Viva má kalla gott dæmi um klisju í fínum klæðnaði. Í þessari litlu lítilmagnasögu um vonir, fjölskyldubönd og tengingarleysi fáum við að kynnast Jesús, fátækum, feimnum ljúfling sem vinnur við förðun á drag skemmtistað á Havana en sjálfur hefur þann draum að eigna sér sviðið.

Jesús er annars vegar ekki umkringdur miklum stuðningi. Þegar kemur að stóra tækifærinu, þar sem Jesús kemur fram undir sviðsnafninu Viva, ræðst á hann maður úr áhorfendasalnum. Sá maður reynist vera faðir Jesús, mættur aftur eftir 15 ára fjarveru og fangelsisvist. Jesús er bara eins og hann er, en bráðláti pabbinn er vægast sagt ósamþykkur því að sonur hans spreyti sig með þessum hætti. Þá þarf Jesús að ákveða á milli þess að taka sénsinn á því að rækta drauminn sem hann þráir og vera hann sjálfur eða halda friðnum og sjá hvort meira liggi á bakvið pabba hans sem aldrei áður hefur verið hluti af lífi hans.

A052_C004_1114DU

Það er margt kunnulegt og klisjukennt við það hvernig þessi efniviður er meðhöndlaður en sú saga sem kemur hvað sterkast upp í hugann er Billy Elliot. Framvindan er þráðbein en kemur sjaldan á óvart og sambandsþróun feðganna er beint tekin af lagernum. Að þessu utanskyldu hefði meira mátt gera úr bæði aukapersónum, því margar þeirra eru ansi kostulegar, og sömuleiðis vantaði meira líf og áherslu á hliðstæðu Jesús, hana Vivu, sem hefði mátt skína meira. Innihaldið ýtir henni smávegis til hliðar og einblínir meira á feðgasambandið á meðan ég held að fókus á hvort tveggja hefði skilað betri mynd.

Þó gölluð sé hittir Viva þó í mark á ýmsum lykilsviðum. Hún er laumulega áhrifarík, yljandi og fer létt að fá mann á band með aðalkarakternum og hans samband við föður sinn slær á nokkra brútal strengi án þess að sé mjólkað út melódrama. Jesús er ekkert sérstaklega þrívíður, flókinn eða of spennandi karakter en á móti gæddur þeim kostum að vera bæði sympatískur og viðkunnanlegur, sem að mestu kemur frá Héctor Medina í hlutverkinu. Jorge Perugorría er trúverðugur sem vægast sagt gallaði en umfram allt manneskjulegi faðirinn. Bestur í myndinni er annars vegar Luis Alberto García í hlutverki eiganda klúbbsins sem vill meira en aðrir sjá Jesús fyllilega nýta styrkleika sína til fulls.

Tónlist myndarinnar fer einnig vel með og kemur sem beint frá hjarta hennar. Viva hefur einmitt mikla sál, umhyggju og vissulega einhverja útreið í sér. Hún heldur vel á formúluspilum sína, eins berþunn og hún er yfir heildina. Seinustu skrefin hefðu mátt laga sérstaklega, en geislar af samt af myndinni ákveðin orka og ekki síður þau jákvæðu skilaboð sem hún blæs reglulega út. Segjum auðgleymd en upplífgandi.

 
fin
Besta senan:
Útrásin stóra á sviðinu.

Sammála/ósammála?