið er skýrt mál að sú nýja fölnar hratt í samanburði, þess vegna viss vonbrigði. En ef maður kann við sig í þessum væb má digga Sin City: A Dame to Kill For bara hreint ágætlega, þar sem hún er ýkt, svöl (að frátöldum fáeinum kjánabitum), skemmtileg, lúmskt lokkandi og stöðugt gleðjandi á augun. Með einmitt lúkkið, þessum leikurum og svona fínni keyrslu, svona miklum Marv er hún alveg þess virði, metin sem ofbeldisfullt, og hæper-harðsoðið stílrúnk með beinþunnu innihaldi.

thessi

Besta senan:
Marv og Manute.

2 svör við “Sin City: A Dame to Kill For”

  1. Hjalti þór Grettisson Avatar

Sammála/ósammála?