Ég hafði lengi beðið eftir því að sjá Andrew Niccol stíga aftur í leikstjórasætið. Þarna er ég að tala um tíma löngu fyrir Lord of War og augljóslega þá á undan In Time líka. Fyrir það eitt að skrifa og leikstýra hinni stórmerkilegu Gattaca verður hann alltaf hátt á virðingslista hjá mér, en annars er hann líklega þekktastur fyrir að hafa skrifað The Truman Show. En eins og allir smekksmenn eflaust vita þá var sú síðarnefnda alveg flugbeitt ádeila á sjónvarp og menninguna á bakvið hana. Þessi önnur mynd Niccols, S1m0ne, er bæði ádeila með smá dass af vísindaskáldskap. En ef Gattaca á að teljast góður vísindaskáldskapur (sem hún svo sannarlega er) þá kemur Simone alveg lengst úr hinni áttinni.

2002 var fyrir mér það ár þar sem önnur hver stórmynd olli mér sálarkveljandi vonbrigðum og greinilega nokkrar litlar einnig. Líklegast var ég einn af fáum sem langaði virkilega mikið að sjá S1m0ne en hún stóðst á endanum ekki þær væntingar sem ég gerði til fagmannsins á bakvið hana. En það þýðir auðvitað ekki samstundis að hún sé eitthvað slæm. Hún er nefnilega skítsæmileg. Myndin hefur virkilega ferska og skemmtilega hugmynd en það sem veldur vonbrigðum er nýtingin á henni.

Sem satíra á fjölmiðla, kvikmyndaiðnaðinn og útlitsdýrkun nær myndin góðu flugi fyrsta klukkutímann eða svo. Al Pacino heldur einnig uppi góðu fjöri og hefur líklegast ekki verið svona hress í mörg, mörg ár. Aðrir leikarar eru afar fínir og það er vert að benda á alveg virkilega flotta kvikmyndatöku fyrst maður er kominn út í það að hrósa öllu. Niccol notaði einmitt mjög sérstaka litapallettu í Gattaca og maður sér það strax að hann hefur gert svipað hér, sem kemur rosalega vel út. Það sem Niccol hefði mátt gera betur aftur á móti er tónn myndarinnar. Handritið virðist vera í léttari kantinum en samt finnst manni myndin alltaf vera svo gríðarlega alvarleg. Meira að segja tónlistin er þunglyndari en mestallt sem ég hef heyrt bara í dramamyndum frá árinu 2002. Og það batnar ekki mikið að seinasti hálftími myndarinnar dettur út í enn meiri alvarleika, og þar datt ég nánast út úr allri sögunni og fannst hún fara út í alltof mikla steypu. Grafalvarlega steypu sem lætur mann gleyma því sem er skemmtilegt í lífinu.

Það sem hefur einkennt fyrri handrit Niccols eru gáfur, og það kemur furðumikið á óvart hvað S1m0ne er á mörgum stöðum heiladauð, og þá sérstaklega í tæknideildinni. Einhver sem hefur lágmarksvit á tölvum sér að allt sem er gert hérna er gjörsamlega út úr kú og úrlausnin við lokavandamálinu svokallaða var hreint út sagt hlægileg. Hvort þetta hafi verið partur af einhverju gríni hjá Niccol veit ég ekki alveg um. Mér hefði þótt það frábært ef svo væri, en eins og ég sagði þá er tónninn í svo miklu rugli að húmorinn hálfpartinn týnist.

Niccol er kannski fullalvarlegur leikstjóri til að meðhöndla svona léttara efni. Ég vona samt að Gattaca sé ekki það eina sem hann getur stýrt vel, því ég hef mikla trú á manninum ásamt hugmyndum hans og rithæfileikum. S1m0ne nær rétt svo (bara RÉTT SVO) að skríða yfir miðjumoðseinkunn, þökk sé Pacino. Það er nefnilega eitthvað svo gaman við það að horfa á slíkan gæðaleikara vera að taka þátt í svona farsa þar sem hann hleypur á milli staða og kemur sér sífellt í dýpri gryfju.

Catherine Keener mun mér samt alltaf finnast voða leiðinleg.

Besta senan:
Þegar Pacino reynir að drepa feril Simone með því að gera hana að einhverri rosalegri artý týpu, svona blöndu af Lars von Trier og segjum Lukas Moodyson. Ótrúlega fyndið og viðtökurnar óborganlegar.

Sammála/ósammála?