Hér er hún, fyrsta íslenska „bíómyndin“ sem kalla má pyntingarklám (fyrst ekkert annað kemur til greina), nema með óvæntu tvisti þar sem hún snýr sér að áhorfandanum og sér til þess að hann verði miskunnarlaust fyrir almestu pyntingunni. Þetta gerir hún ekki með ofbeldi, heldur hreinu, ógeðfelldu stefnuleysi og glataðri, bókstaflega fókuslausri úrvinnslu.

Það að Austur hafi tekist að skila sér í kvikmyndahús er dapurt merki um standard (lærði enginn neitt af Blóðhefnd?!) eða stórsigur fyrir stórt „ekkert“. Hún er mynd sem má mín vegna hverfa sem allra fyrst af yfirborði Klakans ef ekki væri hægt að nota hana sem sýnikennslu um hvernig þú átt ekki að fara að því að teygja svona stíft á ímynduðum lopa.

9457466_1280x720

Austur er lauslega innblásin af hinu svokallaða Stokkseyrarmáli þegar manni var rænt og honum pyntað í sumarbústað. Atburðarásin er nákvæmlega ekkert flóknari en einmitt sú setning, og þ.a.l. gerist ekki rass í allri myndinni. Gæja er rænt af einhliða „þöggum“, þeir keyra með hann út á land, og þegar áfangastaðnum er náð pína þeir hann ítrekað… úr ramma. Punktur!

Á góðum degi mætti rúlla upp þessu innihaldi í korters-langa stuttmynd, og illa gerða að auki. Myndin er drekkhlaðin löngum, díalóg-lausum uppfyllingum, sem samanstanda af öllu frá endalausum bílasenum eða skotum af Ólafi Darra að keðjureykja eða éta snakk. Það hefði verið hægt að spila aðeins með sækólógíuna og sambönd einstaklinganna á skjánum, en slíkt er bara aldrei til umræðu.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

Engin spenna, engin skilaboð, ekkert sjokk, minni tilgangur. Fórnarlambinu fáum við aldrei að kynnast af viti, baksagan er öll týnd og gleymist alveg sjónarhorn þess eftir einhverjar tuttugu mínútur. Allar aðrar tilraunir til „persónusköpunnar“ eru vanhugsaðar og ódýrar. Sá eini sem er eitthvað líklegur til að sleppa úr þessu óskaddaður er auðvitað Ólafur Darri (nota bene, nýbúinn að deila skjánum með McConaughey, Harrelson, Stiller og Neeson!), bara því hann er sá eini þarna með einhverja reynslu og getu til að skila góðu úr engu.

870ae77d2c2310133b4fc937959c42d92b5bb4e6

Það hefði jafnvel verið sniðugt að gera karakter Ólafs einhvern veginn að þungamiðju sögunnar ef áhugi hefði verið fyrir öðru en bara að rétt skima yfir hans merkilega prófíl sem góðhjartaður (?) pedófíll.

Mikilvægt er að taka það fram að handritshöfundurinn Jón Atli Jónasson skrifaði m.a. svellkalda saurinn Frost fyrir fáeinum árum, og eiga þær Austur (sem er leikstjórafrumraun hans) einmitt það sameiginlegt að geta ómögulega borið frásögn í fullri – eða svo mikið sem hálfri – lengd. Kannski vildi Jón Atli keyra myndina alla á sniglahægu tensjóni, myndrænni frásögn, hráum realisma og andrúmslofti, en öll svoleiðis mótíf skolast burt þegar annað hver rammi dettur úr fókus og hver sena á eftir annarri meira ósannfærandi.

Monday_night_football_-_sensory_deprivator_1

Hljóðvinnslan er í algeru rugli. Samræður bergmála oft, en þær missa hvort eð er missa flestar marks – eins sparsamlegar og þær eru. Menn rífa aðallega bara kjaft þegar þeir eru ekki að setja upp harðan svip, fikta í kveikjara og tala um allt sem þeir ætla að gera í stað þess að gefa okkur einhverja innsýn í hvað þeir eru að gera og hvernig áhrif það hefur eða hefur ekki á þá. Ef einhvern tímann verður litið yfir flóru íslenskra drasl-indímynda þá má aldrei sú sena gleymast þar sem manni er skipað fullum hálsi að skafa af happaþrennu, eða atriðið þar sem einn fanturinn lofar dóttur sinni að fara með hana í Smáralindina.

Þegar fréttist út að hópur fólks hafið gengið út úr miðri aðstandenda- og fjölmiðlasýningu greip leikstjórinn víst til þeirra orða að sumir áhorfendur höfðu einfaldlega bara ekki magann í þetta undirheimainnlit sem hann kvikmyndaði (kjaftæði…), enda virðist myndin bera „Stranglega bönnuð innan 16 ára“ merki sitt eins og heiðursstimpil og spáir ekkert í vörusvikunum.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

Merkilega lítið er um ofbeldi í Austur (mest bara fáeinar blóðslettur), alveg eins og það er lítið sem líkist súbstans almennt. Förðunin sleppur svosem en þetta er allt bara þurr, þreytandi æfing í stíl og afbragðs áskorun fyrir þolinmæði hvers og eins.

Persónulega hef ég ekki hugmynd um hverjum þessi mynd er ætluð, en mér leiddist svo mikið yfir henni að hugur minn hvarf á staði sem ég vissi ekki einu sinni að væru til í heilabúinu; dökka, furðulega staði sem komu hvergi umfjöllunarefni myndarinnar við né áhrifum þess. Aðeins tvisvar sinnum á ævi minni hef ég gengið út af bíói og Austur freistaði mín svo, svo mikið. Ég hefði átt að beila og vita betur, en á endanum gat ég bara ekki leyft þessum viðbjóði að sigra mig.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

 

Einn Bósi Ljósár af tíu…

Sammála/ósammála?