Ókei. Sko…

HÓLÍ HELJARINNAR HUNDASÚRA HVAÐ ÞETTA ER MIKIL SNILLDAR-fokking-mynd.

Everything Everywhere All at Once fékk mig algjörlega til að óverdósa á “WTF (#$&!) hverjum datt ÞETTA í hug?!”-kvarða súrrealismans. Á móti því er hún líka einkennilega vel skrifuð, listilega klippt og samsett – einlæg, hugljúf, glimrandi frumleg, meiriháttar skemmtileg og meinfyndin vitleysa út í gegn.

Grínlaust gæti þetta vel verið ‘Fury Road’ existensíalísku sýrumyndanna.

Það er alvöru talent í furðuheila og fagmennsku að geta útbúið eitthvað svona helsúrt en ómetanlega sætt á sama tíma. Óumdeillanlega tekst dúóinu, þessum Daníelum (þ.e. Daniel Kwan og Daniel Scheinert), að óskiljanlega búa til kvikmyndaverk sem lætur fyrra verk þeirra (litla gimsteininn Swiss Army Man) líta út eins og bein útsending frá Alþingi í samanburði við allt sem á að heita jarðbundið eða æfing í ölllum klisjum bókarinnar. 

Hún er vissulega alls ekki allra (enda löng, manísk, stöðugt að tönglast á sjöunda gír og almennt algjör abstrakt-grautur) en fyrir minn smekk hinn dásamlegasti ‘bland-í-poka rússíbani.’ 

Því rússíbani er hún.

Á boðstólnum mixast hér sjónarspil, sprell, alvara, steypa, hasar, hugmyndir og tilfinningar; Svona myndir eru ástæðan fyrir því að ég elska dramatíska og öðruvísi bíóveislu. Það er enginn stoður fyrir öðrum rökum en að þessari bíómynd takist sínu ætlunarverki; sem er vissulega algjör djöflabeygla og eru standardar hátt settir, en þarna gengur þetta upp.

Hún hendir öllum boltum sínum á loft og djögglar þeim í tugatalli, en burtséð frá fyrirmyndar framleiðslu þar sem lítið er út á lúkk eða stíl að setja, hittir þessi ræma rakleiðis í mark með því að keyra sig á 1000% einlægni og undurfagurri alvöru sem kemur til móts við agressíva en snargalna grínið. Farsinn er svo snilldarlega ofinn og í senn frábær heilagrautur sem snertir flesti um fjölskyldutengsl, kynslóðabil, sameingu, sundrun, eftirsjár, óteknar ákvarðanir, síendurtekin mistök og vanmetna afl þess að granda einhverjum með manngæsku.  

Frá hinni oftast öflugu Michelle Yeoh. og masterklassa marglaga brilleringu hennar í aðalhlutverkinu hér til uppkomna Short Round (stálhressan Ke Huy Quan – sem lék íka Data í Goonies) eða bravó-level “kallast-að-fara-alla-leið!” skuldbindingu Jamie Lee Curtis; Leikhópurinn rígheldur og dropar af fjölbreyttu fjöri sem dýnamík.

Af þessu og Swiss Army Man að dæma er gott auga og geggjaður húmor að mínu frat-mati sterkur faktor Daníelana. Í seinni deildinni tekst þessari mynd afberandi glæsilega að vera frussandi-öllu-út skíthlægileg vegna hömluleysi hráefnisins, óútreiknanleika farsans og regluna sem hún hefur á eigin kaótík. Hér fer enginn leikari, engin hugmynd, brandari, né nokkur tilraun inn í mixið sett inn af hálfum hug. Titillinn lýgur ekki, þetta er bókstaflega ‘allt og ekkert’ umfjölllunarefni.

Daníelarnir tveir leggja allt undir með teymi sínu og út prumpa þeir einhverju meistara(voða)verki sem grillar í þig heillann, togar í hjartastrengi og yljar sálina til skiptis.

Undirritaður kemst ekki hjá því að furða sig á hvernig hann táraðist svona grimmt við að horfa á über-sósaða bíómynd þar sem atburðarásin býður upp á (… og haldið ykkur fast…) farsakennt fjölheimahopp, bardagasenu þar sem karakter brillerar með mittistösku að vopni, talandi þvottabjörn, mannfólk með pylsuputta, grjótklumpa sem dískútera líf og tilveruna, morð og slagsmál með kynlífstækjum, glimmeri og allt heila klabbið snýst í kringum hringsnúandi ristaða (dómsdags)beyglu. Þetta er aðeins svo fáeint sé nefnt. Rétt smjörþefurinn.

Til að ítreka, Everything Everywhere All at Once er ekki gerð fyrir alla, en hver sem er gæti dýrkað hana; allir ættu að geta séð eitthvað viðtengjanlegt í henni eða gripið eitthvað við hæfi. Þetta er með ferskari, fallegri, dýnamískari, hressari, hugmyndaríkari og meira júník myndum sem ég hef séð síðan Cloud Atlas. Grand, gúrme, grilllaður og gullfallegur magnum ópus af öllum sortum. 

Smekksfólk, sjáið hana, leyfið henni að dembast yfir ykkur og sjáið hana svo aftur!

Besta senan:
Grjót.

Sammála/ósammála?