Eiginlega er nauðsynlegt að óska Ragnari Bragasyni til allra lukku með það að hafa búið til einu íslensku bíómyndina á öllu árinu 2013 sem tókst að mínu mati að skara almennilega fram úr í gæðum. Af heilum sex titlum, sjö íslenskum framleiðslum getur það sagt ansi margt, tæknilega séð, ef erlenda floppið hans Róberts Inga telst með. Ef Raggi yrði m.a.s. krýndur konungur miðjumoðsins bæri hans af öllum þessum myndum án margra spurninga.

Rennum í gegnum þessar stóru, ef við gefum okkur það að kalla þær; árið fór af stað með XL (þessi ofurölvaða), síðan kom Þetta reddast (ekki), Ófeigur gengur aftur („plís-hættu-Laddi“ myndin), Falskur fugl (pínu svo), Hross í oss (hoho-hörmuleg!) og This is Remake (þ.e. Svona er Sanlitun). Málmhaus getur hressilega hallað sér aftur og leyft helstu aðstandendum að æfa ræðurnar sínar litlu og velja sparifötin fyrir Edduna á næsta ári. Það á ekkert roð í hana nema alíslenskur klíkuskandall í kringum hrossin dúkki upp, en við eigum auðvitað að vita betur. Þessi mynd er alls ekki svo langt frá því að vera eins konar rokkandi perla, sem hefur bæði aflið og röddina til þess að ná til mjög margra, eins fráhrindandi og hún lítur út fyrir að vera á fyrra bragði.

Leikstjórinn er tvímælalaust kominn á sitt þægindasvæði þegar kalda, klassíska íslenska vanlíðanin tekur upp allan forgrunn. Málmhaus grípur allavega í hápunktum sínum og gengur upp sem lítil en persónuleg þroskasaga um missi, (bókstaflega) gamaldags unglingauppreisn og almennt tengingarleysi við nánustu og alla aðra í kring. Það hversu þjáðar persónur hans Ragga eru myndar öflugt rými fyrir átök, „kaþarsis“ og ýmislegt sem ekki er flestum ókunnugt. Þó það sé allur gangur á því hversu góður Raggi getur verið þá verðskuldar hann titilinn einn ef ekki besti leikstjórinn okkar, þrátt fyrir feila eins og Fíaskó og Heimsenda.
Oj, Heimsendir.

Klárt er að þetta sé mynd sem er gerð með umhyggju fyrir efninu í huga og Raggi saltar þetta prýðilega með þungu, hér um bil niðurdrepandi litaleysi sem gerir sveitaperíóduna þeim mun leiðinlegri, og það gæti ekki speglað betur lífið hjá aðalpersónunni Heru. Hún er þjáð og útundan í sínum smábæ eftir að eldri bróðir hennar lætur lífið í hrottalegu slysi, beint að hennar augum. Leitar hún á endanum andlegrar huggunar í (létt)metal-tónlist sem reynir stíft á þolinmæði margra í kringum hana, eins og hennar hegðun. Í gegnum þungarokkið heldur hún í minningu bróður síns og tilveran fer þá fyrst að byrja að snúast í hringi.

Hera er svona á milli þess að vera flatur angistarunglingur, sem tekur róttækar ákvarðanir af engri ástæðu en bara til að vera staðalímynd uppreisnarseggsins, og í senn sterk kvenpersóna sem reynir að finna sjálfa sig í sorginni. Persónan er nokkuð athyglisverð en að mestu vegna þess að Þorbjörg Helga leikur hana óaðfinnanlega og gætir sín á því að gera hana aldrei of einhliða. Myndin kemur manni stundum beint inn í hausinn á Heru, og stundum ekki, eins og einhverja kafla vanti. Mér finnst að vísu eins og leikkonan hafi bætt aðeins meiru við rulluna heldur en var til staðar á blaði.

Ingvar Sigurðsson og Halldóra Geirharðs eru meira eða minna til fyrirmyndar sem foreldrar Heru. Nógu slæmt er fyrir þau að þola hávaðasama metalinn, dramastæla í lokuðu, bærilega skemmdu dóttur þeirra og er samband þeirra beggja ekki í besta ástandi heldur. Auðvelt er að mynda sympatíska tengingu við þau og þegar Þorbjörg bætist við verður oftast eitthvað úr því samspili sem togar mann inn. Sveinn Ólafur Gunnarsson er einnig ómissandi viðbót. Flestir eru reyndar afskaplega fínir þar sem þeir eru en Sveinn gegnir mikilvægu aukahlutverki og treður smá hlýju og trúarlegan „contrast“ í söguna. Raggi hefur að vísu alltaf verið hrikalega góður með leikara en mætti í vissum tilfellum bæta örlitlu meira kjöti við persónusköpunina.

Það helsta sem Málmhaus brennir sig á er hvernig kominn er allt annar taktur í söguna á lokahálftímanum. Hún er svo dökk og reið í fyrri hlutanum, sérstaklega í garð kirkjunnar og trú, og fyrir utan nokkra óþolandi krakka alveg í blábyrjun er opnunarsenan með þeim öflugri sem ég hef frá upphafi séð í íslenskri kvikmynd. Eftir ákveðinn dramapunkt (þegar sagan breytist í rauninni í langan eftirmála) sýgur svo myndin í töluvert léttari og aðeins dæmigerðari dúr. Þegar ég hugsa um huggulega lokaskotið og ber það saman við þetta opnunaratriði finnst mér einkennilegt að hugsa að þetta sé úr sömu mynd.

Vandamálið liggur líka í skiptingunni og e.t.v. flæðinu. Til þess að þróunin komist upp með það að fara í bjartari áttir neyðist handritið til þess að svindla smá og velja “auðveldari” leiðina út með töfrandi lausnum á sumum vandamálum. Í kuldanum virkar myndin margfalt betur. Hlutirnir eru oft stafaðir fullmikið út en metin sem sorgardrama er myndin undarlega grípandi. Einföld, en grípandi. Svo þegar Raggi er hættur að nenna að vera alltof alvarlegur þá kemur svona fínn andi en fyrirsjáanleg niðurstaða.

Galdurinn er annars sá að myndin hefur algjörlega sinn einstaka svip sem auðveldar það að taka klisjurnar aðeins betur í sátt. Hún hljómar vel, lítur vel út og er fullvel leikin til að ekki sé hægt að kalla hana áhrifaríka. Myndin verður aldrei of þunglynd heldur, þvinguð eða þreytandi í dramanu og hefur sem betur fer einhvern húmor á milli sorgarinnar. Nýtir hún sömuleiðis músíkina með stæl (Symphony of Destruction, mar!), fullum hálsi og skilur smávegis eftir sig í lok dags.

thessi

Besta senan:
Óvænta bond-ið.

Eitt svar við “Málmhaus”

Sammála/ósammála?