Framhöld af grínmyndum, sér á báti þessi sem birtast fullmörgum árum of seint – til þess eins að græða snöggan aur á endurunnum bröndurum, eru virkilega, VIRKILEGA sjaldan góð hugmynd, ef þá nokkurn tímann (sbr. Anchorman 2, Dumb & Dumber To, Odd Couple II eða jafnvel Blues Brothers 2000). Fúlt hvað virðist vera til mikils að biðja um að sjá undantekningu við þá reglu þegar þú hefur heimskugrín í höndunum.

Það er vanmetin kúnst að geta gert snjalla kómedíu með nautheimskum karakterum. Það er ekkert möst að þurfa að tala niður til áhorfenda eða þrýsta dósahlátursaðstæðum ofan í fólk bara vegna þess að það er í stíl við efnið. Fyrri Zoolander náði þessum balans ágætlega og þangað til nú hefur hún staðið ágætlega ein og sér í 15 ár; heimskulega fyndin, þó umfram allt lifandi, gáfuð á tíðum og með nóg af kvótanlegum línum. Vel tókst til að koma með skot á kostnað tískuheimsins og útlitsdýrkun glamúrbransans án þess að verða of „smögg“ eða ódýr með það. Framhaldið sér um það.

Zoolander 2 er keimlík forvera sínum í fíling en tekur 180° snúning varðandi allt sem viðkemur sambærilegum gæðum eða ferskleika. Það er eins og gleymst hafi að gera hana skemmtilega. Hún byrjar í kolvitlausum gír frá fyrstu mínútu og tapar alveg fluginu áður en meinti söguþráðurinn kemst á nokkuð skrið. Það er ljótur feill að mynd skuli vera svona púkalega ófyndin þegar hún hefst á því að Justin Bieber er skotinn í spað. Sorglegra er að ég hló persónulega meira yfir Spotlight heldur en þessari.

720x405-MCDZOOL_EC019_H

Óútreiknanleikinn er farinn, grillaða trend- og glamúrádeilan er orðin pínlegri, sjálfumgleðin komin á hættulegra level og brandaradælan reiðir sig aðallega á þreytt púðursskot eða óteljandi gestahlutverk sem rista varla dýpra en að hrópa: „Hey, sjáðu hvern við fengum!“. Fyrri myndin var reyndar líka á kafi í cameo-hlutverkum en hún skimaði oftar en ekki yfir þau frekar en að vonast til þess að fræg andlit yrðu nóg til að halda meirihlutanum af fjörinu uppi. Hins vegar hefði alveg mátt fiska út hvaða fræga nafn sem er og skipta því út fyrir Penélope Cruz. Hún hefði alveg notið góðs af því að vera í smærra hlutverki.

Ef gestahlutverkin reyna ekki á rembinginn (fyrir utan að vísu þrælfyndinn alvarleika frá Kiefer Sutherland), þá ættu tilvísanir í betri myndina að sigla þreytuna í höfn, ef ekki skítþreyttir djókar sem snúa að greindarskorti aðalpersónunnar. Það hljóta nú að vera til hugmyndaríkari og skarpari leiðir til þess að minna okkur á það að Derek Zoolander sé gangandi grænmeti.

Zoolander-2-Review-Image

Heppilega erum við þó ekki að ræða mynd sem kóperar sama grunnplott og áður en það sem kemur í staðinn er nógu flatt, sérstaklega þegar maður hugsar um árafjöldann eða þau ummæli að Stiller ætlaði ekki að vaða í framhaldsmynd nema „rétta“ handritið væri klárt. Samt er erfitt að halda því gegn Stiller og Owen Wilson hvað þeir augljóslega ná að finna sig mikið í gömlu hlutverkunum og virðast litlu hafa gleymt. En að sjá aðra skemmta sér í hlutverkum án þess að gleðin smitast út getur fljótlega breyst í sorglega setu þegar tímasetningin mislukkast við annað hvert horn.

Will Ferrell mætir síðan aftur og lætur lengi bíða eftir sér, en háfleygu taktar hans eru fjarri því að bjarga restinni, þó svo að útreiðin hans í lokin sýni merki um eitthvað líf. Kristen Wiig virðist líka vera í essinu sínu og fær að leika sér með skemmtilega en fær ekki nóg að gera með hana. Síðan má auðvitað bóka það að meira húllumhæ hefur verið gert úr þátttöku Ólafs Darra í íslenskum miðlum. Þetta eru fínar sekúndur sem hann fær en ég viðurkenni, að sjá hann dúkka upp í litríku kynsvalli er fyndnara en mest allt sem Stiller reitir af sér á einum og hálfum tíma.

Hlutfallslega séð ættu fleiri brandarar að hitta í mark þegar þú ert með fjóra handritshöfunda (og tveir þeirra Justin Theroux og Nicholas Stoller) og fjallahlass af ágætu talenti. Hefðu aðeins nokkur ár liðið hefði verið mjög auðveldara að afskrifa hana sem bara hvert annað gagnslausa grínframhald, en með 15 ár að baki breytist útkoman í örvæntingu í sérflokki. Bömmer.

 

vond

Skásta senan:
Bílveltan.

Sammála/ósammála?