Glass væri trúlega meiriháttar ef hún væri viðurkennd sem póstmódernísk paródía, eða grínmynd sem tekur sig svo alvarlega að undirtónarnir og duldu merkingarnar streyma um út í hið óendanlega.

En nei, svo reynist vera að myndin rétt um bil ætlist til þess að þú takir hana alvarlega – eða verra, tengist henni tilfinningaböndum og gerist þátttakandi í spurningaflóðinu, efasemdarflórunni og dramanu í frásögninni. Þar af leiðandi sannar erkitrúðurinn M. Night Shyamalan enn eina ferðina hversu óhóflega er hægt að ofmeta eigin snilligáfu – og endilega varð hann að draga Unbreakable með sér í skítinn, EINU myndina á ferilskránni hans, að mati mínu, sem er áreynslulaus, frábær og gefur dýrðardögum hans í denn eitthvað almennilegt vægi.

Að öllum líkindum verður Glass svo hlægileg einmitt vegna þess að Unbreakable gekk svo vel upp, með sínu alvarlega múdi og krufningarblæti í garð ofurhetjusagna. En ef Shyamalan náði að tappa inn á eitthvað dýpra í tengslum við mannlega þáttinn í Unbreakable, þá hefur það slysast þannig til. Gleymum ekki að Glass er einnig framhald á Split, eða uppstækkaða demo-reel’i James McAvoy demó-reel’inu sem græddi óskiljanlega einhvern hellings pening og ruddi veginn fyrir þessa framlengingu.

Á blaði er það efnileg hugmynd að loka einhverjum þemaþríleik sem sameinar persónur þeirra James McAvoy, Bruce Willis og Samuel L. Jackson. Í smástund virkar eins og möguleikarnir séu ótakmarkaðir, en stærstu spurningarnar voru alltaf þær sömu frá gerjun þessa handrits:

a) Hverju er við (þennan heim og persónurnar) að bæta?

og

b) hvernig í ósköpunum á Shyamalan að geta vakið Bruce Willis úr margra ára svefngöngu sinni þegar gæjum eins og Eli Roth, Sly Stallone og Wes Anderson tókst varla að gera það?

Hins vegar, annað en einkenndi t.d. Split eða The Visit, nær Glass einhvern veginn að skauta á þeirri kexrugluðu framvindu með því sem hún hefur upp á að bjóða; hún er eiginlega þrælskemmtileg þegar hrannast upp nýjar og nýjar aulalegar lausnir eða hindranir í handrinu (á Bruce Willis sumsé núna að vera kominn með bráðafóbíu fyrir úðurum??). Reglulega fékk ég þá tilfinningu eins og Shyamalan væri að reyna að segja okkur prumpubrandara með grafalvarlegan svip, en tvistið er að hann þykist vera að taka existensíalískan útúrsnúning á hvað prumpubrandari er, frekar en að sætta sig við staðreyndina frá byrjun: Hann er að segja brandara!

Sem afbrigðileg framlenging á Unbreakable og Split er Glass bæði meinlaus, drollandi afþreying og argasta klúður, en á meðan henni stendur er eitthvað reglulega skondið við að þrjár semí-athyglisverðar persónur (ein ofurhetja, einn þorpari og eitt… skrímsli?) bíða eftir að einhver söguþráður hrökkvi í gang á meðan þær eru sífellt yfirheyrðar og grillaðar út og inn um staðreyndir sem áhorfandinn þegar veit.

Allir sem horfa á myndina – og þekkja hinar – vita að hið yfirnáttúrulega tíðkast í þessum bíóheimi, en þrátt fyrir það gengur megnið af atburðarásinni út á séfræðing (sem Sarah Paulson nær bæði að ofleika og geispa sig í gegnum) og tilraunir hans að sannfæra lykilfígúrurnar um annað með sálgreiningu. Það má svo sem gefa handritinu prik fyrir að reyna að bragðbæta það sem hefur á undan komið og þessi furðulegi þríleikur leikstjórans gefur honum að minnsta kosti smá rými til að prófa að víkka út gamlar hugmyndir eða finna nýjan vinkil á þær – en þá man hann að sjálfsögðu að góð saga er eflaust gildislaus nema upp koma plott-tvist sem henda allri spilaborginni niður.

Shyamalan reynir þó að halda utan um einhvern púls með temmilega taktríkri tónlist og reynir hann heilmikið að setja einhverja stílíseringu á tiltölulega þurrt sögusvið og tilheyrandi – en fágætan – hasar. Afraksturinn gengur ekki upp (og hasarinn verður bara leiðinlega… “artí”), en á móti má hafa gaman af berserksganginum hjá McAvoy og hvernig hann reynir að lífga upp á alla myndina með sínum óteljandi stillingum. Kannski horfði ég á Split kolvitlaust frá upphafi? Kannski er hún laumulega frábær gamanmynd (svona eins og The Happening eða Devil) og Glass er hin náttúrulega framlenging af því…

Hvort sem svarið er, þá er ljóst að stærsti brandarinn við Glass er tvímælalaust hvernig hún drekkir jafn fínni mynd og Unbreakable – og líka að raunheimurinn hafi á tímabili daðrað við tilhugsunina um að Shyamalan ætti í raun eitthvað “kombakk” í sér. Upp úr þessu væri sterkasta múvið hans að endurræsa Stúart litla á ný eða taka upp hljóðfæraleik utan kameru.

En hvað Glass varðar… þá fylgir henni svona “enter at own risk” yfirlýsing, sérstaklega ef viðkomandi fílaði annaðhvort eða bæði Unbreakable og Split. Myndin er of heilabiluð og tilgerðarlega undarleg (aftur… næstum því á góðan hátt) til þess að vera of rotin eða leiðinleg til gláps, of farsakennd eða furðulega leikin til þess að vera spennandi en hún er uppfull af umræðuverðum hugmyndum, þó hún viti ekki alveg hvernig best er að vinna úr þeim, og hittir kannski einu sinni eða tvisvar á senu sem er skilyrðislaust góð út af fyrir sig. Það eru litlir sigrar í því, en annars sleppur hún sem forvitnileg og bráðfyndin miðjumoðskássa.

Sem að sjálfsögðu þýðir að þetta er þá besta Shyamalan-myndin síðan Unbreakable.

Vei.

Besta senan:
Eitthvað með McAvoy.

Sammála/ósammála?