Kuldi geislar af nákvæmlega sama frumleika sem bíómynd og mætti segja um titilinn sjálfan. Skyndibitinn er skýr. Þetta er pjúra, ólgandi formúla, að því ógleymdu hversu oft Yrsa Sigurðardóttir sem höfundur virðist sækjast í eigin fyrri formúlur sínar. Í þessu tilfelli er í raun með ólíkindum hvað strúktúr, sum þemu og mótíf í framvindunni eru gjarnan keimlík stórsmellinum ‘Ég man þig‘, enda óneitanlega systkinamyndir og búa því miður líka yfir samskonar göllum. Að því sögðu er Kuldi sterkara eintakið; miklu sjálfsöruggara og bitastæðara.

Ef þú fílaðir ‘Ég man þig’ eru himinháar litlar líkur á að þú fáir ekki gott ef ekki meira kikk úr Kulda. Ef viðkomandi kærði sig lítið um þá hátt glímandi tunnu sem sú mynd var er sennilegt að meðmæli á Kulda er þá aðeins meiri rúlletta. Sökum okkar framboðs á íslenskum ‘horror’ myndum er klárt og ljóst að afraksturinn hér gæti verið sá besti síðan ‘Húsið: Trúnaðarmál’ var og hét. Það gæti hljómað eins og aumt ‘vei’, en þannig mætti að vísu segja um margar hverjar klisjurnar sem Yrsa Sigurðardóttir elskar að moða úr. 

Af nægu er reyndar að taka af hinu jákvæða; leikhópurinn er meiriháttar (í báðum tímalínum sögunnar), það er firnasterkt unnið úr þemu um eftirsjá, samskiptaleysi, tengslaleysi og ólíkar birtingarmyndir illsku og fortíðardrauga. Það er vel ofið úr ágætis ‘tvistum’, tæknileg vinnsla stíllúkkar, sagan er tragískur hryllingur; á tíðum daðrandi við dulinn farsa en aldrei verður stemningin of kjánaleg. Tónninn gengur upp ÞRÁTT fyrir allar klisjurnar og vendipunkta í plottinu sem nánast er hægt að spá fyrir upp að mínútu. 

Erlingur Óttar Thoroddsen (Child Eater, Rökkur) sýnir eina ferðina enn að hann er í hárréttu fagi og virðist blæða af honum bíóáhuginn og eldmóður í gegnum jafnvel hinar stirðustu senur, hvort sem slappur eða gargandi díalógur eða lógíkbrestur einkennir umræddar senur. Það er þursasterkur leikstjóri og handritshöfundur í Erlingi, en betri dagar hans bíða þar sem Kuldi kemur í versta (eða besta?) falli út sem bara mátulega meinlaus og næstum-því-magnþrungin æfing. Ekki að það dragi neitt úr því hvað geiraæfingar geta verið kvikmyndagerðarfólki nauðsynlegar.

Bestu hlutirnir í myndinni eru þessir sem eru ekki beint sagðir eða öskraðir út, þau fágætu en lokkandi tilfelli þegar myndmál og múdið fær að anda. Helsti galli kvikmyndarinnar, eða svona það sem dregur heildina hvað mest úr einhverju bitastæðara og umbyltir hana í beinskeyttan B-rússíbana er einfaldlega veik persónusköpun; hvernig söguþráðurinn stýrir persónum en ekki öfugt. Framvindan er fitusnauð og hvergi sena sem gegnir ekki beinum tilgangi í fléttunni en það er eins og það komi á kostnað karaktera.

Fyrir hvern frábæra leikinn frá t.d. Elínu Hall, Halldóru Geirharðs, Jóhannesi Hauki, Birni Stefánssyni, Mikael Kaaber eða ekki síst Ólöfu Höllu Jóhannesdóttur, þá sitja einnig eftir fáeinir leikarar sem eru lítið annað en plottpunktar eða sviðsskraut. Á meðal þeirra helstu eru Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Anna Gunndís Guðmundsdóttir og Kristbjörg Kjeld, jafnvel Selma Björns þó ekkert sé út á frammistöðuna að setja; bara prófílinn.

Það eina sem persónur virðast gera er að útskýra plottið (bæði í A og B sögu). Sama hversu listilega leikararnir ná saman, þá virðast flestir bara gegna þeirri helstu rullu að skýra út allt sem áhorfandinn þarf að vita. Persónusköpunin er svo makalaust aum í stærra menginu þó karakterar séu flestir skýrir í sínum þunnildum, en engu að síður meira erkitýpur en manneskjur, að öllu útlítandi.

Það telst þó eiginlega til afbragðs hróss að myndin hefði vel mátt við því að vera góðu korteri eða ágætum hálftíma lengri, bara upp á að kanna dýpra ofan í sálfræðihluta þessara karaktera og þemun. Þetta hefði líklega styrkt eða keyrt fram kraftinn í lokasenunum og betur útfært (án þess að gefa upp of mikið) súmmeringu alls þess sem hefur verið að krauma í kollum karaktera fram að þeim tímapunkti. Lendingunni er flýtt en þó er lending.

Kuldi gengur samt upp vegna þess að samsetningin á hinu kunnuglega og klassíska í klisjunum er fagleg, andrúmsloftið trekkir, tónlistin smellur og atburðarásin heldur sér, þó svo að höfundar (þá Yrsa og Erlingur) hafi þurft að sippa yfir fáeinar holur. Þessi ágæti hópur fyrir framan og bak við vélarnar skilar einhverjum eldmóði út, einhverju djúsí afli sem gefur ræmunni púls sem hefur akkúrat vantað í aðrar sams konar, til að mynda systkinamynd hennar áðurnefndu. Flétturnar koma fínt út, hljóðrásin í mátulegu overkill’i til að gera hin minnstu hljóð nógu hávær svo áhorfendur slaki aldrei fullmikið á. Sem betur fer er fátt um tómar bregðusenur.

Jú, það er eitthvað um kjánahrollinn í drungahrollinum en fátt er við lokaútkomuna sem meira gildir en afþreyingargildið. Þetta mætti auðvitað allt saman vera meiri máltíð en góður skyndibiti kann líka að kæta á réttu dögunum. Þennan að minnsta kosti matreiðir Erlingur hann prýðisvel og lumar á eigin kryddbrögðum úr sínu heilabúi. Leikstjóraútgáfu, takk!

(mjúk sjöa, dúnmjúk)

Sammála/ósammála?