Plottið í X-Men: Days of Future Past virkar kannski í fyrstu flóknara en það er í raun, en þéttpökkuð er þessi mynd samt, klárlega sú metnaðarfyllsta í röðinni, líka sú besta hingað til og sömuleiðis bara fjandi frábært sci-fi ævintýri; skemmtilegra, mannlegra og meira spennandi en finnst oft þarna úti.

X2 var áður toppurinn fyrir mér en þessi sparkar henni úr sessi. Sagan er dökk og dramatísk en viðburðarík og með húmorinn alltaf á kantinum. Myndin er líka hröð (án þess að virka óþægilega flýtt eða of stöppuð), þrusuflott, stútfull af fjölbreyttum hasar en er stanslaust innihaldsdrifin og vitanlega morandi í klikkað góðum leikurum (að frátaldri Halle Berry, en hún varir þægilega stutt). Engan veginn næst svosem að sýna öllum á skjánum næga athygli en myndin síar vel út þá einstaklinga sem skipta sögunni máli og ná að styrkja hana.

Fyrir utan einhverja exposition-örtröð þarna í opnunarköflunum gengur prýðisvel að leggja út plottið og halda því á lofti. Þegar flugið er orðið stöðugt er afþreyingargildið svo gegnumgangandi að heilinn hefur minni tíma til þess að ofreyna sig yfir litlum vangaveltunum. Bæði er það því, jú, það er tímaflakk í sögunni, og fyrir aðdáendur koma líka oft litlar pirrandi spurningar um hvert continuity-ruglingur seríunnar er núna komin.

Hver einasta X-eining hefur verið svo upptekin í því að segja hverja sögu fyrir sig og seinna hafa áhyggjur af öllum tengingunum (á meðan Marvel Studios myndirnar hugsa oft öfugt, sem er ekki nauðsynlega alltaf betra). Tekst samt hér óvenju prýðilega að koma aðeins betra skipulagi á heildina, sem er ákveðinn máttur út af fyrir sig þegar stórmyndirnar eru orðnar sjö að talsins. En miðað við þessar flækjur með tímalínuna og annað gæti varla verið meira viðeigandi að gefa Bryan Singer aftur leikstjórataumana til að leysa þarna úr þeim (eftir bestu getu, hann kom nú sjálfum sér í nokkrar), annars umfram allt flytja efnið upp á nýtt plan.

X-Men-Days-of-Future-Past-Photos-4

Singer markar dúndrandi ‘kombakk’ hér fyrst hann kom sjálfur þessum myndbálki í gang og gaf allan tón fyrir hann líka á sínum tíma. Hann sýndi einn fyrstur manna í nútímaöld að hægt væri að gera allan ýkta andskota í svona myndum svo framarlega sem er tekið heiminn og persónurnar alvarlega. Fyrsta myndin er líka, svo enginn gleymi, einn stærsti áhrifavaldur þess að ofurhetjumyndir komust fyrst í brjálaða tísku, og urðu svo seinna allsráðandi í iðnaðinum.

En Singer, burtséð frá því að vera þessi frumkvöðull geirans í dag, hefur fengið sína drullu í andlitið (þó ég ætli mér að láta áhugamál hans um að sækjast í ólögráða unga pilta alveg eiga sig), og eftir X2, fyrir rúmum áratugi síðan, hefur lítið gengið hjá honum að slá feitt í gegn með myndum sínum síðan. Fyrstu tvær X-myndirnar hans voru ólíkar en einnig fókusaðar á ólíkum sviðum. Með Days of Future Past aftur á móti, hefur hann hnoðað saman það sem best heppnaðist þar og dregur þar að auki með sér trompspilin sem Matthew Vaughn kom með fyrir nokkrum árum. Það er eðalblanda að geta heillað og vakið upp nokkrar gæsahúðir á ný en samt tekist um leið að gera eitthvað brakandi ferskt úr því.

Þegar Fox skemmdi óvart eigið Marvel-merki eftir brottför Singers paraði hann sig seinna upp með Vaughn til að bjarga því sem hægt var og úr því varð First Class til, sem bætti alveg nýrri orku í heiminn. Hélt maður kannski í smástund að hún ætlaði sér að byrja óformlega allt upp á nýtt – en nei, tóku þeir svo bara þá ákvörðun að sameina yngri og eldri hópana í eina mynd, eða réttar sagt, leyfa Wolverine/Hugh Jackman að flakka á milli ólíkra tímalína. Myndin þjónar sumsé bæði tilgangi sem framhald FC og The Last Stand samhliða því að segja sína eigin heildarsögu, og sækir lauslega innblásturinn í samnefndu myndasöguna, sem er með þeim virtari í X-heiminum.

yougyys

Allir leikarar, gamlir og nýrri, eru í toppformi en þar sem sagan er mesmegnis tímasett í fortíðinni, með rokkandi ’70s væb, eru ‘gömlu’ leikararnir flestir í uppstækkuðum gestahlutverkum. Kempurnar Patrick Stewart og Ian McKellen gera lítið en koma dramatíska alvarleikanum öllum til skila í gegnum tiltölulega stuttan skjátíma, en vissulega herramannslega og með ágætum krafti. Lítið af þeim er betra en ekkert, alla daga. Jackman er síðan búinn að stíga yfir öll þreytumerki sín og lætur betur um sig fara heldur en áður í Wolverine-hlutverkinu. Hann er þó aðallega til stuðnings þar sem helsti karakter-kjarninn er byggður í kringum James McAvoy, Michael Fassbender og Jennifer Lawrence.

Seinast þegar Fassbender lék Magneto stal hann allri myndinni sinni. Nú víxlast taflborðið núna og er það McAvoy sem tvímælalaust tileinkar sér þessa mynd, með tilfinningaríkri næmni sem Charles Xavier hefur aldrei áður fengið að sýna á skjánum. Lawrence er einnig í góðum gír; öruggari og harðari en síðast, andlega í rugli – eins og mest allir aðrir – og endalaust frábær í bláu (og slefandi flottu!) fæðingarfötum sínum. Peter Dinklage er orðinn meistari í að rúlla upp öllum smárullum sínum og gefur mjög þurrum karakter eitthvað aðeins auka, Nicholas Hoult er fínn líka en ef einhver leikari skilur eftir einhvern söknuð er það Evan Peters sem Quicksilver. Hann fær algjörlega að leika sér og skína í einu skemmtilegasta atriðinu áður en handritið finnur svo ekkert fyrir hann til að gera lengur.

Það er þessi tenging sem maður hefur óhjákvæmilega gert við þessa lykilkaraktera í gegnum árin sem gefur DofP ákveðið forskot með dramatíkina. Samband Xaviers og Magneto er t.a.m. skoðað frá fleiri grípandi sjónarhornum og gaman er að sjá hvernig Wolverine hefur undanfarið nýst sem miklu mannlegri og flóknari týpa heldur en var. Sem bónus koma þessar mórölsku deilur, skilaboð og kannski snefill af pólitísku biti sem gerir góða X-mynd, og þar fylgir með til dæmis Nixon í gestarullu sem hefði svo innilega átt að heppnast svona vel í Watchmen. Allt Slow-Mo er líka notað með talsverðum stæl, þjónandi frásögninni í stað þess að vera bara stílmont.

Fyrirsjáanlega er öll umgjörð í góðu lagi, brellur meira en það, tónninn gengur og allar endurbætur á hönnunum (búningarnir m.a., sem og förðun Mystique og Beast) eru til hins betra. John Ottman slær einnig tvö aðdáunarverð högg, bæði með klippingu sinni og symfónísku músík, sem er áhrifamikil og ekki síður þegar hún vekur upp kunnuglega hljóma úr X2 sem bindir allt þetta nýja svo skrautlega saman við allt það gamla.

Endurkoma leikstjórans er extra passleg að því leyti að þemagildin einblína dálítið á hugsunina að laga mistök fortíðarinnar, andlega og bókstaflega. Miðað við hversu fátt af þessu meikar almennilegt sense, þar á meðal titillinn, burtséð frá öllum kröftum og öðrum ævintýra-einkennum, er merkilegt hversu traust handritið er í heildina, og með nákvæmlega réttu orkunni sem þarf til hefur Singer tekist að koma sér aftur upp með ofurhetjumynd sem að mínu mati á fullt erindi í hóp þeirra sterkustu úr geiranum.

Vonandi mun X-Men: Apocalypse halda svipuðu róli.

atta

Besta senan:
Xavier ræðir við sjálfan sig.

PS. Svona myndi serían raðast upp hjá mér í dag:
1. DofP – 2. X2 – 3. First Class – 4. The Wolverine – 5. X1 – 6. Last Stand – 7. Blegh-myndin
*UPPFÆRT (júlí ’15)*

PSS.
Horfið héðan í frá eingöngu á The Rogue Cut-útgáfuna (sem útskýrir hvers vegna Anna Paquin er svona ofarlega í kreditlistanum). Mjög góð mynd verður enn betri. 20 mínútum lengri, pakkaðri, ögn epískari útgáfa sem svarar ýmsum spurningum um söguþráðinn (margar sem mér datt aldrei einu sinni í hug að spyrja), sýnir meira af framtíðinni og meiri karakterdýpt.

Sammála/ósammála?