Seint má segja að Child Eater styðjist við frumlegan efnivið en hérna skín það algjörlega í gegn að kvikmyndagerðarmaðurinn Erlingur Óttar Thoroddsen hefur mikla ástríðu fyrir hrollvekjugeiranum. Þetta er fyrsta kvikmyndin hans í fullri lengd (sem á rætur sínar að rekja til samnefndrar stuttmyndar eftir hann), gerð fyrir lítið fjármagn en hún nýtir hvern aur til þess að segja dökka, litla „ævintýrasögu“ sem leikur sér að kunnuglegum formúlum annað slagið.

Í stuttu máli segir sagan frá ungum dreng að nafni Lucas og barnapíunni hans, Helen. Kvöldið þeirra virðist í fyrstu vera ósköp viðburðarlítið en þegar líður að háttartímanum byrjar Lucas að kvarta undan drungalegum hljóðum í fataskápnum sínum. Þegar hann er skyndilega horfinn fer Helen að velta fyrir sér hvort sögusagnir bæjarins séu sannar; að það gangi laus geðbilaður maður sem gæðir sér að augum ungra barna. Þeirra nótt – og martröð – er bara rétt að byrja.

Ef það er eitthvað sem einkennir sterka hrollvekju, þá er það grípandi andrúmsloft. Það skaðar að sjálfsögðu ekki ef leikarar eru upp á sitt besta, þemun athyglisverð og hryllingurinn vekur gæsahúð. Í ódýrari geiramyndunum má fyrirgefa margt ef þær ganga upp á þessum sviðum. Child Eater gerir það næstum því, en heldur lífi í sér með því að spila með einfaldleikann og bjóða upp á hressandi nýtt „bíóskrímsli.“

ce-promo2-800x500

Erlingur fiktar við skemmtilegar pælingar með myndmálinu og sýnir að hann hefur örugg tök á bæði hljóðlátum hryllingsstíl og subbulegum hlaupagangi. Kvikmyndatakan og tónlistin gerir líka heilmikið fyrir óhuggulegu stemninguna sem sóst er eftir. Í þokkabót heldur myndin beinskeyttri keyrslu án þess að hægjað sé of mikið á. Heildarlengdin rétt slær upp í 80 mínútur og hefði varla þolað það að vera mínútu lengri, þrátt fyrir að hún hefði mátt gera aðeins meira við persónurnar á tímaramma sínum.

Umgjörðin er í lagi (sömuleiðis förðunarvinnan, hún er geggjuð) og „ódýri“ bragurinn hefur vissan sjarma, nema þegar kemur að t.d. óslípaðri hljóðvinnslu, sem hér hefði mátt betur fara yfir í lykilatriðum.

a6f04b31e737fa7e1b4b90cc22460821_original

Almennt séð eru leikararnir fantafínir, þó það komi stöku sinnum fyrir að viðbrögð persóna séu óvenju róleg miðað við hryllilegustu aðstæður. En Cait Bliss kemur þokkalegum persónuleika til skila í hlutverki Helen og Colin Critchley gæti varla verið viðkunnanlegri í hlutverki Lucasar litla. Aðrir leikarar fylla ásættanlega upp í aðra íbúa bæjarins en skilja ekkert eftir sig, annað en Jason Martin, sem er æðislega ógeðfelldur sem skúrkurinn sjálfur. Myndin sýnir aldrei of mikið af honum en gervið og útlitið er nógu minnisstætt til þess að selja óhugnaðinn og nærveruna, ef andardrátturinn er ekki þegar búinn að því.

Það leynir sér kannski ekki að framleiðslufjármagnið hefur verið takmarkað en Child Eater miðar hátt og ætti engu að síður að geta fundið sinn aðdáendahóp. Þó svo að innihaldið risti ekki djúpt þykir líklegt að titilpersónan sjái til þess að einhverjir áhorfendur eigi ekki mjög ljúfan svefn að henni lokinni. Ágætis stöff, segjum rúmlega ‘meh’
fin

 

(Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu þann )
Besta senan:
Lokauppgjörið.

Sammála/ósammála?