Þegar bíómynd mætir upp úr þurru, malar gull í miðasölum og kemur fyrst og fremst þrælskemmtilega á óvart er til mikils að biðja um að fá annað eintak sem er á sama pari, hvað þá betra. John Wick var ein af þessum myndum sem algjörlega sló á réttar nótur, með bálreiðum, einbeittum og skotglöðum Keanu Reeves í burðarhlutverkinu og einfalda keyrslu, glæsilega skipulagðan hasar og snyrtilegan stíl – og mikið af honum. Gegn öllum lögmálum er John Wick: Chapter 2 alveg jafn góð og sú fyrri, reyndar betri á ýmsum sviðum. Myndin ‘öppar’ hasarinn og fílinginn frá þeirri fyrstu jafn mikið og The Raid 2 gerði m.v. sinn forvera… með dásamlegum árangri.

Fyrri myndin hafði auðvitað þessa hefndarkeyrslu sem dreif hana svo sterkt og framhaldið átti auðvitað aldrei séns í að toppa það. Hún skilur þetta hins vegar vel og kýs frekar að fara „meira-er-meira“ leiðina með því að byggja náttúrulega ofan á forverann og breikka svakalega út þennan spennandi heim launmorðingja sem hún gerist snýst kringum. Flestar cash-grab hasarframhaldsmyndir eru yfirleitt bara latar endurtekningar og hálfbakaðar úrvinnslur (heyriði þetta, Taken 2 og 3!). John Wick: Chapter 2 ætlar sér í staðinn að drekkja sér í metnaði og stilla sér upp sem pakkaðri og eitrað töff „miðjumynd“ í tilvonandi þríleik.

john-wick-chapter-2-keanu-reeves-hd-wallpaper-11048

Það er margt og mikið sem Keanu passar bara ekkert inn í, stundum kemur það fyrir með stórmögnuðum og hlægilegum árangri (Dracula, Knock Knock t.d. eða þegar maðurinn reyndi að hnerra í Lake House), en þegar hann finnur kúlið sitt og smellir í rétta hlutverkið er ótakmarkað hversu mikið má halda upp á kauða. John Wick er naglharður, með útgeislun en viðkunnanlegur líka innan um hafsjó af óþokkum, launmorðingjum og villidýrum.

Keanu er orðinn miklu öruggari með sig í rullunni sem hann þegar gjörsamlega rúllaði upp í fyrri lotunni, nema núna er minna pláss fyrir hann til að fara út í of dramatískan ofleik (muniði ekki eftir senunni í nr. 1 þegar hann „sprakk út“?), verður því lágstemmdari og allan tímann svalari fyrir vikið. Ruby Rose og Common eru hörkufínar og fimar viðbætur, með eftirminnilega karaktera ásamt meiriháttar gestainnkomu frá Peter Stomare og (aftur) Ian McShane til að dressa meira kúl í þetta. Laurence Fishburne dúkkar þarna einnig upp í smástund og er þetta trúlega fyrsta skiptið í veröldinni þar sem hann sér um að vera yfirdrifnari en Reeves á skjánum. Gaman að sjá þá báða aftur, en af öllu fína liðinu á skjánum hefur Fishburne eflaust minnst við það bæta.

Ég leit á það sem vondar fréttir þegar ég komst að því fyrirfram að Elísabet Ronaldsdóttir myndi ekki sjá um að klippa þessa, en með aðstoð reyndra leikstjóra, frábærrar kameruvinnu og koríógraffa var það að miklu leyti Betu að þakka að fyrri myndin hafði þennan púls sem hún gerði. Ryþminn var góður, fáeinar senur (eins og á klúbbnum) stórkostlegar og alltaf sá maður hvað var í gangi. Það er einhvern veginn stórmagnað hvernig margar hasarmyndir rugla saman kaótík fyrir samansem-merki á adrenalín og spennu. Hins vegar hleypur klipparinn Evan Schiff þrælvel í skarðið fyrir Betu.

download

Alveg eins og með þá fyrri er hasarinn skemmtilegur, intensífur og ánægjan að sjá Keanu – með sitt ofurmannlega úthald – vaða í hvern óvininn á eftir öðrum stoppar ekki. Fjölbreytnin er líka meiri hér, sem skrifast auðvitað líka á hærra budget, en orkan viðheldur sér vel og magnast sérstaklega í kringum miðbikið. Þarf síðan varla að minnast á það hvað kvikmyndatakan er flott og litabeiting áberandi geggjuð. Ég kann virkilega að meta fantasíuyfirbragðið yfir þessum tón en samt eru slagsmálin oft jarðbundin og brútal. Húmorinn er þó aldrei langt undan. Búturinn með tröppurnar fór með mig…!

Það sem aðskildi John Wick að mörgu leyti frá týpískum B-hefndarmyndum – fyrir utan að sjálfsögðu vönduð vinnubrögð og helfókuseraðan Keanu, blæðandi kúli, eins og áður var nefnt – var einmitt þessi heimur sem myndin skapaði. En í fyrri kaflanum var Wick eins og jarðýta í hefndarhug sínum, en mjög fáir þar áttu hvort sem er roð við hans reynslu og þjálfun. Í öðrum kaflanum er Wick-maskínan umkringd fullt af gæjum sem hafa hlotið sambærilega þjálfun, sem þýðir: meira kaos, erfiðari fantar, harkalegri högg og enn óútreiknanlegra fjör. Klæmaxinn í þessari mynd tekur lokasprettinn úr þeirri fyrstu í nefið og hvernig hætturnar og hindranirnar magnast upp heldur blóðinu flæðandi léttilega út þessa tvo tíma, sama hversu þunnur efniviðurinn verður. Endirinn er líka nett djarfur, og öðruvísi.

Þessi dýrindis, sítrekkjandi ofbeldisballett sem einkennir John Wick: Chapter 2 er meira en fullnægjandi og verður í rauninni erfitt að finna betri pjúra hasarafþreyingu á þessu ári, þar sem öll bestu brögðin tilheyra gamla skólanum. Ef sú þriðja hittir naglann á höfuðið eins vel og báðar tvær Wick-myndirnar hafa gert, þá siglir þetta í óskaplega ljúfan og ómissandi þríleik með langt líf framundan. Meira, takk!

 

atta.png?w=300

 

Besta senan:
Speglasalurinn, eða lestarstöðin.

Sammála/ósammála?