Þessi mynd rokkar!

… næstum því.

Lof mér að umorða.

Alita: Battle Angel væri trúlega frábær sci-fi perla ef hana vantaði ekki endi…

Í kringum ágætan þriðjung er eins og óþolinmóður framleiðandi hafi tappað í úrið sitt og krafist þess að myndin ljúki þessu af sem fyrst. Framhaldið síðar… eða ekki.

Vissulega kemur “episódískur” strúktúr ekkert á óvart þegar upprunalegu myndasögurnar spanna hátt í níu stykki. Hins vegar er vanalega munur á “anti-climax” og skyndislúttun en hvort tveggja á við í þessu tilfelli. Sem er fúlt, því ég var að rúlla með þessum epíska en þó low-fi manga-cyberpönk rússíbana.

Alita: Battle Angel er útlitslega töff, stílhrein, ýkt með stolti og melódramatísk en lifandi teiknimynd á allan veg; skemmtileg, dýnamísk, persónudrifin og vel samsett. Allt frá því hvernig heimurinn er byggður til meirihluta hasarsins. Leikararnir standa einnig upp úr og blása lífi í mátulega áhugaverða eða litríka karaktera, en ofar öllu er það titilpersónan sem sigrar þetta allt saman og hittir í mark. Auk þess er aldrei nokkurn tímann ásættanlegt að standast Christoph Waltz þegar hann er svona viðkunnanlegur.

Handritið er vissulega tætt til fjandans, ofureinfaldað en þó sundurlaust sum staðar og endurtekur sig á furðulegan hátt á lokametrunum. En… myndin hefur mikla sál og fullkomlega fangar anime-væb uppruna síns með auknum bragðauka frá latino-kryddi Roberts Rodriguez og cyber-punk blætinu sem James Cameron hefur ekki sýnt síðan á Strange Days dögunum vanmetnu. Stílar þessara ólíku leikstjóra virðast ná saman hér með mikilli harmóníu.

Myndin kallar vissulega eftir framhaldi en stendur samt nokkurn veginn ein og sér og hefði gert það ENN BETUR ef hún hefði leyft sér að snyrta og lagfæra aftari hluta framvindunnar. Hasarinn og fílingurinn heldur og Alita sjálf er einstök í túlkun Rosu Salazar og hvaða brelluteymis sem stóð að hönnuninni á bak við karakterinn. Almennt séð lítur myndin prýðilega út (og sérstakt props til sviðsmynda), hún flæðir, gengur og er sérstaklega svöl í þrívídd.

Besta senan:
Griparmarnir.
Þetta er nú anime aðlögun!

Sammála/ósammála?