Hægt og bítandi hef ég áttað mig á því að snillingarnir hjá þessu Laika-stúdíói eru að gera einhvers konar kraftaverk, og þegar maður skoðar þessa litlu katalógu þess er erfitt að segja að þeir séu hræddir við fullorðinsleg þemu og villta sköpunargleði. Coraline er æðislega vel heppuð „barnahrollvekja“, ParaNorman er semí-einstök eineltissaga og The Boxtrolls er fyndin, hjartahlý og flippuð. Sjónrænt séð eru aðstandendur þessara mynda í eins konar sérflokki og hefur þessi stop-motion nálgun þeirra – með aðstoð tölvubrellna – lyft upp líflegum fígúruhönnunum og umhverfum og græjað þeim mikla töfra.

Kubo and the Two Strings, fjórða eintakið í Laika-röðinni, er bara bölvað listaverk og ekkert annað. Gullfalleg í alla staði; heillandi, sorgleg, stórskemmtileg og fyndin en gædd ákveðinni melankólíu sem leysir út ótrúlega póetísku og hjartnæmu drama. Sagan er (merkilegt nokk…) frumsamin og er myndinni leikstýrt af Travis Knight, sjálfum forstjóra Laika. Smáatriðavinnan er með ólíkindum og ljóst er að stúdíóið hefur ekki lagt í metnaðarfyllri sögu áður. Einnig eru nokkrar stórar senur (t.a.m. „origami-sögustundirnar“ og ein hasarsena þar sem framleiðslan studdist við þriggja metra hátt líkan af beinagrind), sem og ýmsar rólegri, sem hafa aflið til þess að gleðja augu og í örskamma stund lama kjálka allra sem kunna gott animation að meta. Það sem annars mest bræðir er einfaldlega hvað sagan hefur hlýja og áhrifaríka sál, og skilaboð hennar snúa að ótta, fjölskylduböndum og mátt ímyndunaraflsins á sterkan hátt án þess að tala nokkurn tímann niður til áhorfandans.

kubo-the-sisters

Reyndar getur verið óneitanlega sérstakt að sjá svona harðlega japanskt yfirbragð á stílnum, sögusviði og persónum þegar hvítasta fólkið í bransanum talsetur þær, en truflar það svosem ekkert til lengdar og standa flestir sig frábærlega hvort sem er í því að blása lífi í sína karaktera. Hvort sem það eru Charlize Theron, Matthew McConaughey, Ralph Fiennes, Rooney Mara eða Art Parkinson sem talsetur eineygða hetjudrenginn Kubo, sem heillar og heldur stuðningi okkar alla leið í för og þróun sinni. Allir sem einn skipast prýðilega á sinn stað og styrkja fígúrur sem eru nú þegar flestar skrautlega hannaðar og eftirminnilegar. Enn get ég þó ekki dæmt um það hvort sami gæðastandard haldist í íslensku talsetningunni, en það gerist nú sjaldan.

Þó hún sé ekki hin týpíska fjölskyldumynd er Kubo and the Two Strings svo sannarlega eitthvað sem allir aldurshópar geta fundið sér eitthvað til að tengja við; karakterarnir, heimurinn, stíllinn, handritið eða ævintýrafílingurinn. Trúlega er myndin of dökk fyrir yngstu áhorfendur en persónulega þykir mér hún ekkert skaðlegri heldur en t.d. Coraline… sem mér skilst að undarlega margir yngri krakkar fíla í klessu. En honum Kubo get ég ekki mælt nógu mikið með, enda besta dæmi um teiknimynd með óaðfinnanlegar pakkningar, virkt hugmyndaflug og umhyggju fyrir hjartanu. Flott og minnisstæð. Dásamleg.

 

 

brill

Besta senan:
Augun.

Sammála/ósammála?